Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 14:49:51 (3505)

2000-12-16 14:49:51# 126. lþ. 52.2 fundur 310. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001# (breyting ýmissa laga) frv. 174/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[14:49]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér er komið til lokaafgreiðslu mál sem skiptir miklu fyrir fatlaða og hvaða niðurstöðu það fær á hv. Alþingi. Út af fyrir sig má segja að örlög þessa máls séu ráðin. Meiri hlutinn felldi tillögu okkar í stjórnarandstöðunni um að Framkvæmdasjóður fatlaðra héldi því fjármagni sem hann hefur haft alveg frá stofnun hans, þ.e. erfðafjárskatti. Út af fyrir sig þjónar kannski ekki miklum tilgangi, herra forseti, að ræða þetta mál. En ég hygg að viðvaranir séu alltaf af hinu góða. Maður gerir sér auðvitað vonir um að þær geti haft sín áhrif.

Mér finnst líka ástæða til þess, þegar þetta mál er komið til 3. umr., að ræða aðeins um Framkvæmdasjóð fatlaðra. Hann hefur þjónað gífurlega mikilvægu hlutverki í rúma tvo áratugi.

Árið 1979 var þessi sjóður stofnaður, fyrst sem Framkvæmdasjóður öryrkja og þroskaheftra. Nú, 22 árum síðar, þegar nánast á að leggja hann af er rétt að halda því til haga að þetta var fyrsta þingmálið sem ég fékk samþykkt á Alþingi, stofnun Framkvæmdasjóðs öryrkja og þroskaheftra, eins og hann hét árið 1979. Hann fékk töluverða peninga í vöggugjöf. Með þeim peningum hófst gífurleg uppbygging í þessum málaflokki um allt land. Á þeim árum var málum þannig háttað, herra forseti, að þjónusta við fatlaða var bara til staðar í Reykjavík en engin úti á landsbyggðinni. Nú, rúmlega 20 árum síðar, getum við þó fagnað því að þessi sjóður, sem núverandi ríkisstjórn ætlar að reisa af sér minnisvarða með því að leggja af, hefur stuðlað að gífurlegri uppbyggingu í þessum málaflokki á umliðnum tveimur áratugum og þjónustu við fatlað fólk í öllum kjördæmum.

Þrátt fyrir þessa staðreynd er enn mjög margt ógert í þessum málaflokki. Raunverulega, herra forseti, eru þar ákveðin tímamót einnig vegna þess að til stendur að flytja þann málaflokk yfir til sveitarfélaganna að rúmlega ári liðnu, ef ég skil áform hæstv. félmrh. og ríkisstjórnarinnar rétt. Þess vegna er sérkennilegt að nú eigi að leggja af það fjármagn sem hefur runnið til sjóðsins án þess að fyrir liggi endanlegir samningar við sveitarfélögin um hvernig skuli fjármagna málaflokkinn.

Fyrir um hálfum mánuði samdi hæstv. félmrh. við Öryrkjabandalagið og gaf ásamt þeim út yfirlýsingu um búsetumál fatlaðra. Markmið þeirrar yfirlýsingar var að tæma langan biðlista sem hlaðist hafði upp í búsetumálum fatlaðra. Biðlistinn var orðinn æðilangur þannig að hundruð fatlaðra biðu eftir því að fá húsnæði samkvæmt lögum sem unnið er eftir um málefni fatlaðra.

Eftir því sem efni þessarar yfirlýsingar skýrist betur því sérkennilegra verður það. Því meira sem maður skoðar málið þá sér maður hve hættulegt er að fara þá leið sem ríkisstjórnin leggur til. Hún hefur að vísu staðið þannig að málum frá 1995 og svo verður einnig á næsta ári að lögboðin framlög í þennan sjóð hafa verið skert um sem nemur 1.800 millj. kr., herra forseti. Hefði það fjármagn fengið að vera í friði fyrir hæstv. ríkisstjórn og runnið þangað sem það átti að renna lögum samkvæmt --- það stendur jú í lögum að óskert framlag af erfðafjárskatti eigi að renna í ríkissjóð --- þá hefðum við ekki verið með þessa löngu biðlista. Þá hefði hæstv. félmrh. ekki þurft að gefa út þessa yfirlýsingu með Öryrkjabandalaginu. Mér sýnist, eftir skoðun á því máli, að sú yfirlýsing sé meira og minna sýndarmennskuplagg. Ég hef verulegar áhyggjur af því hverjir eiga þar að borga brúsann.

Áður en ég kem að því, herra forseti, þá vil ég halda því til haga að ég tel að það orki mjög tvímælis að ríkisstjórnin hafi undanfarin fimm eða sex ár beitt sér fyrir skerðingu á fjármagni í þennan sjóð. Ég minni á að Landssamtökin Þroskahjálp hafa sagt það opinberlega að þau íhugi að láta á það reyna fyrir dómstólunum hvort hér hafi rétt verið staðið að verki af hálfu stjórnvalda. Hverju tefla þau fram í því efni? Jú, þau segja að ákvæði laga um málefni fatlaðra hafi frá setningu þeirra, sennilega árið 1983 og verið endurskoðuð einu sinni eða tvisvar síðan, tryggt fötluðum mjög fjölbreytta þjónustu á ýmsum sviðum. En þegar við höfum í lögum ákvæði sem tryggja eiga þjónustu, ákvæði sem tryggja réttarstöðu fatlaðra á ýmsum sviðum, þá gengur ekki að afnema það sem máli skiptir til þess að sú þjónusta nái fram að ganga, þ.e. fjármagnið og undirstöður framkvæmdanna. Það hefur ríkisstjórnin hins vegar gert. Það hefði verið rökrétt, herra forseti, að afnema um leið ýmis ákvæði í lögum um málefni fatlaðra sem tryggja eiga þeim þjónustu úr því að fjármagnið til framkvæmdanna er tekið frá sjóðnum sem á að standa undir þjónustunni. Á þeim forsendum hafa Landssamtökin Þroskahjálp íhugað málsókn á hendur ríkisstjórninni.

Nú er málunum svo komið að dagar þessa sjóðs eru taldir. Ríkisstjórnin stefnir að því að leggja þennan sjóð niður og taka fjármagnið sem lögum samkvæmt á að renna í hann í ríkissjóð. Þá veltir maður fyrir sér: Hvernig á að fjármagna þessa uppbyggingu?

Á næstu fimm árum á að útrýma þessum biðlistum. Ég bjóst því eins og fleiri við því að við 3. umr. fjárlaga mundi hæstv. félmrh. sýna lit og flytja fjármagn til málaflokksins til að sýna að eitthvað væri að marka þá yfirlýsingu sem hann gaf út með Öryrkjabandalaginu. Nei, herra forseti, það var svo sannarlega ekki gert. Í málaflokkinn var ekki bætt einni einustu krónu þrátt fyrir yfirlýsingu hæstv. ráðherra, ekki einni einustu krónu. Þegar ég fór að rýna í skýrslu um kostnað við uppbyggingu á þjónustu við fatlaða, sem gerð er í tilefni af því flytja á málaflokkinn yfir til sveitarfélaganna, gangi þau áform eftir eftir rúmlega ár, sá ég að nefnd á vegum ráðherra hefur skoðað uppbygginguna á þessari þjónustu og hvað hún komi til með að kosta í framtíðinni. Þar kemur fram að til að leysa búsetumálin ein og sér, sem eru bara einn hluti af þjónustunni, þurfi 4,4 milljarða í rekstur og stofnkostnað, ef ég man það rétt.

[15:00]

Í fyrsta lagi er við það að athuga að samið var um að það skyldi gert en þá er ekki gert ráð fyrir að á þessu fimm ára tímabili bætist við einn einasti fatlaður sem er í þörf fyrir húsnæði, herra forseti, þannig að biðlistarnir halda áfram.

Þegar skoðuð er fjármögnun á þessu á Öryrkjabandalagið að standa fyrir stofnkostnaði og uppbyggingu og fá til þess lán úr Íbúðalánasjóði með markaðsvöxtum, með 5% vöxtum. Síðan gengur samningurinn út á að þeim fjármagnskostnaði, sem hlýst af slíkri lántöku, geti hann velt yfir í leigukostnað í húsnæðismálum fatlaðra. Með öðrum orðum hélt maður að ríkið mundi taka að sér að fjármagna reksturinn og þar með talinn stofnkostnað. Að vísu er það óhagkvæmara fyrir ríkið en áður var vegna þess að sett var fjármagn beint inn í sjóðinn sem fjármagnaði samtímis uppbygginguna eftir því sem peningar voru til staðar í sjóðnum. Því safnaðist ekki upp neinn fjármagnskostnaður af framkvæmdunum en þetta var sú tilhögun sem stefnt var að að koma á. Þegar maður les svo skýrsluna nánar kemur maður auga á hvernig ríkisstjórnin ætlar að haga þessum málum í framtíðinni, hver er framtíðarsýn hennar í þessum málaflokki. Framtíðarsýnin er sú, herra forseti, að láta íbúa á sambýlum og vistheimilum fatlaðra, þ.e. hina fötluðu og þroskaheftu einstaklinga, standa undir verulegum hluta af leigukostnaði. Þá féll nú gríman af hæstv. félmrh. Þá sýndi hann sitt rétta andlit að það eigi að fara að láta hina fötluðu og þroskaheftu sjálfa standa undir kostnaði við búsetumálin.

Flestir vita að þetta er hópur sem hefur ekki mikla peninga handa á milli. En þarna var þó skrifað í skýrslu ráðherrans hugmynd um að fatlaðir borguðu 4% af leigukostnaði og ríkið 6%. Síðan á að fara að ganga þá götu sem er nú lausn á öllum málum hjá ríkisstjórninni og það er að stofna hlutafélag um öll húsnæðismál fatlaðra, það sem hefur þegar verið byggt af sjóðnum sl. 22 ár og láta alla fara að borga leigu.

Herra forseti. Ég spyr nú: Fyrst þannig á að standa að málum að láta hina fötluðu borga leigu, hefði ekki verið nær að taka allt málið upp í heild sinni og skoða kjör fatlaðra í leiðinni, lífeyrisgreiðslurnar sem renna til þeirra til að þeir geti staðið straum af kostnaði við rekstur á sambýlum og heimilum þar sem þeir búa? En þetta er það sem maður sér fyrir sér að taki við á sama tíma og á að leggja niður sjóðinn.

Ég óttast um framtíðina í þessum málaflokki. Ég óttast hvernig ríkisstjórnin hefur staðið að þessum málum að það gæti tafið fyrir því að þessi málaflokkur fari til sveitarfélaganna þar sem hann á með réttu heima vegna þess að alla nærþjónustu eigum við eftir því sem hægt er að flytja til sveitarfélaganna. Ég óttast það, bæði með tilliti til þeirrar reynslu sem sveitarstjórnir hafa af þessari ríkisstjórn og fjárhagslegum samskiptum við hana, að þetta geti tafið fyrir því að málaflokkurinn flytjist til sveitarfélaganna.

Herra forseti. Margt mætti segja um þetta mál. Ég vil aðeins minnast á það líka, herra forseti, sem er ástæða til að minna á, að Alþingi hefur samþykkt stefnumótun í málefnum langveikra barna. Ríkisstjórnin tók vel í þá tillögu eftir að hún hafði verið samþykkt hér á þingi og boðaði til blaðamannafundar um að nú ætti að taka á málefnum langveikra barna, koma upp margvíslegri þjónustu fyrir langveik börn og þau fengju samræmda þjónustu líkt og fötluð börn fá.

Þessu hefur heldur ekki fylgt fjármagn og tilraunir okkar til að bæta þar úr við fjárlagaafgreiðsluna voru einnig felldar. Það er því að bætast í þann hóp sem fær þjónustu samkvæmt lögum um málefni fatlaðra á sama tíma og undirstöðunum undir þennan sjóð er kippt undan með því að hætta að láta fjármagn af erfðafjárskatti renna inn í sjóðinn. Því verður fylgt fast eftir af hálfu minni hlutans að við það verði staðið sem bæði Alþingi og ríkisstjórn hefur boðað að eigi að koma hér, þ.e. að koma upp markvissri þjónustu fyrir langveik börn.

Herra forseti. Margt mætti um þetta mál segja en ég vil einnig halda því til haga að ýmis þjónustuúrræði sem á lögum samkvæmt að framfylgja eru úti í kuldanum þessa stundina og á næsta ári, eftir að fjárlög hafa verið samþykkt og ríkisstjórnin er að leggja lokahönd á að afgreiða þetta mál á þann hátt að taka fjármagnið sem hefur haldið þessum málaflokki uppi. Þetta er verk sem ég vildi ekki hafa staðið að í sporum meiri hlutans ef ég hefði mátt einhverju ráða þar við stjórnvölinn. Ég hef megnustu skömm á því hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á þessum mikilvæga málaflokki sem hefur svo mikla þýðingu fyrir alla fatlaða á landinu.