Ferill 114. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 339  —  114. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Árna Steinars Jóhannssonar um nefndir og ráð á vegum ríkisins.

    Eins og fyrr þegar fyrirspurn um þetta efni var beint til forsætisráðherra (123. löggjafarþing, 131. mál) byggist svarið á upplýsingum sem ráðuneytin hafa látið forsætisráðuneytinu í té hvert um sig. Sömu vandkvæði eru á að svara þessari fyrirspurn nú og áður, þ.e. að skilgreina má fyrirspurnina með ólíkum hætti, en leitast hefur verið við að samræma svör svo sem kostur er.

1.    Hversu margar nefndir og ráð starfa nú á vegum ríkisins?
    Fjöldi nefnda, ráða og stjórna á vegum ríkisins, sem eru starfandi eða hafa starfað á yfirstandandi ári, er 861. Eru þá taldar allar nefndir, stjórnir og ráð, einnig stjórnir heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa, sem áður hafa verið undanskildar í svörum við fyrirspurnum um sama efni. Stjórnir hlutafélaga sem eru að fullu eða að hluta í eigu ríkisins eru þó undanskildar.
    Er spurningu sama efnis var svarað af forsætisráðherra á 123. löggjafarþingi voru nefndir, stjórnir og ráð alls 665.

2.    Hversu margir eru í þeim, sundurliðað eftir kjördæmum?
    Búseta nefndarmanna eftir kjördæmum er sem hér segir (varamenn eru ekki meðtaldir).

Ár 2000 Ár 1998 Ár 1998  
Fjöldi í   nefndum Hlutfall Fjöldi í   nefndum Hlutfall Hlutfall af   íbúafjölda í  landinu öllu
Reykjavík 2.164 52,9% 2.075 59,1% 39,4%
Reykjanes 1.009 24,7% 869 24,7% 27,3%
Vesturland 178 4,4% 100 2,8% 5,1%
Vestfirðir 92 2,3% 38 1,1% 3,1%
Norðurland vestra 112 2,7% 56 1,6% 3,5%
Norðurland eystra 204 5,0% 148 4,2% 9,6%
Austurland 121 3,0% 69 2,0% 4,5%
Suðurland 207 5,1% 157 4,5% 7,5%
4.087 3.512

    Heildarfjölgun nefndarmanna milli áranna 1998 og 2000 (um 15%) skýrist einkum af fjölgun nefnda, ráða og stjórna fyrr sama tímabil (um 30%). Eins og áður greinir eru stjórnir heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa nú meðtaldar en voru það ekki áður. Afleiðing af þeirri breytingu er að nefndar- og stjórnarmönnum fjölgar hlutfallslega meira á landsbyggðinni en í Reykjavík og á Reykjanesi milli áranna 1998 og 2000.
    Upplýsingum um nefndir og nefndarmenn er almennt betur til haga haldið nú en áður og er það nú gert í sérstökum skrám (svokölluðum nefndabrunnum) sem ráðuneytin halda.
3.    Hver er heildarkostnaður ríkisins við nefndir og ráð það sem af er þessu ári?
    Heildarkostnaður við nefndir, stjórnir og ráð er hér upp gefinn 277 millj. kr. fyrir tímabilið frá 1. 1. til 30. 9. 2000. Þess ber að geta að algengt er að nefndarlaun séu greidd út í einu lagi í lok árs og á það sér í lagi við um verkefnanefndir sem starfa tímabundið. Að auki er oft erfitt að greina að kostnað vegna nefnda eða ráða og kostnað vegna þeirra viðfangsefna sem þau sinna. Eðli þeirra verkefna, sem margar nefndir fara með, er slíkt að misvísandi væri að líta svo á að allur kostnaður sem færður er á þær sé til kominn vegna nefndarstarfsins sem slíks.