Ferill 97. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 379  —  97. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um sjálfsvígstilraunir.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margir hafa komið inn á bráðamóttöku og/eða slysadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss (Landspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur) vegna sjálfsvígstilrauna, árlega undanfarin tíu ár og það sem af er þessu ári, sundurliðað eftir aldri og kyni?
     2.      Hverjar eru sambærilegar tölur fyrir sjúkrahús annars staðar á landinu?
     3.      Hversu algengt er að sami aðili komi oftar en einu sinni eftir slíka tilraun?


    Til að leita svara við ofangreindum spurningum var haft samband við eftirtalda aðila: Landspítala – háskólasjúkrahús, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, landlæknisembættið og stærstu sjúkrahúsin í öllum landshlutum. Auk þess er byggt á upplýsingum úr skýrslum. Þær upplýsingar sem fengist hafa svara ekki öllum spurningum þingmannsins til fulls en reynt er að varpa sem skýrustu ljósi á málefnið út frá fyrirliggjandi gögnum. Ástæða þess að ekki er unnt að svara nákvæmlega öllum spurningunum er sú að upplýsingarnar sem óskað er eftir eru misaðgengilegar og liggja víðast hvar í sjúkraskýrslum einstakra skjólstæðinga. Til að fá upplýsingar úr einstökum sjúkraskrám þarf leyfi tölvunefndar og vísindasiðanefndar. Jafnframt er bent á að greiningin „sjálfsvígstilraun“ er ætíð háð nokkurri óvissu.

Upplýsingar frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi.
Bráðamóttaka við Hringbraut.
    Upplýsingar frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi koma annars vegar frá bráðamóttöku við Hringbraut og hins vegar frá geðdeild í Fossvogi. Flest tilvikin á bráðamóttöku við Hringbraut eru vegna lyfjaeitrunar en í Fossvogi vegna annarra sjálfsvígstilrauna, svo sem voðaskota, slysa o.fl.
    Til eru áreiðanlegar upplýsingar um eitranir á bráðamóttöku við Hringbraut árin 1996– 1998 þar sem gerð var sérstök rannsókn fyrir þessi ár sem var lokaverkefni til kandídatsprófs í lyfjafræði lyfsala. Leyfi fyrir rannsókninni var fengið hjá tölvunefnd og vísindasiðanefnd. Í rannsókninni var farið ofan í sjúkraskrár og greiningarkóðar samræmdir. Á þessum árum voru 269 tilfelli sjálfsvígstilrauna skráð vegna lyfjaeitrunar eða að meðaltali um 90 á ári. Þegar lyfjaeitrun er skráð getur ástæða hennar verið mismunandi, svo sem sjálfsvígstilraun, ofnotkun lyfja eða áfengismisnotkun, ofskömmtun lyfja, „vekja athygli“, slys o.fl.
    Í fyrrgreindri rannsókn kemur fram að 48% lyfjaeitrana á bráðamóttöku við Hringbraut eru vegna sjálfsvígstilrauna. Af 269 tilraunum sem áreiðanlega eru skráðar og samræmdar greiningar eru fyrir er um að ræða 82 karla og 187 konur. Flestir sem reyna sjálfsvíg eru 21– 30 ára, eða 84 talsins, þeir sem eru 31–40 ára eru 58 talsins, þeir sem eru 41–50 ára eru 62 talsins og þeir sem eru 11–20 ára eru 39 talsins. Eldri en 50 ára eru mun færri.
    Eins og fram hefur komið er ástæða lyfjaeitrunar skráð sem sjálfsvígstilraun fyrir 82 karla og 187 konur á árunum 1996–1998. Aðrar skráðar ástæður fyrir lyfjaeitrun eru t.d. „vekja athygli“ (23 karlar og 71 kona) og slys (25 karlar og 26 konur). Af þeim sem koma vegna lyfjaeitrunar á rannsóknartímabilinu látast þrír.
    Á þessu þriggja ára tímabili voru 607 innlagnir vegna lyfjaeitrunar og á bak við þær innlagnir eru 500 einstaklingar. Því er ljóst að einhverjir koma oftar en einu sinni vegna lyfjaeitrunar á tímabilinu.
    Frá bráðamóttöku við Hringbraut liggja einnig fyrir heildartölur fyrir árin 1990–1999 þar sem sjálfsvígstilraun er kóðuð sem hugsanleg orsök eða tilefni eitrunar. Hér er um 1.310 tilfelli að ræða. Það er því nokkuð hærri tala heldur en meðaltal fyrir árið 1996–1998 gefur til kynna. Í þessari heildartölu eru einnig stærri óvissuþættir í greiningu þar sem ekki hefur verið farið ofan í greiningarkóðana með sama hætti og fyrir árið 1996–1998. Bókhaldi fyrir árið 2000 hefur ekki verið lokað þannig að tölur fyrir árið í ár liggja ekki fyrir.

Geðdeild í Fossvogi.
    Í skriflegri greinargerð sem ráðuneytinu barst vegna fyrirspurnarinnar er tekið fram að miklum annmörkum sé háð að veita þær upplýsingar sem beðið er um svo langt aftur í tímann og krefjast þær gríðarlegrar vinnu ritara og lækna, í raun lestrar sjúkraskýrslna einstakra sjúklinga ef áreiðanlegar upplýsingar eigi að fást. Jafnframt er bent á í svari frá sjúkrahúsinu að ef óskað sé eftir upplýsingum um algengi vandamálsins úti í samfélaginu verði að telja vandamálið á þeim vettvangi. Talning í gegnum spítalaþjónustu geti aldrei gefið slíkar upplýsingar. Aðeins lítill hluti þeirra sem skaði sig leyti sér þar hjálpar. Sjúkrahúsið hefur því valið að birta þær tölur sem eru áreiðanlegar og aðgengilegar og spanna þær fyrstu tíu mánuði ársins 2000 og byggjast á skráningu bráðaþjónustu geðdeidar.

Tafla 1.
Janúar–október 2000.

Einstaklingar

x Tíðni koma

Fjöldi koma

Innlögn N(%)
Sjálfsvígs-
tilraun gerð
Sjálfsvígsáform
en engin tilraun
gerð til sjálfsskaða
469 x 1 469 88 (19%) 135 45
85 x 2 170 45 (26%) 51 20
29 x 3 87 28 (32%) 21 8
11 x 4 44 23 (52%) 3 1
4 x 4 20 9 (45%) 1 2
1 x 6 6 0 0 0
0 x 7 0 0 0 0
1 x 8 8 3 (38%) 1 1
0 x 9 0 0 0 0
1 x 10 10 6 (60%) 1 1
Alls: 601 814 202 (25%) 213 (26%) 78 (10%)

    Bent er á að þær tölur sem birtar eru frá sjúkrahúsinu fyrir þetta ár ná einungis til bráðaþjónustu geðdeildar í Fossvogi en í flestum tilvikum eru geðlæknar kallaðir til á slysadeild þegar grunur leikur á sjálfsvígstilraun. Í tölunum eru ekki sjúklingar sem lögðust beint inn á geðdeild A2 í Fossvogi án viðkomu á slysadeild né heldur sjúklingar sem hafa tekið verulegan ofskammt af lyfjum og lagst beint á gjörgæsludeild eða lyflæknisdeild án þess að til samráðskvaðningar við bráðaþjónustu geðdeildar gæti komið. Í greinargerð frá spítalanum kemur fram að það tekur lengri tíma að ná í þær tölur og krefst handtalningar og lestrar á miklu magni af gögnum.
    Í greinargerðinni kemur fram að áhrif vímuefna, oftast áfengis, komi við sögu í meiri hluta tilfella hjá þeim sem hafa skaðað sig viljandi (sjálfsskaði) og koma á slysadeild, hvort sem um sjálfsvígsáform eru greinileg eður ei.
    Í svarinu er einnig lögð áhersla á að sjúkdómsgreiningar séu af ýmsum ástæðum ekki mjög áreiðanlegar fyrir þann hóp sem hér um ræðir út frá einu mati á slysadeild, hlutaðeigandi sjúklingar eru t.a.m. mjög oft undir áhrifum vímugjafa af einhverju tagi þegar þeir ákveða, oft af hvatvísi, að skaða sig (oftast með eggvopni eða með töku ofskammta af lyfjum). Mikilvægt sé að gera sér grein fyrir því að hugtakið sjálfsvígstilraun eða sjálfsskaði spanni vítt litróf, allt frá töku 3–4 skammta af svefnlyfjum í reiði undir áhrifum áfengis (oft eftir rifrildi eða átök í ástarsamböndum) yfir í alvarlega líkamlega áverka hjá einstaklingum með alvarlegar geðraskanir. Það sé því ekki rétt að hugsa um þennan hóp sem eina heild, heldur verði að meta hvert tilvik fyrir sig á faglegan hátt.

Upplýsingar frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.
    Upplýsingar bárust frá geðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri um fjölda innlagna frá 1. janúar 1991 til 31. október 2000 þar sem sjálfsvígstilraun var orsök eða meðverkandi orsök vistunar, skipt eftir aldri og kyni. Á þessu tímabili lögðust inn alls 106 einstaklingar. Flestir lögðust inn einu sinni, eða 94 einstaklingar, átta einstaklingar lögðust inn tvisvar og fjórir einstaklingar voru lagðir inn þrisvar á tímabilinu vegna sjálfsvígstilrauna. Innlagnir eru því nokkru fleiri en einstaklingar, eða alls 122 innlagnir. Algengasta aðferð við sjálfsvígstilraun var lyfjaeitrun, eða 58,2%, áverkar með hvössu áhaldi var næstalgengasta aðferðin, eða 25,4%, og ýmsar aðrar aðferðir 17,4%. Aldurs- og kynskipting var samkvæmt meðfylgjandi töflu.
    Á töflunni má sjá að sjálfsvígstilraunir eru algengari meðal kvenna, alls 85 konur reyna sjálfsvíg á tímabilinu og 37 karlar. Hjá báðum kynjum eru sjálfsvígstilraunir algengastar á aldrinum 20–29 ára. Í heild hefur þeim sem reyna sjálfsvíg fjölgað frá árinu 1991–2000.

Tafla 2. Fjöldi innlagna á geðdeild FSA (P) 1.1.1991–31.10.2000 þar sem sjálfsvígstilraun var orsök eða meðverkandi orsök vistunar. Skipt eftir aldri og kyni.

Aldursbil\Ár 1991 1992 1993 1994 1995 1996
Karlar Konur Karlar Konur Karlar Konur Karlar Konur Karlar Konur Karlar Konur
15–19 1 1 1 1 1 2
20–29 2 4 1 1 2 2 7 1 3
39–39 1 1 1 5 1 3
40–49 2 1 2
50–59 1 1 1 1 1
60–69 1 1
70–79 1 1
Samtals 2 4 5 2 3 3 5 9 1 11 4 7
Samtals, bæði kyn 6 7 6 14 12 11
Samtals, einstaklingar 6 7 6 11 10 11
Samtals
Aldursbil\Ár 1997 1998 1999 2000 1991–2000
Karlar Konur Karlar Konur Karlar Konur Karlar Konur Karlar Konur
15–19 4 1 2 2 5 2 8 15
20–29 2 2 3 1 4 1 6 12 30
39–39 1 2 6 1 3 3 22
40–49 1 1 1 1 3 4 8
50–59 1 1 3 1 1 3 9
60–69 1 1 2 5 1
70–79 2 0
Samtals 0 8 6 7 8 19 3 15 37 85
Samtals, bæði kyn 8 13 27 18 122
Samtals, einstaklingar 7 13 23 15 100

Upplýsingar frá öðrum sjúkrahúsum.
    Fæst sjúkrahús á landsbyggðinni höfðu aðgengilegar upplýsingar til að svara fyrirspurninni öðru vísi en að fara ofan í einstakar sjúkraskrár. Eftirfarandi upplýsingar bárust:
    Frá sjúkrahúsi 1 fengust upplýsingar frá 1. janúar 1999 til 13. nóvember 2000. Þar er um að ræða 6 einstaklinga sem reynt hafa sjálfsvíg á þessu tímabili. Tveir hafi gert tvær tilraunir áður á sama tímabili. Fæðingarár einstaklinganna eru: 1959, 1960, 1980, 1983 (2 einstaklingar) og 1984. Um er að ræða fjórar konur og tvo karla.
    Frá sjúkrahúsi 2 fengust þær upplýsingar að sl. 10 ár væri um að ræða tvær sjálfsvígstilraunir á ári. Ekki var greint eftir aldri og kyni. Á þessu ári hefur verið skráð ein sjálfsvígstilraun. Bent er á að vegna sjálfsvígstilrauna sé gjarnan leitað beint til Reykjavíkur á geðdeildir, sérstaklega þegar um tilraunir í heimahúsi er að ræða eða ef viðkomandi er í tengslum við geðdeild fyrir. Helst koma lyfjaeitranir á sjúkrahúsið úr þessum landsfjórðungi. Ef ekki er brýnt að bregðast við skjótt vegna líkamlegra kvilla er keyrt beint til Reykjavíkur. Í upplýsingum frá sjúkrahúsinu kom fram að nokkuð er um að sami aðili komi oftar en einu sinni. Upplýsingar frá sjúkrahúsinu miðast við þá sem leggjast inn á sjúkrahúsið. Bent er á að gífurleg óvissa sé varðandi greiningu og skráningu á sjálfsvígstilraunum, t.d. séu sjálfsáverkar oft óljósir líkt og notkun svefnlyfja o.fl. Hér sé því stórt grátt svæði og oft sé ekki greind sjálfsvígstilraun heldur sé t.d. notuð greining vegna geðsjúkdóms ef um slíkt er að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá sjúkrahúsinu er ekki merkjanleg fjölgun sjálfsvígstilrauna þar.

Aðrar upplýsingar.
    Ljóst er að sjálfsvígstilraunir eru alvarlegt vandamál á Íslandi. Í rannsókn sem gerð var á Borgarspítalanum á 9. áratugnum voru skoðuð afdrif annars vegar þeirra sem gert höfðu tilraun til sjálfsvígs og hins vegar þeirra sem komu af öðrum ástæðum. Fram kom að tíðni sjálfsvíga var marktækt hærri hjá þeim sem reynt höfðu sjálfsvíg áður. Því er mikilvægt að þessir einstaklingar fái faglegan stuðning strax og sé fylgt vel eftir. Fagfólk greinir vandann og sífellt er verið að leita leiða til að bæta þjónustuna við þennan hóp.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur lagt áherslu á mikilvægi forvarna og fræðslu í þessu sambandi. Benda má á að í drögum að heilbrigðisáætlun til 2010 kemur fram sú stefna stjórnvalda að dregið verði úr tíðni sjálfsvíga um 25% á tímabilinu. Landlæknisembættið hefur einnig unnið töluvert starf á þessu sviði og má nefna nokkur verkefni á vegum embættisins í þessu sambandi:
    Geðrækt – samvinnuverkefni Geðhjálpar, landlæknisembættisins og geðdeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss. Hér er um víðtækt verkefni að ræða sem snýr m.a. að uppbyggingu á geðheilsu og forvörnum.
    Starfandi er starfshópur á vegum landlæknisembættisins sem í sitja tveir geðlæknar og einn sálfræðingur og er hópnum falið að leggja fram tillögur til forvarna gegn sjálfsvígum. Haldið var málþing í júní sl. um efnið og boðið til þess fulltrúum fjölmargra aðila sem tengjast viðfangsefninu. Í framhaldi af málþinginu hafa um 40 aðilar tekið þátt í hópvinnu til að leggja fram tillögur í málinu. Von er á tillögum starfshópsins til landlæknis nú í haust.
    Rannsókn sem Vilhelm Norðfjörð hefur gert á hárri tíðni sjálfsvíga á Austfjörðum á ákveðnu tímabili mun birtast innan tíðar en hún er unnin að beiðni landlæknisembættisins. Niðurstöðum er ætlað að auka skilning á viðfangsefninu til að unnt sé að leggja fram tillögur að fyrirbyggjandi aðgerðum á landsvísu.
    Viðræður eru hafnar um framskyggna rannsókn í samvinnu við bandaríska vísindamenn þar sem tekin verða viðtöl við aðstandendur þeirra sem framið hafa sjálfsvíg og áhættuþættir sjálfsvíga verða kannaðir.
    Á heimasíðu landlæknisembættisins hefur sl. mánuði verið ítarleg umfjöllun í umsjá geðlæknis um þunglyndi.
    Landlæknisembættið helgaði janúar sl. umræðu um þunglyndi og stuðlaði það að mikilli umræðu um sjúkdóminn í samfélaginu sem m.a. varð til þess að stofnaður var sjálfshjálparhópur á vegum Geðhjálpar.
    Landlæknir skrifaði nýlega bréf til allra héraðslækna á landinu þar sem óskað var eftir upplýsingum varðandi skráningu og viðbrögð við sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum.
    Innan heilbrigðisþjónustunnar hefur átt sér stað umræða um hvort halda eigi sérstakan gagnagrunn um sjálfsvíg og sjálfsvígstilraunir. Sjálfsvíg og sjálfsvígstilraun eru tvær ólíkar sjúkdómsgreiningar og sjúkdómurinn eða sjúkdómsmyndin sem birtist einnig. Við skoðun á þessu máli þarf að taka mið af fjölmörgum þáttum, m.a. ýmsum siðferðilegum sjónarmiðum. Landlæknisembættið hefur skoðað þetta mál en engin ákvörðun hefur verið tekin.