Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 15:07:31 (3506)

2000-12-16 15:07:31# 126. lþ. 52.2 fundur 310. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001# (breyting ýmissa laga) frv. 174/2000, Frsm. minni hluta MF
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[15:07]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom við afgreiðslu eftir 2. umr. um frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum er minni hluti efh.- og viðskn., og reyndar minni hlutinn hér á þingi, það eru hv. þm. Samfylkingarinnar og hv. þm. vinstri grænna, á móti því frv. sem er til umræðu. Við erum á móti því ákvæði sem felur í sér skerðingu á framlagi til endurbóta á menningarstofnunum eða húsnæði menningarstofnana okkar en við erum ekki síst á móti því að framlög til málefna fatlaðra verði skert eins og þetta frv. felur í sér.

Þannig er að u.þ.b. 0,5% landsmanna þurfa á sérhæfðri þjónustu að halda. Miðað við þær upplýsingar sem hæstv. félmrh. hefur ítrekað komið með í fjölmiðlum er sá kostnaður talinn er nema um 4,1 milljarði kr. Sá kostnaður er töluvert miklu meiri en lagt hefur verið til á fjárlögum ríkisins á hverju ári. Samkvæmt upplýsingum sem koma frá hæstv. félmrh. bætast við þennan kostnað um 300 millj. kr. sem áætlað er að leggja í þjónustu við langveik börn og mikið er búið að tala um. Því er heildarkostnaðurinn við málaflokkinn, sem gert er ráð fyrir að verði á næstu árum um 4,4 milljarðar kr., um 1,16% af útsvarstekjum hvers sveitarfélags en eins og allir vita er ætlunin að sveitarfélögin taki við þessum málaflokki.

Í dag eru 209 fatlaðir einstaklingar á biðlista eftir varanlegu húsnæði eða búsetu. Af þeim 1.061 einstaklingi á aldrinum 16--66 ára sem býr við einhverja fötlun og þarf á á sérstökum úrræðum að halda eru 209 á biðlistum í dag og þeim fer fjölgandi. Ástandið er verst í Reykjavík. Í Reykjavík eru 118 á biðlista eftir búsetu og þar af eru 83 sem bíða eftir vist á sambýli. Á Reykjanesi eru 57 á biðlista og á landsbyggðinni allri eru 34 á biðlista eftir varanlegu húsnæði.

Fyrir stuttu var gerður samningur eða viljayfirlýsing sem var undirrituð af hálfu hæstv. félmrh. og húsnæðissjóði Öryrkjabandalagsins um að á næstu fimm árum yrði bætt að fullu úr þessari þörf og er áætlað að kostnaðurinn við þá fjárfestingu nemi um 1,5 milljörðum kr. Þannig háttar til að skerðing á framlögum í Framkvæmdasjóð fatlaðra síðan 1995 er um 1,8 milljarðar kr. Það er um 300 millj. meira en áætlaður kostnaður við heildarfjárfestingu til að fullnægja búsetuþörfinni sem er hjá þeim fötluðu einstaklingum sem bíða eftir búsetu.

Því er það ekki að ástæðulausu að við í minni hluta efh.- og viðskn. drögum í efa að þetta sé rétt ráðstöfun, að þrátt fyrir verulegar úrbætur sem gerðar hafa verið á síðustu árum sé það rétt ráðstöfun að skerða framlag í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Við teljum eðlilegt að allar frekari ákvarðanir um Framkvæmdasjóð fatlaðra bíði þar til gengið hefur verið að fullu frá tilflutningi þessa málaflokks til sveitarfélaganna. Fyrir utan það sem ég hef nefnt nokkrum sinnum áður, virðulegi forseti, að í þeim útreikningum sem hæstv. félmrh. hefur verið með frá ráðuneyti sínu og fjalla um heildarkostnað við þjónustu við fatlaða þar sem hann talaði um 4,4 milljarða á næsta ári, þá vantar inn í þá tölu miklar framkvæmdir sem okkur ber lögum samkvæmt að fara í, þó ekki sé miðað við þær reglur Sameinuðu þjóðanna, sem við erum aðilar að gera ráð fyrir enn meiri þjónustu við fatlaða.

Ég hef stundum minnst á það að fyrir ári, í október 1999, skilaði starfshópur um menningar- og tómstundastörf fatlaðra skýrslu til hæstv. félmrh. Þessi skýrsla var gerð eftir að tillaga frá mér um að gerð yrði úttekt á menningar- og tómstundastarfi fatlaðra var samþykkt hér. Samþykkt var að gera sérstaklega úttekt á menningar- og tómstundastarfi hjá fötluðum og þar var því beint til hæstv. félmrh. að skipa nefnd sem framkvæmdi þá úttekt. Hæstv. ráðherra gerði það og nefndin skilaði skýrslu sem liggur fyrir í ráðuneytinu þó að hæstv. félmrh. hafi af einhverjum ástæðum láðst að geta þess hver var höfundur þeirrar tilögu sem talað er um á fremstu síðu skýrslunnar. En hún var samþykkt á Alþingi og það hlýtur þá að hafa verið meiningin á bak við það hjá hv. þingmönnum að þeir vildu gera eitthvað við það efni sem safnaðist við slíka yfirferð.

Í ljós kemur að í mjög mörgum þáttum er pottur brotinn hvað varðar aðgengi fatlaðra og möguleika þeirra til tómstunda- og menningarstarfs. Ég nefndi við 1. umr. að það sem sló mig mest var hver bág aðstaðan er hjá þjóðkirkjunni, hve litlir fjármunir hafa verið lagðir í það hjá þjóðkirkjunni að gera hana þannig úr garði að fatlaðir eigi möguleika á að taka þátt í störfum þjóðkirkjunnar til jafns á við ófatlaða. En það voru margar aðrar tillögur og ábendingar sem komu fram hjá þessari nefnd og starfshópurinn leggur fram tillögur til úrbóta á mjög mikilvægum sviðum, ekki einungis hjá ríki heldur einnig hjá sveitarfélögum. Ég spurði formann þeirrar nefndar sem hefur séð um samninga við ríkið út af tilfærslu málefna fatlaðra yfir til sveitarfélaganna og einnig bæjarstjóra Árborgar, sem er stærsta sveitarfélagið á Suðurlandi, hvort tekið hefði verið tillit til þeirra tillagna og ábendinga sem starfshópurinn kom með og hvar þyrfti að bæta úr. Þá er ekki einungis átt við þá þröskulda sem eru sýnilegir og þá fötlun sem öllum er sýnileg heldur eru þarfir allra þeirra sem búa við einhvers konar andlega eða líkamlega fötlun teknar fyrir.

[15:15]

Ég spurði þá hvort tillit hefði verið tekið til þeirra tillagna og ábendinga sem fram komu og skilað var til félmrn. sem fer með sveitarstjórnarmálin og samninga um tilfærslu þessa mikilvæga málaflokks yfir til sveitarfélaganna. Það er nú þannig að enginn kannaðist við skýrsluna, ekki nokkur maður í nefndinni kannaðist við skýrsluna og þar af leiðandi ekki þær ábendingar eða tillögur sem í henni felast um það hvernig við getum fullnægt þörfum fatlaðra til að taka þátt í daglegu lífi í þjóðfélaginu til jafns á við okkur hin.

Með ólíkindum er að ráðuneytið skuli leggja í svo mikla vinnu sem þarna var farið í og ætli svo ekki að nota hana. Rætt var við og óskað eftir svörum við spurningum frá 124 sveitarfélögum landsins, öllum sveitarfélögum þar sem þau fengu spurningalista um hvernig staðan væri hjá hverju sveitarfélagi hvað varðar aðgengi og möguleika fatlaðra til að stunda menningar- og tómstundastarf eða taka þátt í því til jafns á við aðra íbúa.

Það voru auðvitað ekki öll sveitarfélögin sem svöruðu en flest þeirra gerðu það. Fram kemur að í langstærstum hluta sveitarfélaga á landinu er aðstaða fyrir fötluð börn og ungmenni og alla fatlaða til að taka þátt í félagslífi eða menningarlífi afar bágborin. Það sama á auðvitað við um ýmsar stofnanir sem heyra undir menntmrn. Það hefði verið full ástæða til og vissulega er ekki öll nótt úti enn, virðulegi forseti, að fara í utandagskrárumræðu um hvern lið í skýrslunni og hvern kafla. Hún gæti eiginlega ekki verið af styttra taginu því að þær athugasemdir sem gerðar eru eru það alvarlegar að við þurfum að taka ítarlega umræðu um hvern þessara kafla og þyrfti að ræða við nánast alla ráðherrana. Hæstv. félmrh. fékk ósk frá mér fyrir ári síðan um að ræða skýrsluna en hann gat ekki orðið við því. Kannski er það vegna þess að hann hefur veigrað sér við að taka þátt í umræðu sem hlýtur að standa í einhverja klukkutíma um þær aðstæður sem fötluðum er boðið upp á í mjög mörgu tilliti.

Það er þess vegna, virðulegi forseti, sem minni hluti efh.- og viðskn. ásamt þeim flokkum sem mynda minni hlutann á Alþingi --- því miður, því allt horfði þetta nú til betri vegar ef svo væri ekki, þessu væri þá öfugt farið --- styður ekki frv. Það er auðvitað ekki að ástæðulausu sem við höfum tekið þá afstöðu að styðja ekki efnisatriði frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Og hrædd er ég um að ýmsir þeir þingmenn sem í raun samþykktu allar þessar ráðstafanir við afgreiðslu fjárlaga hafi kannski ekki alveg verið með á nótunum um hvað í rauninni er langt í land með að fatlaðir einstaklingar hér á landi búi við það jafnrétti sem við gætum boðið þeim upp á.

Virðulegi forseti. Við erum sem sagt enn og aftur mjög á móti ákvæðum þessa frv. og munum greiða atkvæði gegn því við lokaafgreiðslu þess.