Ferill 237. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 395  —  237. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um skógræktarverkefni.

     1.      Hvað er ráðherra kunnugt um mörg skógræktarverkefni sem unnið er að hér á landi um þessar mundir og hver eru þau?
    Sjö verkefni:
    a. Fimm landshlutabundin skógræktarverkefni: Héraðsskógar, Suðurlandsskógar, Norðurlandsskógar, Vesturlandsskógar og Skjólskógar á Vestfjörðum. Hvert verkefni er sjálfstæður aðili, sem sinnir ræktun skóga og skjólbelta á þeim landsvæðum sem tiltekin eru í lögum þeirra og/eða áætlunum, samþykktum af ráðherra. Áætlanirnar eru til 40 ára.
    b. Nytjaskógrækt á bújörðum: Samkvæmt lögum um skógrækt, nr. 3/1955, styrkir ríkissjóður ræktun nytjaskóga á bújörðum í þeim héruðum landsins þar sem skógræktarskilyrði eru vænleg, eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum hverju sinni, enda verði skógræktin þáttur í búskap bænda eða jarðeigenda.
    Skógrækt ríkisins styður enn þá „nytjaskógrækt á bújörðum“ á þeim svæðum á Austurlandi sem falla ekki undir Héraðsskóga. Í öðrum landshlutum hafa landshlutabundnu skógræktarverkefnin leyst það verkefni af hólmi.
    c. Landgræðsluskógar: Samstarfsverkefni á vegum landbúnaðarráðuneytisins, Skógræktarfélags Íslands og aðildarfélaga þess, Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins, verkefni undir stjórn Skógræktarfélags Íslands.

     2.      Hvert er umfang hvers um sig?
     Héraðsskógar, stofnsettir 1991. Héraðsskógaáætlunin er til 40 ára, skipt í 10 ára tímabil. Markmiðið er að gróðursetja í 20.000 ha. Í Fljótsdalsáætlun, sem var undanfari Héraðsskóga, höfðu verið gróðursettar 700 þús. plöntur á árunum 1970–1989.
    Fjöldi þátttakenda: 107.
    Fjöldi á biðlista: 15.
    Gróðursett frá upphafi: 12,3 millj. plantna.
    Lengd skjólbelta: 40 km.
     Suðurlandsskógar, stofnsettir 1998. Innan ramma verkefnisins er gert ráð fyrir að rækta skóga á um 35.000 ha lands eða á um 5% af flatarmáli láglendis. Timburskógrækt verði stunduð á um 15.000 ha og landbótaskógrækt á um 20.000 ha lands. Þá er gert ráð fyrir að rækta um 10.000 km af skjólbeltum.
     Norðurlandsskógar, stofnsettir 2000. Samkvæmt áætlun verkefnisins er gert ráð fyrir að rækta skóg á um 5% af flatarmáli láglendis undir 400 m h.y.s., 20.000 ha af timburskógum, 45.000 ha af landbótaskógum og rækta um 10.000 km af skjólbeltum.
    Fjöldi þátttakenda: 42.
    Fjöldi á biðlista: 150.
    Gróðursett frá upphafi (með nytjaskógrækt á bújörðum): 2,3 millj. plantna.
    Lengd skjólbelta: 25 km.
     Vesturlandsskógar, stofnsettir 2000. Stefnt er að því að rækta skóg á a.m.k. 5% láglendis undir 400 m h.y.s. eða sem nemur 35.000 ha. Timburskógrækt er áætluð á um 15.000 ha lands og landbótaskógrækt á um 10.000 ha lands.
     Skjólskógar á Vestfjörðum, stofnsettir 2000. Stefnt er að því að rækta skjólbelti og fjölnytjaskóga á a.m.k. 5% af flatarmáli lands undir 400 m h.y.s. á Vestfjörðum eða sem nemur 28.000 ha. Náttúruleg þekja skóga og kjarrs er nú ætluð 20.600 ha. Gróf skipting skógræktarflokka er áætluð eftirfarandi: Fjölnytjaskógur 5.800 ha, landbóta- og landgræðsluskógrækt, ásamt endurheimt birkiskóga, 7.000 ha, beitarverndar- og skjólskógar 15.200 ha. Áætlað er að skjólbelti verði allt að 2.000 km.
    Fjöldi þátttakenda: 12 jarðir og á biðlista eru 84.
    Gróðursettar voru 96.000 plöntur í ár og 7 km af skjólbeltum.
     Nytjaskógrækt á bújörðum. Skógrækt bænda undir stjórn Skógræktar ríkisins. Náði áður til innsveita í öllum landsfjórðungum, en nær nú einungis til bænda á Austurlandi utan Héraðsskógasvæðisins. Þetta verkefni var undanfari landshlutabundnu skógræktarverkefnanna en er nú um það bil að líða undir lok.
    Fjöldi þátttakenda alls 1984–2000: 60.
    Fjöldi þátttakenda nú: 12 (eingöngu á Austurlandi utan Héraðs).
    Gróðursett frá upphafi: 3 millj. plantna, þar af 120.000 plöntur á þessu ári.
     Landgræðsluskógar. Samningsbundin svæði á vegum Landgræðsluskóga eru um 120, víðs vegar á landinu. Ræktunarsvæðin eru að 2/3 hluta í eigu sveitarfélaga og 1/3 í eigu ríkisins, skógræktarfélaga og einstaklinga.
    Flatarmál er um 10.000 ha og þar af er búið að gróðursetja í tæplega helming eða 4.800 ha. Gróðursettar hafa verið 11,5 millj. plantna. Um 50 skógræktarfélög eru þátttakendur og koma að samningagerð, umsjón og gróðursetningu. Samvinna við sveitarfélög er víða mikil. Á landsvísu koma að verkefninu milli 5–800 manns árlega.

     3.      Hvert er markmið og tilgangur hvers um sig?
    a. Landshlutabundin skógræktarverkefni.
    Héraðsskógar: Tilgangur þeirra er að stuðla að ræktun nytjaskóga á Fljótsdalshéraði og umhirðu þess skóglendis sem þar er fyrir og treysta með því byggð og efla atvinnulíf á Héraði.
    Suðurlandsskógar: Tilgangur þeirra er að stuðla að ræktun fjölnytjaskóga á Suðurlandi (þ.e. Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu) og umhirðu þess skóglendis sem þar er fyrir og treysta með því byggð og fjárfesta í nýrri auðlind sem efla mun atvinnulíf í framtíðinni. Markmiðið með Suðurlandsskógum er að gefa sem flestum tækifæri til að taka þátt í fjölnytjaskógrækt á Suðurlandi og stuðla þannig að þróun og viðhaldi byggðar á svæðinu jafnframt því að græða og bæta landið fyrir komandi kynslóðir.
    Vesturlandsskógar: Tilgangur þeirra er að stuðla að aukinni skóg- og skjólbeltarækt á lögbýlum á Vesturlandi, þ.e. í Kjósarsýslu, Borgarfjarðarsýslu, Mýrasýslu, Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu og Dalasýslu. Gert er ráð fyrir að sem flestir þeir sem umráð hafa yfir landi – og áhuga geti orðið þátttakendur í verkefninu. Markmið þeirra er m.a. að stuðla að traustari byggð til langframa á svæðum sem nú eiga undir högg að sækja.
    Skjólskógar á Vestfjörðum: Tilgangur þeirra er að rækta skjólbelti og fjölnytjaskóga á Vestfjörðum (þ.e. Barðastrandarsýslum, Ísafjarðarsýslum og Strandasýslu), treysta með því byggð og fjárfesta í nýrri auðlind sem efla mun atvinnu- og mannlíf í framtíðinni. Einnig er ætlast til að Skjólskógar hirði um náttúrulega skóga á svæðinu og hafi forustu um þekkingarmiðlun og tilraunir er varða skógrækt á svæðinu. Markmið þeirra er að verða öflugt byggða- og umhverfisverkefni jafnframt því að vera ný búgrein.
    Norðurlandsskógar: Tilgangur þeirra er að stuðla að skóg- og skjólbeltarækt á Norðurlandi (þ.e. Austur- og Vestur-Húnavatnssýslu, Skagafjarðarsýslu, Eyjafjarðarsýslu, Norður- og Suður-Þingeyjarsýslu) og treysta með því byggð og fjárfesta í nýrri auðlind sem efla mun atvinnulíf í framtíðinni. Markmiðið er að skapa nýtt, öflugt byggða- og umhverfisverkefni og að gefa sem flestum kost á því að taka þátt í því.
    b. Nytjaskógrækt á bújörðum.
    Samkvæmt lögum um skógrækt, nr. 3/1955, styrkir ríkissjóður ræktun nytjaskóga á bújörðum í þeim héruðum landsins þar sem skógræktarskilyrði eru vænleg, eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum hverju sinni, enda verði skógræktin þáttur í búskap bænda eða jarðeigenda.
    c. Landgræðsluskógar.
    Tilgangur þeirra og markmið er að endurheimta landgæði með ræktun og gróðursetningu í rýrt og ógróið land. Auk þess eru öll svæðin ætluð til útivistar og almenningsnota. Lögð hefur verið áhersla á að velja svæði í nágrenni eða við þéttbýli, ellegar við fjölförnustu leiðir.

     4.      Á hverra forræði eru þessi verkefni og hvernig er fjármögnun þeirra háttað?
    a. Landshlutabundin skógræktarverkefni.
    Forræði verkefnanna á hverri jörð fyrir sig er hjá landeigandanum sjálfum, hann er framkvæmdaraðili og eigandi skógarins. Með samningi við landshlutabundnu skógræktarverkefnin tryggir hann sér aðgang að þjónustu og fjármagni til stofnframkvæmda og samþykkir ákveðnar skyldur sem hvíla á jörðinni.
    Fjármögnun er þannig háttað að samningurinn veitir landeiganda framlag eða lán fyrir 97% af stofnkostnaði sem hann á að endurgreiða samkvæmt lögunum þegar skógurinn fer að skila tekjum. Samkvæmt lögunum greiðir ríkissjóður kostnað vegna fastra starfsmanna verkefnanna.
    Hvert landshlutaverkefnið lýtur stjórn sem skipuð er af landbúnaðarráðherra samkvæmt ákvæðum viðkomandi laga.
    Stjórn Héraðsskóga er skipuð þremur aðilum: einum fulltrúa Skógræktar ríkisins, einum fulltrúa Félags skógareigenda á Austurlandi og einum fulltrúa landbúnaðarráðherra. Stjórnin er skipuð til tveggja ára í senn.
    Stjórn Suðurlandsskóga er skipuð þremur aðilum: einum fulltrúa Skógræktar ríkisins, einum fulltrúa Félags skógarbænda á Suðurlandi og einum fulltrúa landbúnaðarráðherra. Stjórnin er skipuð til fjögurra ára.
    Stjórn Norðurlandsskóga er skipuð fjórum aðilum: einum fulltrúa Skógræktar ríkisins, einum fulltrúa Félags skógarbænda á Norðurlandi, einum fulltrúa skógræktarfélaga á Norðurlandi og einum fulltrúa landbúnaðarráðherra. Stjórnin er skipuð til fjögurra ára.
    Stjórn Vesturlandsskóga er skipuð fjórum aðilum: einum fulltrúa Skógræktar ríkisins, einum fulltrúa Félags skógarbænda á Vesturlandi, einum fulltrúa skógræktarfélaga á Vesturlandi og einum fulltrúa landbúnaðarráðherra. Stjórnin er skipuð til fjögurra ára.
    Stjórn Skjólskóga á Vestfjörðum er skipuð fjórum aðilum: einum fulltrúa Skógræktar ríkisins, einum fulltrúa Félags skógarbænda á Vestfjörðum, einum fulltrúa skógræktarfélaga á Vestfjörðum og einum fulltrúa landbúnaðarráðherra. Stjórnin er skipuð til fjögurra ára.
    b. Skógrækt ríkisins styrkir verkefnið nytjaskógrækt á bújörðum og stýrir því.
    c. Landgræðsluskógar er samstarfsverkefni Skógræktarfélags Íslands, Skógræktar ríkisins, Landgræðslu ríkisins og landbúnaðarráðuneytisins. Verkefninu er stjórnað og það er skipulagt af Skógræktarfélagi Íslands. Verkefnið hófst með söfnunarátaki 1990 í tilefni 60 ára afmælis Skógræktarfélags Íslands og var fyrstu árin fjármagnað á þann hátt. Lengst af hefur Skógrækt ríkisins styrkt verkefnið með trjáplöntum, Landgræðslan annast um flutning plantnanna til skógræktarfélaganna vítt og breitt um landið sem önnuðust gróðursetninguna í sjálfboðavinnu eða útveguðu fólk til starfans. Eftir að Skógrækt ríkisins var gert að hætta að stærstum hluta plöntuframleiðslu var erfiðara um vik fyrir stofnunina að leggja til plöntur til verkefnisins. Árið 1999 var gerður samningur milli Skógræktarfélags Íslands, landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra til ársins 2003 sem felur í sér að ríkissjóður skuldbindur sig til að greiða árlega framlög til Landgræðsluskóga sem hér segir: Árið 1999 10 millj. kr., árið 2000 12 millj. kr., árið 2001 14 millj. kr., árið 2002 16 millj. kr. og árið 2003 16 millj. kr. Á sama tíma mun Skógrækt ríkisins hætta að leggja verkefninu til plöntur.

     5.      Hver eru tengsl Skógræktar ríkisins við þessi verkefni?
    Skógrækt ríkisins var í forustu um stofnun landshlutabundnu skógræktarverkefnanna. Þá annaðist hún skipulagningu og áætlanagerð verkefnanna og veitti ráðgjöf og leiðbeiningar. Þar til á síðasta ári sinnti stofnunin þessum þáttum endurgjaldslaust.
    Skógrækt ríkisins á fulltrúa í stjórnum allra verkefnanna. Auk þess hagar svo til á flestum stöðum að starfsmenn Skógræktarinnar og starfsmenn verkefnanna vinna að verulegu leyti undir sama þaki svo tengslin eru mikil og góð.
    Skógrækt ríkisins sér alfarið um framkvæmd nytjaskógræktar á bújörðum.
    Skógrækt ríkisins á fulltrúa í stjórn Landgræðsluskóga.

     6.      Hvað líður endurskoðun laga um skógrækt og landgræðslu?
    Nefnd sem hafði það hlutverk að fjalla um stefnumótun í landgræðslu og leggja fram tillögu að frumvarpi til nýrra landgræðslulaga hefur skilað af sér og lokið störfum. Frumvarpsdrögin eru til meðferðar í ráðuneytinu. Nefnd sem skipuð var á þessu ári og ætlað er að skila stefnumótunarskýrslu og tillögum að frumvarpi til nýrra skógræktarlaga er að störfum. Vænta má niðurstaðna hennar í byrjun næsta árs.