Ferill 232. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 250  —  232. mál .




Frumvarp til laga



breytingu á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    5. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Gjaldskyldir aðilar, álagningarstofn og álagt gjald.


    Eftirtaldir eftirlitsskyldir aðilar skulu greiða eftirlitsgjald af álagningarstofni í þeim hlutföllum og stærðum sem hér segir:
     1.      Viðskiptabankar, sparisjóðir og lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir skulu greiða 0,01156% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 350.000 kr.
     2.      Vátryggingafélög skulu greiða 0,26596% af bókfærðum frumtryggingaiðgjöldum og 0,04873% af bókfærðum fengnum endurtryggingaiðgjöldum, þó eigi lægri fjárhæð en 350.000 kr. Vegna söfnunarlíftrygginga greiðist þó eftirlitsgjald sem nemur 0,00615% af nettómismun iðgjaldaskuldar að frádregnum hluta endurtryggjenda í iðgjaldaskuldinni.
     3.      Félög eða einstaklingar sem stunda vátryggingamiðlun skulu greiða 0,04581% af því iðgjaldamagni sem miðlað er á næstliðnu ári, þó eigi lægri fjárhæð en 200.000 kr.
     4.      Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skulu greiða 0,07826% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 250.000 kr. Verðbréfasjóðir skulu greiða 0,01039% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 250.000 kr. Rekstrarfélög verðbréfasjóða skulu greiða 0,08031% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 150.000 kr.
     5.      Kauphallir og aðrir skipulegir tilboðsmarkaðir skulu greiða 0,76297% af rekstrartekjum, þó aldrei lægri fjárhæð en 250.000 kr.
     6.      Lífeyrissjóðir skulu samtals greiða 0,00596% af hreinni eign til greiðslu lífeyris. Greiða skal eftirlitsgjaldið sem 150.000 kr. fastagjald vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris undir einum milljarði króna, 300.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá einum til tíu milljarða króna og 600.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris þar yfir. Það sem þá er ógreitt af eftirlitsgjaldi skv. 1. málsl. greiðist í hlutfalli við fjölda virkra sjóðfélaga.
     7.      Verðbréfamiðstöðvar skulu greiða 0,76297% af rekstrartekjum, þó eigi lægri fjárhæð en 250.000 kr.
     8.      Innlánsdeildir samvinnufélaga og Póstgíróstofa Íslandspósts hf. skulu greiða fastagjald sem nemur 150.000 kr.
     9.      Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins skal greiða 0,01156% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 250.000 kr. Húsbréfadeild Íbúðalánasjóðs skal greiða 0,00031% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 250.000 kr. Kvótaþing skal greiða fastagjald sem nemur 150.000 kr.
     10.      Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta skal greiða fastagjald sem nemur 150.000 kr.
    Útibú erlendra eftirlitsskyldra aðila sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi skulu greiða eftirlitsgjald samkvæmt viðeigandi tölulið 1. mgr.
    Eftirlitsgjald skal reiknast í heilum þúsundum króna. Við álagningu skal jafnframt færa álagningarstofna í þúsundir króna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, segir: ,,Fyrir 15. september ár hvert skal Fjármálaeftirlitið gefa viðskiptaráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila skv. 5. gr.
    Skýrslu Fjármálaeftirlitsins skal fylgja álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi næsta árs ásamt afgreiðslu stjórnar stofnunarinnar á því áliti. Til að samráðsnefndin geti gefið álit sitt skal Fjármálaeftirlitið eigi síðar en 15. ágúst ár hvert senda henni upplýsingar um áætlað rekstrarumfang ásamt skýringum á helstu rekstrarliðum.
    Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds skal viðskiptaráðherra leggja frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi.“
    Meðfylgjandi er skýrsla Fjármálaeftirlitsins skv. 1. mgr. 2. gr. laganna ásamt áliti samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila. Niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds og er því, í samræmi við 3. mgr., lagt fram frumvarp um breytingu á álagningarhlutföllum 5. gr. laganna.



Fylgiskjal I.


Skýrsla til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins
árið 2001, skv. 2. gr. l. nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við
opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.


    Í 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, er kveðið á um málsmeðferð að því er varðar áætlun á rekstrarumfangi Fjármálaeftirlitsins og álagningu eftirlitsgjalds næsta árs:
    „Fyrir 15. september ár hvert skal Fjármálaeftirlitið gefa viðskiptaráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila skv. 5. gr.
    Skýrslu Fjármálaeftirlitsins skal fylgja álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi næsta árs ásamt afgreiðslu stjórnar stofnunarinnar á því áliti. Til að samráðsnefndin geti gefið álit sitt skal Fjármálaeftirlitið eigi síðar en 15. ágúst ár hvert senda henni upplýsingar um áætlað rekstrarumfang ásamt skýringum á helstu rekstrarliðum.
    Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds skal viðskiptaráðherra leggja frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi.“
    Í samræmi við framangreint er viðskiptaráðherra hér með send skýrsla um áætlaðan rekstrarkostnað ársins 2001. Skýrslunni fylgir rekstraráætlun brotin niður á einstaka kostnaðarliði (tafla 1) og yfirlit yfir áætlaða álagningu eftirlitsgjalds fyrir árið 2001, miðað við álagningarþörf samkvæmt rekstraráætlun (tafla 2).
    Í samræmi við 2. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999 hefur Fjármálaeftirlitið leitað álits samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi stofnunarinnar. Sendi Fjármálaeftirlitið nefndinni hinn 15. ágúst drög að rekstraráætlun fyrir stofnunina ásamt skýringum, drög að skiptingu eftirlitsgjaldsins við álagningu og ársreikning Fjármálaeftirlitsins vegna ársins 1999. Fjármálaeftirlitið átti fund með nefndinni hinn 29. ágúst sl. þar sem áætlunin var rædd og skilaði samráðsnefndin óformlegum ábendingum til Fjármálaeftirlitsins hinn 1. september sl. Stjórn Fjármálaeftirlitsins fjallaði um ábendingar nefndarinnar á stjórnarfundi 12. september og í kjölfarið var samráðsnefndinni gefið tækifæri til að koma endanlegu áliti sínu á framfæri. Fylgir það hjálagt. Í skýrslu þessari felast sjónarmið stjórnar Fjármálaeftirlitsins varðandi álit samráðsnefndarinnar.

1. Rekstur Fjármálaeftirlitsins á árinu 1999, álagning vegna ársins 2000.
Rekstur á árinu 1999.
    Tekjuafgangur af rekstri Fjármálaeftirlitsins á árinu 1999 nam samtals 35,6 m.kr. Ástæður þessa voru m.a. að stofnkostnaður við kaup á tölvubúnaði var lægri en áætlað var í upphafi, þar sem ákveðið var að taka búnaðinn á leigu. Einnig var farið hægar í nýráðningar en áætlað var.
    Tekjuafgangurinn á árinu reyndist 17,9 m.kr. hærri en endurskoðuð áætlun á miðju ári 1999 gerði ráð fyrir, en í endurskoðaðri áætlun sem samráðsnefnd var kynnt þá var gert ráð fyrir að tekjuafgangur næmi 17,7 m.kr.
    Rétt er að taka fram að Fjármálaeftirlitið nýtur ekki vaxtatekna af viðskiptareikningi sínum en allar A-hluta stofnanir ríkissjóðs eiga bankaviðskipti sín við Seðlabanka Íslands samkvæmt samningi sem Fjármálaráðuneytið og bankinn hafa gert sín á milli. Samkvæmt samningnum greiða stofnanirnar ekki dráttarvexti ef staða reiknings er neikvæð og fá ekki vexti af inneign.
    Ljóst er að Fjármálaeftirlitið hefur nokkra sérstöðu hvað varðar öflun rekstrarfjár. Þannig innheimtir stofnunin sjálf eftirlitsgjald ársþriðjungslega hjá eftirlitsskyldum aðilum og leiðir sú skipan til þess að staða viðskiptareiknings hennar er sjaldnast neikvæð. Því telur Fjármálaeftirlitið eðlilegt að hugað sé að endurskoðun á fyrrgreindri skipan hvað varðar stofnunina.
    Um rekstur FME á árinu 1999 er að öðru leyti vísað til ársreiknings og skýringa með honum.

Álagning vegna ársins 2000.
    Álagning eftirlitsgjalds á árinu 2000 var byggð á álagningarhlutföllum, skv. 5. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Við ákvörðun þeirra álagningarhlutfalla var gert ráð fyrir að innheimtar yrðu 185.197 þús. kr. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að álagningin nemi 7,1 m.kr. hærri fjárhæð, eða 192.300 þús. kr. Ástæður þessa eru tvíþættar. Annars vegar áhrif vegna hækkunar lágmarksgjalda og hins vegar vegna nýrra eftirlitsskyldra aðila.

2. Endurskoðuð rekstraráætlun vegna ársins 2000.
    Við gerð rekstraráætlunar fyrir árið 2001 hefur FME endurskoðað rekstraráætlun þessa árs. Samkvæmt þeirri áætlun er gert ráð fyrir að rekstur stofnunarinnar verði innan áætlunar og að heildarrekstrarkostnaður stofnunarinnar muni nema 195.268 m.kr. eða 7,6 m.kr. minna en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir.
    Helstu frávik frá upphaflegri áætlun eru að launakostnaður er áætlaður lægri en upphaflega var gert ráð fyrir. Ástæða þess er að farið hefur verið hægar í nýráðningar. Þá er áætlað að ferðakostnaður innanlands, eignakaup og óvissuútgjöld verði lægri en gert var ráð fyrir. Hins vegar er rekstur tölvubúnaðar og aðkeypt sérfræðiþjónusta hærri en gert var ráð fyrir, en það stafar einkum af kaupum á hugbúnaði, m.a. vegna gagnagrunna. Þá er viðbótarkostnaður vegna styrkja til starfsmannafélags, einkum vegna gististyrks, sem kemur í stað sumarbústaðarkostnaðar.
    Gert er ráð fyrir að heildarrekstrarafgangur sem komi til frádráttar álagningu næsta árs nemi 32,6 m.kr., sem borið saman við upphaflega áætlun vegna ársins 2000 má sundurgreina þannig: 17,9 m.kr. vegna hækkunar á yfirfærðri fjárhæð frá árinu 1999 (sbr. umfjöllun um rekstur á árinu 1999 í tölul. 1 hér á undan), 7,1 m.kr. vegna aukningar á álögðum eftirlitsgjöldum (sbr. umfjöllun um álagningu vegna ársins 2000 í tölul. 1 hér á undan) og 7,6 m.kr. vegna lægri rekstrarkostnaðar (sbr. umfjöllun hér á undan um endurskoðaða rekstraráætlun vegna ársins 2000).

3. Rekstraráætlun fyrir árið 2001.
    Í töflu 1 er birt rekstraráætlun fyrir árið 2001 í samanburði við upphaflega rekstraráætlun og endurskoðaða áætlun fyrir þetta ár. Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu forsendum hennar.

Launakostnaður.
    Nú starfa í Fjármálaeftirlitinu 25 starfsmenn í um rúmlega 23 stöðugildum, að forstjóra meðtöldum. Þá hafa þrír starfsmenn að auki verið ráðnir yfir sumartímann. Starfsmenn í upphafi árs 1999 voru 23 í tæplega 22 stöðugildum, en til fróðleiks má nefna að í bankaeftirliti Seðlabanka Íslands og Vátryggingaeftirlitinu störfuðu 27 starfsmenn í tæplega 26 stöðugildum þegar mest lét.
    Launabreytingar hafa fylgt kjarasamningum, en starfsmenn FME þiggja laun samkvæmt kjarasamningum bankamanna og kjarasamningum opinberra starfsmanna. Auk þess hafa laun að nokkru verið samræmd og leiðrétt til að mæta aukinni samkeppni um starfsfólk á fjármagnsmarkaði. Þá hefur yfirvinna aukist nokkuð vegna aukins vinnuálags. Í áætlun fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að launahækkanir samkvæmt kjarasamningum bankamanna og samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna sem lausir eru á næstu mánuðum verði í takt við samninga sem gerðir hafa verið. Jafnframt er í áætluninni gert ráð fyrir öðrum samningsbundnum starfsaldurstengdum breytingum á launum. Framangreindir þættir leiða samtals til 7,0% hækkunar á launum milli áranna 2000 og 2001.
    Ekki hefur enn verið ráðist í nýráðningar í þeim mæli sem gert var ráð fyrir í upphaflegri áætlun fyrir þetta ár. Leitast hefur verið við að ná fram hagræðingu innan stofnunarinnar með því að nýta eins og kostur er þá þekkingu sem fyrir er. Nú er hins vegar brýnt að mæta auknu álagi og nýjum verkefnum með fjölgun starfsfólks. Með auknu umfangi og fjölbreyttari starfsemi fjármálafyrirtækja hefur afgreiðslu- og eftirlitsverkefnum Fjármálaeftirlitsins fjölgað. Þá er fyrirsjáanlegt að auka þurfi enn eftirlit á ýmsum sviðum á næstu árum, svo sem á sviði verðbréfamarkaðar. Jafnframt verður Fjármálaeftirlitið að geta mætt auknum kröfum um málshraða í starfsemi sinni. Því er í áætlun fyrir næsta ár gert ráð fyrir 3 sérfræðingum og einum almennum starfsmanni, til viðbótar við núverandi starfsmenn.
    Að teknu tilliti til framangreindra forsendna er gert ráð fyrir að laun og launatengd gjöld á árinu 2001 nemi 162.187 þús. kr.
    Sundurliðun á þessum forsendum er að finna í töflu 1.
    Laun stjórnarmanna og varastjórnarmanna eru ákveðin af ráðherra, en varastjórnarmenn sitja einnig stjórnarfundi. Laun stjórnarmanna voru í upphafi í samræmi við laun bankaráðsmanna í Seðlabanka Íslands og þeim viðskiptabönkum þar sem viðskiptaráðherra hefur farið með meiri hluta atkvæða á hluthafafundi, en eru nú lægri en í fyrrgreindum viðskiptabönkum.

Kostnaður við endurmenntun, námskeið, starfsmannafélag o.fl.
    Í stefnu stjórnar Fjármálaeftirlitsins er m.a. lögð áhersla á að auka hæfni og þekkingu starfsmanna. Einn liður í framkvæmd þeirrar stefnu er að kosta þátttöku starfsmanna í áhugaverðum námskeiðum. Gert er ráð fyrir að haldið verði áfram á sömu braut. Varðandi kostnað vegna starfsmannafélags er þar um að ræða íþróttastyrki og gististyrki/sumarhúsastyrki.

Rekstur á húsnæði.
    Á síðasta ári tók Fjármálaeftirlitið á leigu húsnæði að Suðurlandsbraut 32. Leiga húsnæðisins nam í upphafi um 8,5 m.kr. á ársgrundvelli. Leigusamningurinn er bundinn vísitölu neysluverðs og er reiknað með 4,5% hækkun hennar milli ára.
    Áætlun vegna rafmagns, hita og húsfélags er byggður á reynslu og er ekki gert ráð fyrir breytingum á kostnaði vegna þessa. Vegna ræstingar og ræstingarvara hefur FME gert samning við ISS Íslandi ehf. um ræstingu húsnæðisins. Öryggisgæslu er sinnt af Securitas og byggist kostnaður vegna hennar á samningi.

Rekstur tölvubúnaðar.
    Rekstur tölvubúnaðar og aðkeypt sérfræðiþjónusta hafa hingað til verið tekin saman í einn lið í rekstraráætlun. Í áætlun fyrir næsta ár er þessum lið skipt upp. Gert er ráð fyrir auknum kostnaði á næsta ári vegna reksturs tölvubúnaðar. Þannig verði kostnaður vegna ársins 2001 10.244 þús. kr., en í endurskoðaðri áætlun fyrir þetta ár er gert ráð fyrir 8.686 þús. kr. vegna þessa. Ástæður þessa eru einkum tvær. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að leigja þurfi nýjan búnað vegna fjölgunar starfsfólks, auk þess sem hafist verði handa við endurnýjun þess búnaðar sem elstur er. Í öðru lagi er gert ráð fyrir aukinni vinnu þjónustumanna í réttu hlutfalli við fjölþættari kerfi. Á næsta ári er gert ráð fyrir uppfærslum á hugbúnaði og kostnaði vegna mótunar gagnagrunna vegna úrvinnslu á upplýsingum frá eftirlitsskyldum aðilum.
    Eins og áður hefur komið fram ákvað Fjármálaeftirlitið í upphafi að taka nær allan tölvubúnað á leigu í stað þess að kaupa hann. Reglulegur rekstrarkostnaður búnaðarins er því nokkuð hár, en stofnkostnaður að sama skapi þeim mun minni.

Ferðakostnaður og kostnaður vegna funda.
    Eins og kunnugt er tekur Fjármálaeftirlitið þátt í fjölþættu alþjóðlegu samstarfi systurstofnana. Þetta samstarf skapar möguleika á því að veita aðgang að fjölþjóðlegri reynslu og þekkingu annarra þjóða, sem nýtist á innlendum fjármagnsmarkaði. Samstarfið er í meginatriðum þríþætt, samstarf á sviði bankaeftirlits, verðbréfaeftirlits og vátryggingaeftirlits. Fjármálaeftirlit á Norðurlöndum hafa með sér náið samstarf en einnig tekur Fjármálaeftirlitið þátt í samstarfi Evrópuþjóða sem tengist aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Þá er Fjármálaeftirlitið beinn aðili að alþjóðasamtökum vátryggingaeftirlita (IAIS).
    Fjármálaeftirlitið sækir nær einvörðungu kjarnafundi í viðkomandi samstarfi, en sækir almennt ekki vinnufundi eða fundi sérfræðinganefnda, nema talin sé brýn nauðsyn á því með hliðsjón af þeim verkefnum sem unnið er að hér á landi. Fjármálaeftirlitið tekur því ekki þátt í nema hluta þess samstarfs sem erlendar systurstofnanir hafa með sér. Ferðir vegna þessa samstarfs á síðasta ári voru 47 talsins og nam kostnaður vegna þeirra 7,4 m.kr. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun vegna ársins 2000 er nú gert ráð fyrir 60 ferðum og er kostnaður vegna þeirra áætlaður 8.958 þús. kr., sem er nokkuð hærra en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir en í henni var miðað við 55 ferðir. Kostnaður vegna ferða á árinu 2001 er hins vegar áætlaður nokkuð lægri, eða 8.250 þús. kr., en það stafar fyrst og fremst af því að nokkrir af reglulegum samstarfsfundum verða haldnir hér á landi.
    Á næsta ári er röðin komin að Fjármálaeftirlitinu að halda 8 fundi hér á landi, einkum í norrænu samstarfi. Hefð hefur skapast um að samstarfsaðilar skiptist á að halda þessa fundi og er nú komið að Fjármálaeftirlitinu hvað þetta varðar. Enginn slíkur fundur var haldinn á síðasta ári. Gerir áætlun ráð fyrir að kostnaður vegna þessa nemi 3,1 m.kr.
    Ljóst er að Fjármálaeftirlitið muni verða fyrir auknum kostnaði vegna þátttökugjalda í erlendu samstarfi. Aðilar að alþjóðasamtökum vátryggingaeftirlita (IAIS), samtökum evrópskra bankaeftirlita (Groupe de Contact) og samtökum evrópskra verðbréfaeftirlita (FESCO) skipta með sér kostnaði af rekstri samstarfsins og ekki verður hjá þessum kostnaði komist eigi að taka þátt í þessu samstarfi. Með þátttöku skuldbinda aðilar sig til þess að fylgja þeim grunnreglum um árangursríkt eftirlit og öryggi á fjármagnsmarkaði sem mótaðar eru í viðkomandi samstarfi og stuðla um leið að því að fjármagnsmarkaður viðkomandi lands sé talinn samkeppnishæfur af öðrum þjóðum og erlendum fjármálafyrirtækjum. Í áætluninni er gert ráð fyrir auknum kostnaði vegna þessa, m.a. vegna þess að þátttökugjöld vegna aðildar að FESCO verða ákveðin í fyrsta sinn síðar á þessu ári.

Annar kostnaður.
    Aðrir kostnaðarliðir eru símakostnaður, útgáfa, auglýsingar o.fl., bækur og ritföng og póstkostnaður samtals 5.860 þús. kr. og sérfræðikostnaður 3.000 þús. kr. og eru þessar fjárhæðir áætlaðar út frá reynslutölum og endurskoðaðri rekstraráætlun fyrir árið 2000, sem gerir ráð fyrir samtals 5.352 þús. kr. og 2.814 þús. kr. vegna framangreindra kostnaðarliða á því ári. Þá eru ótalin ýmis gjöld og þjónusta annars vegar og óvissuútgjöld hins vegar. Gert er ráð fyrir nokkurri hækkun, eða um 700 þús. kr., á fyrrnefnda liðnum, fyrst og fremst vegna hugsanlegrar aðildar að alþjóðasamtökum verðbréfaeftirlita (IOSCO). Óvissuútgjöld eru síðan áætluð sem 1,3% af heildargjöldum.

4. Álagning eftirlitsgjalds fyrir árið 2001.
    Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999 skal FME leggja mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila.
    Við undirbúning rekstraráætlunar FME fyrir yfirstandandi ár var tekið til athugunar hvort ástæða væri til að gera breytingar á skiptingu eftirlitsgjalds milli flokka eftirlitsskyldra aðila. Niðurstaðan var sú að skiptingin í heild væri í samræmi við skiptingu eftirlitsstarfseminnar á sömu flokka. Þó var ljóst að álagning á verðbréfasjóði væri ekki í fullu samræmi við umfang eftirlits með þeim sérstaklega. Var álagning á þá lækkuð hlutfallslega. Einnig voru gerðar breytingar á lágmarksgjöldum.
    Fjármálaeftirlitið hefur við undirbúning rekstraráætlunar nú áætlað hvernig vinna starfsmanna stofnunarinnar hefur skipst á síðustu mánuðum á mismunandi flokka fjármálastarfsemi eins og þeir eru tilgreindir í 5. gr. laga nr. 99/1999. Þær upplýsingar gefa að mati stofnunarinnar ekki tilefni til breytinga á innbyrðis skiptingu álagningar milli einstakra flokka eftirlitsskyldra aðila. Rétt er að taka fram að nokkur sveifla er frá einu tímabili til annars í vægi einstakra flokka eftirlitsskyldra aðila í eftirlitinu. Breytingar á innbyrðis skiptingu verða þó að byggjast á reynslu lengri tímabila, nema um augljóst ósamræmi sé að ræða.
    Hins vegar er jafnframt ljóst að skipting eftirlitsgjalds milli smærri og stærri aðila innan hvers flokks er ekki í samræmi við þann tíma sem varið er í eftirlit með smærri aðilum annars vegar og stærri hins vegar. Þannig er varið meiri tíma í eftirlit með starfsemi minni aðila en stærri, þó lagt hafi verið aukið vægi á eftirlit með starfsemi þeirra aðila sem fela í sér kerfisáhættu fyrir fjármagnsmarkaðinn. FME leitaði sjónarmiða samráðsnefndar um það hvort hún teldi koma til greina að hækka lágmarksgjöld og hækka þannig eftirlitsgjöld smærri aðila en lækka gjöld þeirra stærri. Taldi samráðsnefndin eðlilegt að jafnræði yrði tryggt með hækkun lágmarksgjalds í einstökum flokkum, enda teldi FME ekki að unnt væri að beita sérstakri gjaldtökuheimild 7. gr. laga nr. 99/1999 í þessu skyni. Gæta yrði þó þess að lágmarksgjaldið yrði ekki ákveðið svo hátt að það íþyngdi minni aðilum úr hófi eða kæmi í veg fyrir að nýjir aðilar gætu haslað sér völl í einstökum greinum fjármálaþjónustu.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur Fjármálaeftirlitið til að hlutfallslegu vægi flokka eftirlitsskyldra aðila verði ekki breytt við álagningu næsta árs. Þó verði lágmarksgjald vegna lánastofnana og vátryggingafélaga hækkað úr 250 þús. kr. í 350 þús. kr. og lágmarksgjald vegna vátryggingarmiðlara verði hækkað úr 150 þús. kr. í 200 þús. kr. FME gerir tillögu um þessa hækkun með hliðsjón af reynslu fyrri ára og fyrirsjáanlegu vægi þeirra í eftirliti stofnunarinnar.
    Í töflu 2 með skýrslu þessari er skipting eftirlitsgjalds á flokka fjármálastarfsemi áætluð með hliðsjón af meðfylgjandi rekstraráætlun og fyrrgreindri tillögu um álagningu eftirlitsgjaldsins.
Tafla 1.
Rekstraráætlun FME     
Áætlun vegna 2000 Áætlun
Upphafleg Endursk. vegna Mism.
2 og 3
Í þús. kr. áætlun áætlun 2001
Rekstrarkostnaður: 1 2 3
Laun og launatengd gjöld 149.500 138.780 162.187 23.407
Starfsmþ., námskeið, starfsm.fél. 3.400 4.495 4.800 0
Starfsmannaþj., námskeið 2.500
Framlag til starfsmannafélags 1.400
Endurm.kostnaður og skólakostnaður 900
Stjórnarlaun 4.600 4.615 4.820 205
Húsaleiga 8.500 8.572 8.962 390
Rafmagn, hiti, húsfélag 1.600 1.642 1.670 28
Símakostnaður 1.560 1.203 1.510 307
Útgáfa, auglýsingar o.fl. 2.000 1.717 1.500 -217
Bækur og ritföng 2.100 1.894 2.100 206
Póstkostnaður 900 538 750 212
Rekstur tölvub. og aðk. sérfræðiþjónusta 6.500 11.500 13.250 1.750
Rekstur tölvubúnaðar 8.686 10.250 1.564
Sérfræðikostnaður 2.814 3.000 186
Ferðakostnaður erlendis 8.280 8.958 8.250 -708
Ferðakostnaður innanlands 2.200 1.581 1.620 39
Þátttökugj. vegna funda og erl. samstarfs 900 893 2.150 1.257
Kostnaður vegna funda innanlands 0 0 3.150 3.150
Eignakaup 3.000 2.115 2.000 -115
Öryggisgæsla 200 185 300 115
Ræsting, ræstingarvörur 1.620 1.822 1.900 78
Ýmis gjöld og þjónusta 3.000 3.394 4.100 706
Óvissuútgjöld 3.000 1.364 3.000 1.636
Gjöld alls 202.860 195.268 228.019 32.751
Yfirfært frá fyrra ári, áætlað 17.663 35.598 32.630
Álagt eftirlitsgjald 2000 185.197 192.300 195.389
Tekjur mínus gjöld 0 32.630 0
Launakostnaður vegna úrskurðarnefndar 3.000 3.000 3.000
Aðrar tekjur 3.000 3.000 3.000

Sundurliðun útreiknings á launum og launatengdum gjöldum vegna ársins 2001.

Endursk. áætlun 2000 Áætlun
2001
Hækkun
milli ára
Greidd laun 138.780
Hækkun v. kjarasamninga og aðrar samningsb. greiðslur 9.727
138.780 148.507 7,0%
3 sérfræðingar 11.700
Almennur starfsmaður 1.980
162.187


Tafla 2. Áætluð álagning eftirlitsgjalds fyrir árið 2001, sbr. l. nr. 99/1999

Miðað er við álagningarþörf 195.389 þús. kr. í rekstraráætlun vegna 2001 og að
hlutfallsleg skipting milli helstu stofnanaflokka haldist í meginatriðum óbreytt


Í þús. kr.

5. gr.
l. nr.
99/'99
Liður
nr.


e *)
t
i
f


Álagt
eftirlits-
gjald alls
2000
Hlutfl.
skipting
milli stofn.
flokka
mv. álagn.
v/ 2000



Lág-
marks-
gjald

Álagningar-
stofnar
samkv.
ársreikningum
ársins 1999
Áætlað
álagningar
hlutfall
m.v. óbr.
innb. skipt.
frá líð. ári.


Gildandi
álagningar-
hlutföll /
fastagjald

Áætluð
álagning
vegna
ársins
2001 **)
Hlutfl.
skipting
milli stofn.
flokka
m.v. álagn.
v/ 2001
Lánastofnanir
- töluliður 1. samtals
94.735 49,26 790.081.806 0,01156 0,01445 96.561 4,42
Viðskiptabankar 1 e 55.602 28,91 350 577.363.926 0,01156 0,01445 66.743 34,16
Sparisjóðir 1 e 15.191 7,90 350 116.429.969 0,01156 0,01445 17.107 8,76
Eignarleigufyritæki 1 e 4.039 2,10 350 36.041.024 0,01156 0,01445 4.166 2,13
Aðrar lánastofnanir ***) 1 e 19.903 10,35 350 73.910.521 0,01156 0,01445 8.544 4,37
Vátryggingafélög:
- töluliður 2. samtals
42.338 22,02 350 43.470 22,25
Af bókfærðum frumtryggingariðgjöldum 2 i 41.825 21,75 16.148.120 0,26596 0,28524 42.948 21,98
Af bókf. fengnum endurtryggingariðgj. 2 i 507 0,26 1.060.742 0,04873 0,03573 517 0,26
Vegna söfnunarlíftrygginga 2 i 6 0,00 94.098 0,00615 0,00779 6 0,00
Vátryggingamiðlarar 3 i 2.550 1,33 200 946.219 0,04581 0,04581 3.600 1,84
Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu 4 e 5.908 3,07 250 7.741.964 0,07826 0,08031 6.059 3,10
Verðbréfasjóðir 4 e 9.418 4,90 250 91.582.782 0,01039 0,01129 9.515 4,87
Rekstrarfélög 4 e 900 0,47 150 76.734 0,08031 0,08031 1.050 0,54
Lífeyrissjóðir 6 el 31.730 16,50 150–600 513.194.928 0,00596 0,00779 30.586 15,65
Kauphallir (Verðbréfaþing. Ísl. hf.) 5 t 950 0,49 250 128.050 0,76297 0,92353 977 0,50
Verðbréfamiðstöðvar (Verðbrskrán. Ísl. hf.) 7 t 250 0,13 250 0,76297 0,92353 250 0,13
Aðrar eftirlitsskyldar stofnanir:
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins 9 e 908 0,47 250 7.300.346 0,01156 0,01445 844 0,43
Húsbréfadeild Íbúðalánasjóðs 9 e 513 0,27 250 169.744.276 0,00031 0,00040 526 0,27
Innlánsdeildir samvinnufélaga 8 f 1.650 0,86 150 150 150 1.500 0,77
Póstgíróstofa Íslandspósts hf. 8 f 150 0,08 150 150 150 150 0,08
Kvótaþing 9 f 150 0,08 150 150 150 150 0,08
Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárf. 10 f 150 0,08 150 150 150 150 0,08
Samtals 192.300 100,00 195.389 100,00
*) e=eignir samtals; t=rekstrartekjur; el= hrein eign til greiðslu lífeyris; i=tryggingariðgjöld; f=fastagjald .
**) Áætlað 3,6 m.kr. umfram hlutfallstölufjárhæð á sparisjóði vegna lágmarksgjalda.
***) FBA er talin með viðskiptabönkum í álagningu fyrir árið 2001.

Álit samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila á rekstraráætlun FME fyrir árið 2001.


(15. september 2000.)



    Með bréfi Fjármálaeftirlitsins (FME), dags. 15. ágúst sl., voru samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila um starfrækslu FME send drög að rekstraráætlun FME fyrir árið 2001 ásamt skýringum og upplýsingum um hugsanlega skiptingu eftirlitsgjalds. Fundur fulltrúa samráðsnefndar og FME um málefnið var haldinn 29. ágúst sl., og á þeim fundi og með skriflegum, óformlegum ábendingum samráðsnefndar, dags. 1. september sl., setti nefndin fram sjónarmið sín um áætlað rekstrarumfang FME árið 2001. Með bréfi, dags. 12. september sl., voru samráðsnefndinni send endurskoðuð drög stjórnar FME að rekstraráætlun stofnunarinnar. Hefur þar lítillega verið tekið tillit til ábendinga samráðsnefndar. Hér á eftir verður enn vikið að nokkrum atriðum í hinni endurskoðuðu fjárhagsáætlun FME, sem samráðsnefndin telur ástæðu til að huga betur að. Er við það miðað, að bréf þetta fylgi áætlun stjórnar FME til ráðherra og eftir atvikum til Alþingis.
     1.      Samráðsnefndin þakkar FME upplýsingar varðandi áætlun um rekstur stofnunarinnar á árinu 2001 og áætlaða álagningu eftirlitsgjalds fyrir árið 2001. Upplýsingagjöfin nú er miklu ítarlegri en var í upphafi í fyrra, þegar viðræður hófust um áætlað rekstrarumfang FME fyrir yfirstandandi ár. Ber að þakka þetta sérstaklega.
     2.      Lýst er ánægju yfir því að tekist hefur að halda starfsemi stofnunarinnar á árinu 2000 vel innan áætlunar. Raunar stefnir í, að tekjur umfram gjöld á þessu ári verði um 32,6 millj. króna. Samráðsnefndin lét í ljós þá skoðun í fyrra, að kostnaðaráætlun FME fyrir yfirstandandi ár væri of há, og álagt eftirlitsgjald á fjármálafyrirtækin að sama skapi einnig of hátt. Verður ekki betur séð en sjónarmið samráðsnefndar hafi átt við full rök að styðjast. Þessi tekjuafgangur kemur svo til lækkunar eftirlitsgjalds á árinu 2001. Athyglisvert er, að stofnunin nýtur engra vaxtatekna af þessum umframfjármunum sínum eða af innheimtu eftirlitsgjaldi almennt. Samráðsnefndin hefur áður látið í ljós þá skoðun, að slíkt er afar óeðlilegt. Skal því enn ítrekað við stjórnendur FME að leita leiða til að bæta úr þessu.
     3.      Starfsmannafjöldi FME hlýtur að taka mið af raunverulegri þörf stofnunarinnar, að teknu tilliti til bæði hámarksafkastagetu starfsmanna og kröfu um vönduð vinnubrögð. Hæpið er að rökstyðja frekari mannaráðningar með vísan til þess, að samanlagður starfsmannafjöldi forvera FME, þ.e. Vátryggingaeftirlitsins og bankaeftirlits Seðlabankans, hafi verið 26 stöðugildi, og þeim fjölda hafi FME enn ekki náð. Hefði raunar mátt ætla, að hagræðing mundi fylgja hinni nýju stofnun, þannig að starfsmannafjöldinn ætti að verða minni en samanlagður fjöldi starfsmanna hjá forverum FME.
             Launakostnaður FME vegur langsamlega þyngst í rekstri stofnunarinnar. Er afar mikilvægt að þar sé gætt fyllsta aðhalds. Eftirlitsskyldir aðilar hljóta að krefjast þess, að eftirlitskostnaður þeirra sé ekki hærri en erlendum keppinautum er gert að greiða í heimaríkjum sínum. Ástæða er til að ætla að eftirlitsgjaldið hér á landi sé nú þegar hærra en almennt tíðkast í nágrannalöndum okkar. Æskilegt er að slíkur samanburður verði gerður. Í áætluninni er gert ráð fyrir að laun og launatengd gjöld hækki úr 138,8 millj. kr. í 162,2 millj. kr., eða um 17% milli ára, og er þá tekið tillit til ráðningar fjögurra viðbótarstarfsmanna. Launakostnaður miðað við óbreyttan fjölda er hins vegar áætlaður 148,5 millj. kr. Er það 7% hækkun milli áranna 2000 og 2001. Í fyrstu áætlunum FME var miðað við 8,7% launahækkun milli ára, en nú virðist sem tekið hafi verið nokkurt tillit til ábendinga samráðsnefndar í þessu efni, og er það vel. Starfsmenn FME taka laun ýmist skv. kjarasamningum bankamanna eða opinberra starfsmanna. Kjarasamningar bankamanna munu renna út í lok þessa árs, en opinberra starfsmanna (BHM) í október nk. Miðað við það, að í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði var yfirleitt samið um 3,9% hækkun frá 1. maí sl. og 3,0% 1. jan. 2001 (og ekki frekari launahækkanir á því ári), og þess að þann 1. jan. 2000 fengu bankamenn 3,5% hækkun og opinberir starfsmenn 3,0% var 8,7% áætluð hækkun FME milli ára of há. Má raunar færa rök að því, að þessi áætlaða 7% hækkun milli ára sé einnig í hærra lagi.
             Áætlað framlag FME til starfsmannafélags virðist ríflegt á árinu 2001, eða 1,4 millj. kr. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að í starfsmannafélaginu eru væntanlega aðeins um 25 manns, þannig að hér er um að ræða greiðslur sem nema um 50 til 60 þús. kr. á hvern starfsmann á árinu.
             Að endingu varðandi starfsmannamálin: Áður en ráðist er í boðaða ráðningu fleiri sérfræðinga til FME, hvetur samráðsnefndin stjórnendur stofnunarinnar að kanna rækilega, hvort ekki gæti verið hagfelldara að vissum verkefnum verði sinnt með tímabundnum ráðningum starfsfólks, aðkeyptri þjónustu sérfræðinga eða jafnvel að endurskoðendur hinna eftirlitsskyldu aðila verði „nýttir“ betur til upplýsingaöflunar fyrir FME og skýrslugjafar.
     4.      Stjórnarlaun eru ákvörðuð af ráðherra, en í stjórn FME sitja lögum samkvæmt þrír menn. Stjórnarlaun stofnunarinnar á þessu ári stefna í rúml. 4,6 millj. kr., og áætlanir gera ráð fyrir að stjórnarlaun verði ríflega 4,8 millj. kr. á árinu 2001. Ekki verður betur séð en laun stjórnarmanna FME séu hærri en almennt tíðkast hjá opinberum stofnunum og flestum þeim aðilum, sem falla undir eftirlit FME. Samráðsnefnd er þeirrar skoðunar, að ástæða sé til að endurskoða þennan kostnaðarlið áætlunarinnar og lækka. Í þessu sambandi má benda á að það mun hafa skapast sú venja að bæði aðalmenn og varamenn sitji stjórnarfundi FME. Samráðsnefnd telur engin rök fyrir þessari tilhögun og mun eðlilegra að varamaður sitji eingöngu stjórnarfund í forföllum aðalmanns.
     5.      Samráðsnefndinni er ljóst, að FME hlýtur að hafa allnokkur erlend samskipti, og að kostnaður er því samfara. Afar brýnt er þó að hér sé gætt aðhalds. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun FME fyrir þetta ár verður fjöldi utanlandsferða FME 60 að tölu, og kostnaður vegna þeirra tæpar 9 millj. kr. Er þetta umfram upphaflegar áætlanir. Í áætlun fyrir árið 2001 er þó gert ráð fyrir að kostnaður vegna ferða erlendis lækki nokkuð, og mun ástæðan sú, að FME mun sjálft halda 8 fundi hér á landi, sem eru liður í norrænu samstarfi. Kostnaður við þau fundahöld er áætlaður rífl. 3,1 millj. kr. Kostnaður vegna erlendra samskipta á árinu 2000 stefnir í alls ríflega 9,8 millj. kr., og er áætlaður enn hærri 2001, eða alls um 13,5 millj. kr. (þ.e. ferðakostn. erlendis, þátttökugjald v. funda erlendis og fjölþjóðlegir samstarfsfundir hér á landi). Hér er um að ræða verulegan útgjaldalið í starfsemi FME. Sú spurning hlýtur að vakna, hvort þessi mikli fjöldi utanlandsferða og umfangið almennt vegna erlendra samskipta geti talist bráðnauðsynlegur liður í starfrækslu stofnunarinnar. Eðlilegt er að FME yfirfari hvort nauðsyn sé á að sækja þann fjölda funda sem hingað til hefur verið gert, enda hljóta tíðar fjarvistir að bitna á starfseminni hér heima.
     6.      Í skýringum FME varðandi áætlaða álagningu eftirlitsgjalds fyrir árið 2001 kemur fram, að FME hefur áætlað hvernig vinna starfsmanna hefur skipst á mismunandi flokka fjármálastarfseminnar eins og þeir eru tilgreindir í 5. gr. laga nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Þær áætlanir gefa að mati stofnunarinnar ekki tilefni til breytinga á skiptingu álagningar milli einstakra flokka eftirlitsskyldra aðila. Samráðsnefndin gerir út af fyrir sig ekki athugasemdir við þetta mat FME, enda hefur hún ekki forsendur til þess. Á hinn bóginn bendir FME á, að skipting eftirlitsgjalds milli smærri og stærri aðila innan hverrar greinar/flokks eftirlitsskyldra aðila sé ekki í samræmi við þann tíma sem varið er í eftirlit með smærri aðilum annars vegar og stærri aðilum hins vegar. Af hálfu FME er spurst fyrir um sjónarmið samráðsnefndar um það, hvort hún telji koma til greina að hækka lágmarksgjöld og á þann veg hækka eftirlitsgjöld smærri aðila en lækka gjöld þeirra stærri á móti.
             Almennt er samráðsnefndin þeirrar skoðunar, að álagt eftirlitsgjald skuli sem framast er kostur vera í samræmi við þann tíma og kostnað sem ætla má að fari í eftirlitið, jafnt með hlutaðeigandi flokki eftirlitsskyldra aðila og einstakra aðila innan hvers flokks. Í 8. gr. laga um greiðslu kostnaðar við FME segir efnislega, að telji FME að eftirlit með einstökum eftirlitsskyldum aðila sé umtalsvert kostnaðarsamara og krefjist meiri mannafla en áætlun um reglubundið eftirlit geri ráð fyrir, geti stjórn FME ákveðið að viðkomandi aðila verði gert að greiða fyrir frekara eftirlit skv. reikningi. Sé það álit stjórnenda FME, að þetta ákvæði laga geti ekki nýst til að ná fram æskilegri og sanngjarnri skiptingu eftirlitsgjalds milli stærri og smærri aðila innan hvers flokks eftirlitsskyldra aðila, telur samráðsnefndin eðlilegt, að jafnræði verði tryggt með hækkun lágmarksgjalds í einstökum flokkum. Lágmarksgjaldið má þó ekki ákveða svo hátt, að það íþyngi minni aðilum úr hófi eða komi í veg fyrir að nýir aðilar geti haslað sér völl í einstökum greinum fjármálaþjónustu.
             Af hálfu FME hefur nú verið gerð tillaga um nokkra hækkun lágmarkseftirlitsgjalds í þremur flokkum eftirlitsskyldra aðila fyrir árið 2001. Þessar tillögur FME sýnast í samræmi við áðurnefnd sjónarmið samráðsnefndar um þetta efni, og eru ekki gerðar athugasemdir við þessa tillögu.
     7.      Í reglugerð nr. 777/1998, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, hefur verið að finna ákvæði um skipan og starfshætti samráðsnefndarinnar. Var sú reglugerð sett m.a. með vísan til 16. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Með lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, var 16. gr. laga nr. 87/1998 beinlínis úr gildi felld. Af því leiðir að sem fyrst þarf að huga að því að setja reglugerð á nýjan leik, sem skýtur styrkari stoðum undir skipan og hlutverk samráðsnefndar.
    Samráðsnefndin er hvenær sem er reiðubúin að skýra sjónarmið sín varðandi áætlað rekstrarumfang Fjármálaeftirlitsins ítarlegar, verði þess óskað.



Fylgiskjal II.


Fjármálaeftirlitið:

Skýrsla til viðskiptaráðherra um starfsemi Fjármálaeftirlitsins,


sbr. 16. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.


(Október 2000.)



1.    Inngangur.
    Samkvæmt 16. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sbr. lög nr. 11/2000, um breytingu á lagaákvæðum um fjármálaeftirlit, skal Fjármálaeftirlitið gefa viðskiptaráðherra skýrslu um starfsemi sína ár hvert. Ákvæði þetta tók breytingum með fyrrgreindum lögum nr. 11/2000, en með þeim var jafnframt kveðið á um skyldu viðskiptaráðherra til að gera Alþingi grein fyrir starfsemi stofnunarinnar.
    Eins og kunnugt er tók Fjármálaeftirlitið til starfa 1. janúar 1999. Því er í þessari skýrslu gerð grein fyrir helstu þáttum í rekstri og starfsemi Fjármálaeftirlitsins fyrsta eina og hálfa starfsárið. Á næstu vikum mun Fjármálaeftirlitið gefa út ársskýrslu sína, þar sem nánar verður fjallað um fjármálamarkaðinn og áherslur í eftirliti með honum.

2.    Starfsemi Fjármálaeftirlitsins.
2.1 Stefnumótun og skipulag stofnunarinnar.
    Á fyrri hluta árs 1999 staðfesti stjórn Fjármálaeftirlitsins stefnumótun fyrir stofnunina. Sú stefnumótun var staðfest að nýju lítið breytt í júní á þessu ári, í kjölfar ítarlegrar yfirferðar.
    Í stefnumótuninni koma fram grundvallarsjónarmið sem frekari stefnumörkun í starfi stofnunarinnar er byggð á. Hlutverk stofnunarinnar er skilgreint nánar, einkum að því er varðar starfsmenn og rekstur, tengsl við eftirlitsskylda aðila og samstarfsaðila og þátt stofnunarinnar í mótun fjármálamarkaðar. Þá er leitast við að skilgreina viðmið í starfsemi stofnunarinnar.
    Í stefnumótuninni segir að Fjármálaeftirlitið veiti eftirlitsskyldum aðilum uppbyggilegt og markvisst aðhald og styðji við mótun á skilvirkri og traustri fjármálastarfsemi, þar sem áhersla er lögð á faglegt innra skipulag fjármálafyrirtækja.
    Fjármálaeftirlitið leggur áherslu á að stjórnun eftirlitsskyldra aðila, skipulag, innri starfsreglur, upplýsingakerfi og innri endurskoðun sé þannig að stjórnendum sé kleift að gera sér grein fyrir þeirri áhættu sem í starfsemi þeirra felst og stýra henni og að þeir séu undirbúnir að mæta áföllum í framtíðinni. Jafnframt er lögð áhersla á að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé hagað þannig að viðskiptamenn og almenningur geti treyst því að í allri fjármálaþjónustu séu hagsmunir viðskiptamanna hafðir að leiðarljósi og lögum, reglum og eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum fylgt.
    Fjármálaeftirlitið leitast í starfsemi sinni við að veita stjórnendum eftirlitsskyldra aðila aðhald í samræmi við framangreint, gera þeim grein fyrir ábyrgð sinni, fylgjast með að umrædd meginsjónarmið séu í heiðri höfð og að stofna til samstarfs við þá um öryggi og trúverðugleika í viðkomandi starfsemi.
    Skipurit stofnunarinnar er byggt á sömu meginsjónarmiðum og stefnumótunin. Í skipulaginu er lögð áhersla á að nýta sem best þá þekkingu og reynslu sem starfsmenn búa yfir. Eftirlitinu er ekki skipt í hefðbundnar deildir fjármálamarkaðar heldur reynt að virkja þekkingu á einu sviði fjármálamarkaðar í eftirliti á öðru sviði og þannig að nýta fyrirliggjandi sérfræðiþekkingu þar sem hennar er mest þörf í verkefnum stofnunarinnar hverju sinni. Stuðlað er að því að vinnubrögð og viðhorf í eftirliti séu sem líkust á öllum sviðum fjármálamarkaðar. Skipulagið byggist á öflugu samstarfi starfsmanna, þar sem þekking hvers og eins fær að njóta sín.
    Fjármálaeftirlitið hefur sett á heimasíðu sína (www.fme.is) stefnumótunarskjal sitt, ásamt skipuriti og lýsingu á því. Þar er einnig að finna reglur um ákvarðanir og undirritun skjala í Fjármálaeftirlitinu og reglur um störf stjórnar, þar sem hlutverk hennar er skilgreint og kveðið á um hæfi stjórnarmanna og aðgang þeirra að gögnum.

2.2 Þróun fjármálamarkaðar – eftirlitsstarfsemi Fjármálaeftirlitsins.
    Segja má að Fjármálaeftirlitið hafi hafið starfsemi sína á miklum tímamótum á íslenskum fjármálamarkaði. Gott efnahagsástand, bjartsýni því samfara og samkeppni á fjármálamarkaði féll saman við breyttar áherslur stjórnvalda að því varðar hlutverk ríkisins á fjármálamarkaði.
    Íslenskur fjármálamarkaður hefur einkennst af miklum vexti síðustu misseri, ekki síst í útlánastarfsemi og verðbréfaviðskiptum. Þessi þættir hafa öðru fremur mótað og munu áfram móta eftirlitsstarfsemi Fjármálaeftirlitsins.

Efling eftirlits.
    Við þessar aðstæður er mikilvægt að Fjármálaeftirlitið hafi skýr markmið og fylgi eftir nýjungum og breytingum. Í því sambandi er nauðsynlegt að hafa hliðsjón af þróun opinbers eftirlits erlendis, en efling opinbers eftirlits og möguleikar til að bregðast við síbreytilegum aðstæðum eru mjög í brennidepli nú um stundir á alþjóðavettvangi. Nægir að nefna tillögur Basel-nefndar um bankaeftirlit að nýjum eiginfjárreglum fjármálastofnana, sem kynntar voru á síðasta ári og eru nú til frekari vinnslu.
    Mikilvægar breytingar voru gerðar til eflingar á starfsheimildum og úrræðum Fjármálaeftirlitsins á síðasta vori, með setningu laga nr. 11/2000. Reynslan leiðir í ljós hvernig breytingarnar reynast í framkvæmd, en þróun fjármálamarkaðar mun án efa kalla á frekari þróun lagaákvæða um starfsemi Fjármálaeftirlitsins á næstu árum.

Eftirlitsskyldir aðilar.
    Eftirlitsskyldir aðilar voru flestir 180 á tímabilinu. Sameining fyrirtækja á fjármálamarkaði hefur leitt til nokkurrar fækkunar og voru eftirlitsskyldir aðilar 175 hinn 30. júní sl. Þeir skiptast með eftirfarandi hætti:

Lánastofnanir 40
Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu 11
Verðbréfasjóðir 11
Rekstrarfélög 7
Vátryggingafélög 14
Vátryggingarmiðlarar 18
Lífeyrissjóðir 57
Innlánsdeildir samvinnufélaga 10
Aðrir aðilar 7
Eftirlitsskyldir aðilar alls 175

Tilhögun og framkvæmd eftirlits.
    Í Fjármálaeftirlitinu hefur verið mótuð sú stefna að leggja meiri áherslu en áður á eftirlit með stærri fjármálafyrirtækjum enda geta erfiðleikar í starfsemi þeirra haft alvarlegar afleiðingar fyrir fjármálakerfið í heild. Þrátt fyrir þetta mun eftirlit með smærri aðilum enn taka mikinn tíma, enda er starfsemi margra smærri eftirlitsskyldra aðila viðkvæm.
    Eftirlit stofnunarinnar fer í meginatriðum fram með þrennum hætti. Í fyrsta lagi með margháttaðri reglubundinni upplýsingasöfnun um rekstur og efnahag eftirlitsskyldra aðila. Kallað er eftir upplýsingum sem sýna hvort tiltekin grundvallarskilyrði í starfsemi fyrirtækjanna séu uppfyllt. Þessi upplýsingasöfnun veitir yfirsýn yfir stöðu og þróun á einstökum sviðum fjármálamarkaðarins auk vísbendinga um hvert stefnir í rekstri einstakra fjármálafyrirtækja. Í öðru lagi fer eftirlit Fjármálaeftirlitsins fram með ýmsum sértækum eftirlitsaðgerðum. Sérstakar heildarathuganir eða skoðanir eru gerðar á starfsemi einstakra aðila á starfsstöðvum þeirra. Þá fara einnig fram sérstakar athuganir á einstökum þáttum í starfsemi eins eða fleiri eftirlitsskyldra aðila í senn. Í þriðja lagi fer eftirlitið einnig fram með skriflegum fyrirspurnum til eftirlitsskyldra aðila um ákveðna þætti í starfsemi þeirra.
    Dæmi um almenn eftirlitsverkefni á síðasta ári er eftirlit með viðbúnaði eftirlitsskyldra aðila vegna svokallaðs 2000-vanda. Haldnir voru fundir með flestum stærri og meðalstórum fjármálafyrirtækjum og reiknistofum þeirra á öllum sviðum fjármálamarkaðar. Þá beindi Fjármálaeftirlitið margháttuðum tilmælum til eftirlitsskyldra aðila, hafði frumkvæði að samráði þeirra í milli, tók þátt í og skipulagði vöktun um áramótin og annaðist upplýsingamiðlun um ástand á fjármálamarkaði.

Önnur verkefni.
    Þessu til viðbótar sinnir Fjármálaeftirlitið margvíslegum fyrirspurnum og erindum frá eftirlitsskyldum aðilum og veitir umsagnir um starfsleyfi, samruna og fleiri atriði. Einnig svarar Fjármálaeftirlitið fyrirspurnum og erindum frá viðskiptamönnum eftirlitsskyldra aðila.
    Fjármálaeftirlitið hefur tekið virkan þátt í mótun laga og reglna á fjármálamarkaði, en eðlilegt er að þekking og reynsla eftirlitsaðila sé nýtt við þá vinnu. Með þátttöku sinni leitast Fjármálaeftirlitið við að koma á framfæri sjónarmiðum um öryggi í starfsemi og starfsháttum á fjármálamarkaði.
    Fjármálaeftirlitið á gott samstarf við stofnanir, ráðuneyti og aðra aðila sem tengjast málefnum fjármálamarkaðar og eftirliti með honum. Áhersla er lögð á að skýra verkaskiptingu milli þessara aðila. Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands hafa gert með sér samstarfssamning sem tryggja á greið upplýsingaskipti og skýra verkaskiptingu.
    Fjármálaeftirlitið tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi systurstofnana. Þetta samstarf skapar möguleika á því að nýta reynslu og þekkingu annarra þjóða á íslenskum fjármálamarkaði. Samstarfið er í meginatriðum þríþætt, á sviði bankaeftirlits, verðbréfaeftirlits og vátryggingaeftirlits. Fjármálaeftirlit á Norðurlöndum hafa með sér náið samstarf. Þá tekur Fjármálaeftirlitið þátt í samstarfi Evrópuþjóða sem tengist aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig er Fjármálaeftirlitið beinn aðili að alþjóðasamtökum vátryggingaeftirlita.
    Þá birtir Fjármálaeftirlitið skýrslur sem unnar eru upp úr ársreikningum og öðrum upplýsingum um starfsemi fjármálafyrirtækja. Fjármálaeftirlitið hefur birt skýrslur með samantekt ársreikninga og upplýsinga sem eru unnar upp úr ársreikningum lánastofnana, fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og verðbréfasjóða, annars vegar fyrir árið 1998 og hins vegar fyrir árið 1999. Einnig hefur stofnunin birt samantekt ársreikninga vátryggingafélaga fyrir árið 1998 og 1999 og sundurliðun vátryggingagreina vátryggingafélaga fyrir árið 1998. Þá hefur Fjármálaeftirlitið birt skýrslur um lífeyrissjóðina en í þeim er að finna upplýsingar um efnahag, yfirlit yfir breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, sjóðstreymi, kennitölur og sundurliðanir auk annarra upplýsinga, annars vegar m.v. árslok 1998 og hins vegar árslok 1999.
    Hér á eftir verður greint sérstaklega frá tveimur eftirlitsverkefnum Fjármálaeftirlitsins sem varða allan fjármálamarkaðinn. Þá verður fjallað sérstaklega um helstu flokka fjármálastarfseminnar.

2.3      Könnun á innra eftirliti og áhættustýringu.
    Í stefnumótun Fjármálaeftirlitsins kemur fram að stofnunin leggi áherslu á að faglegt innra skipulag fjármálafyrirtækja sé til staðar og kappkostað sé að fylgjast með áhættu í starfsemi þeirra og að þau hafi fullnægjandi yfirsýn yfir hana.
    Í samræmi við þessar áherslur hefur Fjármálaeftirlitið athugað sérstaklega ástand innra eftirlits og áhættustýringar í mörgum fyrirtækjum á öllum sviðum fjármálamarkaðar. Áhersla hefur verið lögð á að fá yfirlit yfir ástand mála hjá stærri fjármálafyrirtækjum. Ástæður verkefnisins eru einkum þrjár: Í fyrsta lagi er með því lögð áhersla á ábyrgð eftirlitsskyldra aðila sjálfra á eigin starfsemi og eftirliti með henni. Í öðru lagi er sérstaklega brýnt að þessir þættir í starfi þeirra séu í góðu horfi við þær aðstæður sem verið hafa á fjármálamarkaði, þ.e. mikill vöxtur og þar með aukin hætta á mistökum við ákvarðanir og síðar erfiðleikum þegar undan hallar. Í þriðja lagi er verkefni af þessu tagi vel til þess fallið að fylgjast enn frekar með fjármálamarkaðnum í heild og ástandi einstakra aðila. Þá þekkingu er síðan hægt að nota til að gera störf Fjármálaeftirlitsins markvissari og til að byggja upp styrkara eftirlitskerfi. Með athuguninni hefur og skapast tækifæri til umræðna og skoðanaskipta við stjórnendur eftirlitsskyldra aðila um þessi efni.
    Athuganir Fjármálaeftirlitsins hafa einkum beinst að stjórnunarlegri uppbyggingu stofnana, markmiðssetningu í starfseminni, tilvist og eftirfylgni áhættustýringarreglna í víðtækri merkingu, innra eftirliti í þessu sambandi og virkni innri endurskoðenda. Til dæmis hefur verið hugað að innra eftirliti með útlánum lánastofnana og eftirliti með markaðsáhættu í starfseminni og áhættustýringu á þessum þáttum. Í þessu efni brýnir Fjármálaeftirlitið fyrir stjórnum fyrirtækja að vera vakandi fyrir ábyrgð sinni og undir það búnar að axla hana. Hér er um viðamikið svið að ræða sem krefst sjálfstæðra kannana á hverjum aðila fyrir sig.
    Ástand innra eftirlits og áhættustýringar er afar mismunandi frá einu fyrirtæki til annars. Eins og vænta má er áhættustýring og eftirlit með rótgrónari þáttum í starfsemi fjármálafyrirtækja almennt í betra horfi en þegar nýrri eða ört vaxandi fjármálaþjónusta á í hlut.
    Áhyggjur Fjármálaeftirlitsins í þessu efni hafa ekki síst beinst að útlánavexti og þróun eiginfjárhlutfalls lánastofnana. Hefur stofnunin gert margvíslegar athugasemdir og varað við lágu eiginfjárhlutfalli hér á landi, bæði í samskiptum sínum við einstakar lánastofnanir og í almennri umræðu. Einnig hefur stofnunin beint sjónum sínum að fjármögnun lána, en erlendar lántökur lánastofnana, þ.á m. skammtímalán, hafa verið miklar.
    Þá hefur Fjármálaeftirlitið haft áhyggjur af skipulagi og utanumhaldi er varðar markaðsáhættu fjármálafyrirtækja, en þessi áhætta hefur vaxið hratt og innra eftirlit setið á hakanum í ýmsum tilvikum. Í þessum efnum hefur Fjármálaeftirlitið lagt áherslu á að til staðar séu reglur sem takmarka áhættu og að þeim sé fylgt.
    Almennt hefur Fjármálaeftirlitið beint því til eftirlitsskyldra aðila að skerpa á öllu innra eftirliti.

2.4 Eftirlit á einstökum sviðum fjármálamarkaðar.
2.4.1     Almennt.
    Hér á eftir verður gerð grein fyrir starfsemi Fjármálaeftirlitsins á einstökum sviðum fjármálamarkaðar. Leitast verður við að fjalla um þá málaflokka sem Fjármálaeftirlitið hefur einkum beint sjónum sínum að. Rétt er að taka fram að aðeins er skýrt frá helstu verkefnum. Gerð verður nánari grein fyrir starfsemi og áherslum Fjármálaeftirlitsins í ársskýrslu sem birt verður á næstu vikum.

2.4.2 Lánastofnanir.
    Eins og áður er fram komið hefur Fjármálaeftirlitið lagt áherslu á athugun á innra eftirliti og áhættustýringu.
    Í tengslum við þessa athugun og reglubundnar skoðanir á sparisjóðum hefur Fjármálaeftirlitið beint sérstaklega sjónum sínum að eiginfjárhlutfalli lánastofnana og tengdum málefnum. Hefur Fjármálaeftirlitið lýst áhyggjum sínum af þróun eiginfjárhlutfalls og útlánaaukningu síðustu misseri, bæði gagnvart einstökum lánastofnunum og á opinberum vettvangi. Gerir Fjármálaeftirlitið auknar kröfur til þess að lánastofnanir geri grein fyrir markmiðum sínum í þessu efni og fylgi þeim eftir. Jafnframt leggur Fjármálaeftirlitið mat á þau markmið. Með þessu er Fjármálaeftirlitið að leggja áherslu á að lánastofnanir eigi ekki að líta svo á að lögbundið skilyrði um 8% eiginfjárhlutfall samkvæmt lögum dugi í hverju tilviki. Fjármálaeftirlitið er að þróa aðferðir sem styrkja enn frekar eftirlit með þessu.
    Jafnframt hefur Fjármálaeftirlitið haft frumkvæði að umfjöllun um nýjar tillögur að eiginfjárreglum (BIS- reglum) frá Baselnefnd um bankaeftirlit, sem fram komu í byrjun júní 1999. Einnig hefur stofnunin fylgst með viðbrögðum Evrópusambandsins og vinnu við skýrslu á þeim vettvangi.

2.4.3 Verðbréfamarkaður.
    Verkefni Fjármálaeftirlitsins í eftirliti með verðbréfamarkaðnum hafa einkum verið af þrennum toga.
    Í fyrsta lagi hefur starfsemi á verðbréfamarkaði verið þáttur í athugunum á innra eftirliti og áhættustýringu, sbr. umfjöllun hér að framan, en eins og þar kemur fram hefur Fjármálaeftirlitið haft áhyggjur af skipulagi og utanumhaldi er varðar markaðsáhættur fjármálafyrirtækja, en þessar áhættur hafa vaxið hratt og innra eftirlit setið á hakanum í ýmsum tilvikum. Hefur athugasemdum varðandi þetta verið beint að fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu og öðrum fjármálafyrirtækjum.
    Í öðru lagi hefur Fjármálaeftirlitið tekið til athugunar allnokkrar vísbendingar um brot á IV. kafla laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti, einkum meint brot á ákvæðum um innherjaviðskipti. Fjármálaeftirlitið hefur vísað einu máli til ríkislögreglustjóra.
    Í þriðja lagi hefur Fjármálaeftirlitið tekið til skoðunar ýmis mál sem varða starfshætti fjármálafyrirtækja á verðbréfamarkaði. Niðurstaða slíkra mála snýst alla jafna um túlkun á eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum. Veigamesta reglan í þessu sambandi er að viðskiptamaður geti treyst því að hagsmunir hans séu hafðir í fyrirrúmi. Hlutverk Fjármálaeftirlitsins í þessu efni er að stuðla að betra skipulagi og vandaðri starfsháttum fjármálafyrirtækja. Hefur Fjármálaeftirlitið lagt á það áherslu að ná yfirsýn yfir þennan málaflokk til þess að geta gripið inn í mál af festu þegar ástæða er til.
    Fjármálaeftirlitið hefur unnið að mótun nýrra reglna um verðbréfaviðskipti, sem fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu ber að setja sér: Reglna um Kínamúra í starfsemi sinni, reglna um viðskipti fyrirtækisins sjálfs, starfsmanna og stjórnenda með verðbréf og reglna um atvinnuþátttöku stjórnarmanna og starfsmanna. Fjármálaeftirlitið birti í júlí sl. leiðbeiningar um efni þessara reglna á heimasíðu sinni og gaf fjármálafyrirtækjum og viðskiptamönnum þeirra frest fram í september síðastliðinn til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Fjármálaeftirlitið er nú með framkomin sjónarmið til athugunar og mun í framhaldi þess beina því til fjármálafyrirtækja að setja sér nýjar reglur. Hverju fyrirtæki fyrir sig ber að leita staðfestingar Fjármálaeftirlitsins á reglunum sem það setur sér.
    Fjármálaeftirlitið er aðili að samtökum evrópskra eftirlitsaðila á verðbréfamarkaði, FESCO (Forum of European Securities Commissions), og hefur kynnt opinberlega ýmsar nýjar grunnreglur og skýrslur sem samtökin standa að. Fjármálaeftirlitið hefur skuldbundið sig til að beita sér fyrir samræmingu reglna á verðbréfamarkaði á grundvelli þeirra grunnreglna og viðmiðana sem FESCO gefur út.

2.4.4 Vátryggingamarkaður.
    Hækkanir á iðgjöldum í lögboðnum ökutækjatryggingum hafa sett mark sitt á verkefni Fjármálaeftirlitsins á þessu sviði. Í tvígang hafa iðgjöld innlendu vátryggingafélaganna hækkað verulega, í fyrra skiptið vorið 1999 og aftur nú í vor. Í bæði skiptin tók Fjármálaeftirlitið iðgjaldabreytingarnar til athugunar og kynnti niðurstöður sínar opinberlega.
    Athuganir Fjármálaeftirlitsins á iðgjöldum beinast einkum að tvennu, annars vegar að ganga úr skugga um að þau séu nægilega há eða í samræmi við áhættu sem tekin er og hins vegar að þau séu sanngjörn í garð vátryggingartaka. Umræða um iðgjöld í lögboðnum ökutækjatryggingum hér á landi hefur sem kunnugt er beinst að síðara atriðinu.
    Í kjölfar athugunar Fjármálaeftirlitsins á iðgjaldahækkunum á árinu 1999 hefur verið unnið að endurskoðun reglugerðar um ársreikninga og samstæðureikninga vátryggingafélaga annarra en líftryggingafélaga, nr. 613/1996. Skipuð hefur verið nefnd um verkefnið og er hún að störfum. Eitt meginverkefni hennar er að finna leiðir til að gera rekstur vátryggingafélaga og forsendur í starfsemi þeirra sýnilegri og beita þannig markaðsaga. Auk þessa er Fjármálaeftirlitið að huga að setningu reglna um mat á tjónaskuld vátryggingafélaga, sem því er heimilt að setja.
    Fjármálaeftirlitið hefur tekið starfshætti vátryggingarmiðlara til sérstakrar skoðunar og gert athugasemdir við starfsemi einstakra miðlara. Þá hefur Fjármálaeftirlitið hugað sérstaklega að málefnum bátaábyrgðarfélaga.

2.4.5 Lífeyrissjóðir.
    Meginþungi í eftirliti með lífeyrissjóðum hefur tengst umsóknum þeirra um starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þessi aðlögun lífeyrissjóða að nýjum lögum reyndist tímafrekari en áætlað var í upphafi og hefur aðlögunin verið mörgum lífeyrissjóðum erfið í framkvæmd. Engin umsókn um starfsleyfi hefur verið afgreidd án athugasemda.
    Þróunin er sú að lífeyrissjóðir eru að tengjast öðrum þáttum fjármálamarkaðarins sterkari böndum en áður. Sjóðirnir verða sífellt meira áberandi í viðskiptum á verðbréfamarkaði auk þess sem samstarf lífeyrissjóða við verðbréfafyrirtæki og lánastofnanir er mjög að aukast, m.a. með samningum um vörslu verðbréfafyrirtækja og lánastofnana á fjármunum lífeyrissjóða. Mörg verkefni Fjármálaeftirlitsins hafa tengst þessari þróun.
    Álitaefni sem tengjast viðbótarlífeyrissparnaði, sem lífeyrissjóðum, lánastofnunum, verðbréfafyrirtækjum og líftryggingafélögum er heimilt að veita viðtöku, hafa verið til athugunar af hálfu Fjármálaeftirlitsins.
    Þá stendur yfir athugun á tryggingafræðilegum úttektum nokkurra lífeyrissjóða í því skyni að leggja mat á forsendur og aðferðafræði sem þessar athuganir byggjast á. Eitt mikilvægasta atriði lífeyrissjóðalaganna er að eign lífeyrissjóðs ásamt núvirði framtíðariðgjalda skuli vera jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris. Eina undantekningin eru lífeyrissjóðir sem njóta bakábyrgðar ríkis, sveitarfélags eða banka því þar á ábyrgðin að brúa það sem á vantar. Verulegur halli er á flestum þeirra lífeyrissjóða sem eru með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga.

3.     Rekstur Fjármálaeftirlitsins.
    Tekjur Fjármálaeftirlitsins á árinu 1999 námu alls 210,0 m.kr. en þar af voru tekjur af eftirlitsgjaldi samtals 199,6 m.kr. Ýmsar tekjur sem til féllu á árinu alls 10,4 m.kr. tengjast annars vegar endurgreiðslu vegna stofnunar Fjármálaeftirlitsins á árinu 1998 og hins vegar úrskurðarnefnd í vátryggingamálum sem vistuð er hjá stofnuninni, eða 2,9 m.kr. Gjöld samtals námu 174,6 m.kr. og fjármunatekjur voru alls 0,2 m.kr. Tekjuafgangur varð því af rekstrinum á árinu sem nam 35,6 m.kr. Þrjár meginástæður voru fyrir því. Í fyrsta lagi varð stofnkostnaður við kaup á tölvubúnaði lægri en áætlað var þar sem gerður var rekstrarleigusamningur um búnaðinn í stað þess að kaupa hann eins og gert hafði verið ráð fyrir í rekstraráætlun stofnunarinnar fyrir árið. Önnur ástæða var sú að frestað var að ráða í stöður sem gert hafði verið ráð fyrir í rekstraráætlun og í þriðja lagi urðu tekjur stofnunarinnar nokkru hærri en áætlað hafði verið. Tekjuafgangur af starfsemi Fjármálaeftirlitsins gengur upp í álagt eftirlitsgjalds næsta árs.
    Heildareignir stofnunarinnar í árslok 1999 námu samtals 37,2 m.kr. sem allt voru veltufjármunir, þ.e. innstæða á bankareikningi og skammtímakröfur.
    Fjármálaeftirlitið hefur sent viðskiptaráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs, skv. 2. gr. laga nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Um rekstur Fjármálaeftirlitsins er að öðru leyti vísað til þeirrar skýrslu.



Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

    Tilgangur með frumvarpinu er að kveða á um álagningastofna eftirlitsskyldra fjármálastofnana. Ár hvert skal Fjármálaeftirlitið og samráðsnefnd eftirlitskyldra aðila skila viðskiptaráðherra skýrslu um umfang og útgjöld eftirlitsins. Frumvarp þetta er lagt fram þar sem um er að ræða breytingu á stofni eftirlitsgjalds. Áætlað er að álagt eftirlitsgjald verði 3 m.kr. hærra en árið áður eða samtals 195 m.kr. Hins vegar aukast útgjöld Fjármálaeftirlitsins um 33 m.kr. og eru áætluð 228 m.kr. Mismunurinn greiðist af uppsöfnuðum tekjuafgangi stofunarinnar. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.