Verðbréfaviðskipti

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 14:19:10 (3499)

2000-12-16 14:19:10# 126. lþ. 52.1 fundur 233. mál: #A verðbréfaviðskipti# (útboð og innherjaviðskipti) frv. 163/2000, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[14:19]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir margt af því sem hv. þm. fjallaði um. Sérstaklega það sem hann ræddi um þýðingu góðs siðferðis fyrir þennan markað. Hann dró mjög réttilega fram að það skiptir miklu máli að það sé gott og lykilatriði er að á markaðnum sé traust.

Hann fjallaði um margs konar hlutverk verðbréfafyrirtækja og ég er honum ósammála í því. Ég held að það sé í lagi að verðbréfafyrirtæki sinni hinum ýmsu þáttum starfsemi á verðbréfamarkaðnum svo sem sölutryggingum, geti verið að kaupa og selja út úr veltubók, geti verið að miðla, geti verið að reka sjóði og annast fjárvörslu. Það er nefnilega líka pláss fyrir aðila sem hasla sér völl á einstökum sviðum, t.d. fyrirtæki sem stunda bara miðlun, fyrirtæki sem eru bara með sjóðarekstur eða sjóðir sem eru algjörlega sjálfstæðir, fyrirtæki sem eru fjárfestingarfélög og annað slíkt. Þegar upp er staðið gengur ekki stóru verðbréfafyrirtæki, sem er á öllum starfssviðunum, vel í samkeppni við þau sem eru á einstökum sviðum nema ákveðinn trúverðugleiki sé í öllu starfinu. Alveg eins og hv. þm. bendir á þarf að vera gott siðferði innan slíks fyrirtækis þannig að það sé ekki að misnota sér trúnað eða gæti ekki fulls trúnaðar við einstaka viðskiptavini.

Ég vil einungis taka þetta fram í framhaldi af ræðu hv. þm.