Ferill 162. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 242  —  162. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar um sjálfsábyrgð á fasteignum vegna tjóns af völdum náttúruhamfara.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra eðlilegt að sjálfsábyrgð sé á fasteignum vegna tjóns af völdum náttúruhamfara? Mun ráðherra beita sér fyrir breytingu á lögum?

    Nokkrar ástæður liggja að baki sjálfsábyrgð í vátryggingum. Má þar fyrst telja samhengi sjálfsábyrgðar og iðgjalda. Ljóst er að yfirgnæfandi fjöldi vátryggingartaka kýs að bera hluta áhættu sjálfur gegn lægra iðgjaldi viðkomandi vátryggingar. Má t.d. benda á að samkvæmt upplýsingum frá samtökum vátryggingafélaganna hafa tiltölulega fáir vátryggingartakar keypt húftryggingu ökutækja, kaskó, án sjálfsábyrgðar.
    Þá má nefna að ef ekki er gert ráð fyrir sjálfsábyrgð í viðlagatryggingu mun rekstur vátryggingarinnar aukast verulega vegna þess mikla fjölda smátjóna sem búast má við að verði, komi til náttúruhamfara í líkingu við þær hamfarir sem urðu nú í sumar á Suðurlandi. Með rekstri er bæði átt við tjónabætur og ekki síður þann kostnað sem yrði því samfara að meta öll þessi smátjón. Í dag er Viðlagatrygging Íslands rekin með eins fáum starfsmönnum og hægt er.
    Alltaf má deila um það hvort sjálfsábyrgð sé of há eða of lág. Samkvæmt lögum um Viðlagatryggingu Íslands nemur sjálfsábyrgð nú 5% af þeim verðmætum sem er verið að vátryggja, en þó að lágmarki um 52 þús. kr. sé um að ræða brunatryggðar húseignir og um 520 þús. kr. þegar um er að ræða veitumannvirki og þess háttar eignir. Má telja fullvíst að sem hlutfall þeirra verðmæta sem verið er að tryggja þá sé sjálfsábyrgðin ekki óhófleg.
    Annað atriði sem mælir með að vátryggingartakar beri hluta áhættu sjálfir snýr að endurtryggingarvernd. Ef sjálfsábyrgð er ekki fyrir hendi má gera ráð fyrir að endurtryggingarvernd Viðlagatryggingar verði til muna kostnaðarsamari. Slíkur kostnaðarauki myndi skerða möguleika Viðlagatryggingar til þess að geta staðið við lögboðið hlutverk sitt, nema til kæmi veruleg hækkun iðgjalda.
    Ákvæði um eigin áhættu vátryggingartaka hafa verið í lögum um Viðlagatryggingu Íslands frá upphafi. Góð og gild vátryggingatæknileg rök liggja til grundvallar þeirri sjálfsábyrgð sem lögð er á vátryggingartaka.
    Þegar búið verður að gera upp þau tjón sem urðu á Suðurlandi síðastliðið sumar og fyrir liggja upplýsingar um allar afleiðingar jarðskjálftanna hefur viðskiptaráðherra í hyggju að setja á laggirnar nefnd sem mun gera tillögur um það sem betur megi fara í framkvæmd og rekstri viðlagatryggingarinnar. Má ætla að nefndin taki í starfi sínu m.a. til athugunar samhengi sjálfsábyrgðar og iðgjalda.