Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 14:43:00 (3504)

2000-12-16 14:43:00# 126. lþ. 52.2 fundur 310. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001# (breyting ýmissa laga) frv. 174/2000, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[14:43]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér er til 3. umr. frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Frv. fór til umsagnar hv. allshn. og hv. félmn. og mig langar að fara aðeins yfir umsögn 2. minni hluta félmn. þar sem ég tel að hér sé um tiltölulega alvarlega ráðstöfun að ræða og mér finnst að ekki hefði átt að flýta sér að framkvæma hana nú. Ég hefði gjarnan viljað bíða aðeins með þetta og láta kannski sveitarfélögin fá þessi verkefni því að auðvitað kemur líka upp ótti hjá sveitarfélögunum ef taka á burt alla tekjustofna vegna þess að hluti af þessum sjóði, framkvæmdasjóðnum, hefur nefnilega farið til annarra hluta en uppbyggingu sambýla. Það er mjög alvarlegt ef öll þau verkefni eru núna upp í loft því að einhvern veginn verður að tryggja að þau verkefni sem hafa tilheyrt sjóðnum hafi framgang. Ég vil, með leyfi forseta, fara aðeins yfir þá umsögn en þar segir:

,,Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sturlaug Tómasson og Björn Arnar Magnússon frá félagsmálaráðuneyti, Friðrik Sigurðsson, Garðar Sverrisson, Helga Seljan og Arnór Helgason frá Öryrkjabandalagi Íslands.

Annar minni hluti tekur undir efasemdir félaga fatlaðra, Þroskahjálpar og Öryrkjabandalags Íslands, um að ekki sé tímbært að afnema fasta tekjustofna vegna málefna fatlaðra. Fjármunir í Framkvæmdasjóði fatlaðra hafa verið nýttir með margvíslegum hætti fyrir utan byggingu sambýla svo sem til hæfingar- og endurhæfingarstofnana, dagþjónustustofnana fatlaðra, heimila fyrir börn, áfangastaða, skammtímavistana og verndaðra vinnustaða, svo eitthvað sé nefnt og ekki verður séð hvernig tryggja eigi fé til þessara þátta ef lög nr. 12/1952, um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila, verða afnumin.

[14:45]

Frá árinu 1995 hefur tekjustofninn ekki skilað sér til málaflokksins að fullu og ef næsta ár er meðtalið hefur hann orðið af 1,8 milljörðum kr. Ljóst er að biðlistar eftir úrræðum væru ekki í því ófremdarástandi sem nú er ef féð hefði skilað sér að fullu til sjóðsins. Þegar málaflokkurinn fékk fyrst markaðan tekjustofn árið 1978 var ástandið í þjónustunni afleitt, sérstaklega á landsbyggðinni þar sem úrræði voru engin. Nú eru níu af hverju tíu fatlaðra á landsbyggðinni með sambýlisþjónustu en 2/3 fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt upplýsingum frá fulltrúum félagsmálaráðuneytisins. Þó að sjóðurinn hafi verið skertur undanfarin ár telja fulltrúar fatlaðra að það hafi ákveðið gildi til að minna á nauðsynlega uppbyggingu í málaflokknum og tekur 2. minni hluti undir það sjónarmið. Óvissa er með framtíð félagslega húsnæðiskerfisins og því er enn sérkennilegra að gera þessa lagabreytingu nú, enda vaxandi neyð og langir biðlistar eftir húsnæði fyrir fatlaðra. Alls ekki er verið að leysa allan þann vanda með viljayfirlýsingu hæstv. félmrh. Raunar er í algjöru uppnámi hvernig fjármögnun sambýla verður háttað samkvæmt þeirri viljayfirlýsingu. Má þar nefna að stjórnvöld lögðu ekki til neitt viðbótarfjármagn við afgreiðslu fjárlaga til uppbyggingar þeirra og eru vísbendingar um það í skýrslu félmrh. um kostnað vegna þjónustu við fatlaða frá október 2000 að grundvallarbreytingar séu fyrirhugaðar á fjármögnun sambýla fyrir fatlaða. Þar koma fram tillögur um stofnun hlutafélags sem eigi allar (eða flestar) húseignir sem nú eru notaðar í þjónustu við fatlaða og reksturinn yrði fjármagnaður með auknum leigugreiðslum fatlaðra íbúa. Orðrétt segir: ,,Við ákvörðun leigugreiðslna íbúa sambýla hefur verið miðað við að þeir greiði að jafnaði sem svarar 4% af stofnkostnaði í leigu og að árleg niðurgreiðsla húsnæðiskostnaðar verði því sem nemur 6% af stofnkostnaði.`` Varar 2. minni hluti alvarlega við þessari stefnubreytingu sem er grundvallarbreyting á fjármögnun á rekstri þjónustu við fatlaða.

Annar minni hluti telur ástæðulaust að breyta þessu áður en frv. til laga um félagsþjónustu hefur verið samþykkt enda hafa engin rök verið færð fyrir nauðsyn þess. Fyrrgreind lög eiga samkvæmt frv. að falla úr gildi 1. jan. 2001 en málefni fatlaðra munu ekki færast til sveitarfélaganna fyrr en í fyrsta lagi 1. jan. 2002 og telur 2. minni hluti þá óvissu sem með þessu skapast óviðunandi.

Leggst 2. minni hluti gegn ákvæðum frv. um að erfðafjárskattur renni í ríkissjóð í stað Framkvæmdasjóðs fatlaðra.``

Og undir þetta rita hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir og sú sem hér stendur.

Það er líka afar athyglisvert að fylgjast með þeirri viljayfirlýsingu sem gerð var í samvinnu við Öryrkjabandalagið þar sem talað er um milljarð á fimm árum.

Fyrirhugað er að færa þennan málaflokk yfir til sveitarfélaganna og sambýlin munu því falla undir húsnæðismál þeirra. Ég tel afar brýnt að sambýlin og skammtímavistun verði áfram í umsjón sveitarfélaganna. Þannig verður allt eftirlit og öll þjónusta undir smásjá eins og þarf í jafnmikilvægum málum. Fatlaðir þurfa meiri vernd en margir aðrir og því mikilvægt að huga að slíku. Ég benti á það áðan að með því að hafa ekki markaða tekjustofna munu sveitarfélögin frekar halda að sér höndum í því að fá málaflokkinn yfir til sín. Ég teldi það ekki af hinu góða. Þetta hluti þeirrar nærþjónustu sem ég vil meina að sveitarfélögin séu ákaflega vel í stakk búin til að sinna svo fremi sem fjármagn fylgir með.

Ég vil ítreka að við leggjumst eindregið gegn því að þetta verði samþykkt. Það hefði heldur átt að bíða þar til málaflokkurinn væri kominn yfir til sveitarfélaganna.