Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 15:57:49 (3511)

2000-12-16 15:57:49# 126. lþ. 52.7 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv. 149/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[15:57]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. svaraði ekki fyrri spurningunni um söluhagnaðinn þar sem yrði 38% skattur. (Gripið fram í.) Nei, ég er að tala um annað, það er söluhagnaður sem fer umfram hámarkið. Skattur á það sem fer í 38% skatt gaf ekki nema 80 millj. á síðasta ári, að mig minnir, og þar af er einn aðili með 50 millj. Það er því eiginlega enginn skattur greiddur af söluhagnaði með 38% skatti, það er bara þannig. Annaðhvort selur fólk ekki eða frestar því.

En varðandi ummæli skattrannsóknarstjóra að ef menn hafa borgað svo og svo mikið eða 10% skatt af arði, þá hafa þeir áður borgað 30% skatt af hagnaði fyrirtækisins, einkahlutafélagsins. En það sem ruglar dæmið hugsanlega er að skattrannsóknarstjóri hefur ekki getað haft hemil á því að menn eru að færa alls konar kostnað undir fyrirtækin og það er hans vandamál. Menn mega ekki draga alls konar einkaneyslu frá kostnaði við hlutafélag, það er bannað.

Það sem ruglar dæmið hugsanlega líka er að menn missa barnabætur og vaxtabætur og alls konar greiðslur sem eru tekjutengdar af tekjum sínum en ekki af tekjum sem fara í gegnum hagnað fyrirtækis og síðan arð. Það kann að valda því að fyrir þá sem eiga börn eða eru með miklar vaxtabætur borgi sig að fara þessa leið en fyrir aðra borgar það sig ekki nema þeir séu með einhvern frádrátt sem er óeðlilegur.