Ferill 338. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 444  —  338. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um herminjasafn á Suðurnesjum.

Flm.: Árni R. Árnason, Hjálmar Árnason,


Árni Johnsen, Drífa Hjartardóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að eiga samstarf við sveitarfélögin á Suðurnesjum um undirbúning að stofnun og starfrækslu herminjasafns.

Greinargerð.


    Á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum sem haldinn var í Garði 13. og 14. október sl. var samþykkt að hefja tillögugerð um hvernig mætti auka samstarf og sérhæfingu safna á Suðurnesjum til að auka menningartengda ferðaþjónustu. Samþykktin er birt sem fylgiskjal I með þessari tillögu. Á fundinum var sérstaklega rætt um að á Suðurnesjum væru bæði fleiri og meiri minjar um dvöl herliðs en í öðrum landshlutum. Á Keflavíkurflugvelli er enda eina herstöð landsins sem á samfellda starfssögu um nærfellt hálfrar aldar skeið og lengur ef miðað er við fyrri herverndarsamning Íslands og Bandaríkjanna frá 1941 en á grundvelli hans tóku Bandaríkin að sér hervernd Íslands og hernámslið Breta hvarf á braut.
    Á grundvelli samþykktarinnar hefur markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar tekið saman greinargerð um stöðu safna á Suðurnesjum sem birt er sem fylgiskjal II með tillögunni. Þar er fjallað um þau átta söfn sem eru starfrækt á Suðurnesjum og framtíðarsýn, m.a. hugmyndir um framtíðartengsl safnanna, eflingu þeirra og ný söfn. Þá er fjallað um aðrar safnminjar og ástand fornminja á Suðurnesjum, m.a. segir í kaflanum Aðrar safnminjar:
    „Sögulegar fornminjar eru víða á Suðurnesjum og flestar illa varðveittar. Dugir hér að minnast á landnámsbæi eins og Hólminn, Í Vogi (nú Gamli-Kirkjuvogur) og fleiri staði.“
    Vert er að geta þess að Ari fróði segir frá því að Ketill gufa Örlygsson hafi komið út síðla á landnámstíð og tekið Rosmhvalanes. Hann hafi leitað fyrir sér í landnámi Ingólfs, m.a. að Gufuskálum í Leiru. Þau Steinuðr, þ.e. Steinunn gamla að Hólmi í Leiru, keyptu saman, þ.e. sömdu, að hann skyldi á brott fara en vermannastöð skyldi vera ávallt frá Hólmi. Ketill gufa nam síðar land í Reykhólasveit og bjó í Gufufirði. Samningur þeirra Steinunnar gömlu varð upphaf þess fyrirkomulags um verstöðvar, verbúðir og vertolla sem síðan gilti á Íslandi í 1100 ár, allt fram yfir aldamótin 1900. Þá gerði vélbátaútvegur gömlu varirnar endanlega ófullnægjandi til útgerðar og hratt af stað hafnargerð í sjávarþorpum. Þorpin tóku við sjávarútvegi landsmanna og fólk sem lifði af sjávarfangi og fiskveiðum fluttist í þorpin sem urðu til víða við sjávarsíðuna. Til Suðurnesja kom um ellefu alda skeið mikill fjöldi manna frá öðrum landshlutum til vetrarvertíðar og fór heim að vori með hlut sinn. Suðurnesjamenn fóru aftur

Prentað upp.

gjarnan á Austfirði til sumarvertíðar og komu að hausti heim með sinn hlut. Minjar um verbúðir og útveg frá þessu langa skeiði má finna víða á Suðurnesjum auk minja um búsetu og starfshætti Suðurnesjamanna, líf og starf við eina af gullkistum landsmanna, auðug fiskimið sem sjaldan brugðust, en í nábýli og baráttu við ægikrafta úthafs og jarðelda sem hafa reglulega sannað reginmátt sinn.
    Þar sem nú er minnst þúsund ára kristni á Íslandi má og geta þess að á bæ sem enn er setinn á Suðurnesjum gerðust atburðir sem telja má síðustu hefndaraðgerðir kaþólskra manna og norðlenskra vegna aftöku Jóns biskups Arasonar og sona hans í Skálholti. Enn má greina minjar um þessa atburði á Suðurnesjum auk þess sem þeir, og eftirmál þeirra og fleiri aftökur, eru kunnir í sögunni.
    Þetta tvennt er hér nefnt til að draga fram í stuttu máli að á Suðurnesjum eru minjar sem spanna öll tímaskeið búsetu á Íslandi, frá landnámi til nútímans. Tillaga þessi fjallar einmitt um varðveislu nútímaminja.
    Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur sent sveitarstjórnum á svæðinu greinargerðina til umfjöllunar. Ákvarðanir sveitarstjórnanna og framkvæmd fer eftir ákvæðum laga um þjóðminjar og söfn.
    Í greinargerðinni er fjallað um framtíðarsýn og vikið að sértækum söfnum. Í kaflanum Herminjasafn segir m.a.:
    „Eitt af sérkennum svæðisins er að hér hefur verið herstöð í yfir 50 ár. Hægt væri að koma upp sérstöku herminjasafni í Rockville þar sem allar byggingar eru nú þegar til staðar. Þetta safn yrði ekki eingöngu safn herminja heldur yrði það um leið stjórnmálasögusafn því fá mál hafa vakið heitari umræður á stjórnmálasviðinu á þessari öld en hersetan.“
    Flutningsmenn styðja þessa hugmynd. Hvergi á landinu er eðlilegra að upp rísi minjasafn af þessu tagi því að hvergi annars staðar á landinu hefur jafnlengi verið erlendur her og áhrif af herstöð og varnarstarfsemi eru því meiri þar en annars staðar.
    Árið 1941 hófst samstarf Íslands og Bandaríkjanna í öryggis- og varnarmálum með gerð tvíhliða herverndarsamnings. Bandaríkin voru þá ekki aðilar að heimsstyrjöldinni síðari, en á grundvelli samningsins lauk hernámi Breta á Íslandi. Samstarf ríkjanna á þessu sviði var endurnýjað með aðild beggja að stofnun Atlantshafsbandalagsins árið 1949 og tvíhliða varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna árið 1951. Á grundvelli þess samnings stofnuðu Bandaríkin varnarliðið á Íslandi, en Ísland hefur ekki á að skipa eigin sveitum til landvarna.
    Á næsta ári verður minnst 50 ára frá undirritun varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna og 50 ára starfs varnarliðsins á Íslandi. Varnarliðið hefur á þeim tíma haft fjölskipaða bækistöð á Íslandi, varnarstöðina á Keflavíkurflugvelli, og tímabundnar og fámennar ratsjárstöðvar í öðrum landsfjórðungum, einna lengst á Stokksnesi í Austur-Skaftafellssýslu.
    Samfelld dvöl bandarískra varnarliðsmanna og bandarískra þjónustuaðila varnarstöðvar í fimm áratugi og jafnlöng búseta bandarískra fjölskyldna til skamms og langs tíma hefur haft áhrif á mannlíf á Suðurnesjum því að varnarstöðin á Keflavíkurflugvelli hefur alla tíð verið fjölmenn. Suðurnesjamönnum fjölgaði undir lok fimmta áratugarins og enn meira á sjötta áratugnum. Fólksflutninga til Suðurnesja á þeim tíma má rekja bæði til vaxandi umsvifa í sjávarútvegi og til framkvæmda varnarliðsins. Það byggði á fáum árum Keflavíkurflugvöll, einn af stærstu alþjóðaflugvöllum á Vesturlöndum, með húsbyggingum, flugbrautum og öðrum mannvirkjum sem öll voru langtum stærri en það sem hér hafði þekkst fram að því. Um tveimur áratugum síðar var hrundið af stað mikilli langtímaáætlun um mannvirkjagerð sem stóð fram undir þennan áratug.
    Svo löng dvöl fjölmenns erlends varnarliðs og erlendra fyrirtækja og búseta fjölskyldna varnarliðsmanna og annarra sem tengjast umsvifum þess á Íslandi á sér ekki hliðstæðu. Á vegum utanríkisráðuneytisins hefur verið safnað myndum og öðru efni um starf og sögu íslensku utanríkisþjónustunnar í 60 ár. Þegar minnst verður fimm áratuga samstarfs Íslands og Bandaríkjanna um öryggis- og varnarmál er eðlilegt að huga að varðveislu minja um upphaf þess sem var svo umdeilt að þjóðin skiptist í fylkingar í afstöðu til þess, um framkvæmd þess og helstu tímamót, svo og um áhrif þess á þjóðlíf okkar og samfélag á Suðurnesjum þar sem það hefur lengst farið fram og verið samfellt.
    Þegar sveitarfélögin á Suðurnesjum huga að málefnum minjasafna og varðveislu minja um varnarsamstarfið er eðlilegt að ríkisstjórnin eigi við þau samstarf til að tryggja aðgang að gögnum sem varðveitt eru á hennar vegum, svo og á vegum varnarliðsins á Íslandi, en til þess þarf atbeina utanríkisráðuneytisins og varnarmálaskrifstofu þess.



Fylgiskjal I.


Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum.
(23. aðalfundur S.S.S. haldinn í Samkomuhúsinu
í Gerðahreppi 13. og 14, október 2000.)

Ályktun um Safna- og ferðamál.

    Aðalfundur SSS haldinn í Garði 13. og 14. okt. 2000 samþykkir að óska eftir við MOA að vinna að tillögugerð um hvernig hægt væri að auka samstarf og sérhæfingu safna hér á Suðurnesjum til að auka menningartengda ferðaþjónustu.
    Til Suðurnesja koma flestir ferðamenn í upphafi og í lok ferða til landsins. Ferðaþjónusta er ung atvinnugrein á Suðurnesjum sem hefur verið að stóraukast á liðnum árum. Suðurnesin hafa upp á margt að bjóða til dægrastyttingar fyrir gesti sem hingað koma, s.s. margar tegundir safna, hvalaskoðun, fuglalíf, stórbrotna náttúru, Bláa lónið og margt fleira.
    Aðalfundur SSS hvetur MOA og hagsmunaaðila í ferðaþjónustu að sameina krafta sína í að kynna Suðurnesin með markvissum hætti sem góðan valkost til að heimsækja.

    Samþykkt samhljóða.



Fylgiskjal II.


Staða safna á Suðurnesjum og framtíðarsýn.
Unnið á markaðs- og atvinnumálaskrifstofu Reykjanesbæjar
af Valgerði Guðmundsdóttur menningarfulltrúa og
Johani D. Jónssyni ferðamálafulltrúa Suðurnesja.

(Október 2000.)


Inngangur.


    Þessi úttekt, Staða safna á Suðurnesjum og framtíðarsýn, er unnin samkvæmt samþykkt
aðalfundar SSS sem haldinn var dagana 13. og 14. október 2000 í Gerðahreppi.
    Markaðs- og atvinnumálaskrifstofu Reykjanesbæjar var falið að vinna að tillögugerð um
málið samkvæmt eftirfarandi samþykkt SSS.:
    „Ályktun um Safna- og ferðamál.
    Aðalfundur SSS haldinn í Garði 13. og 14. okt. 2000 samþykkir að óska eftir við MOA
að vinna að tillögugerð um hvernig hægt væri að auka samstarf og sérhæfingu safna hér á Suðurnesjum til að auka menningartengda ferðaþjónustu.
    Til Suðurnesja koma flestir ferðamenn í upphafi og í lok ferða til landsins. Ferðaþjónusta er ung atvinnugrein á Suðurnesjum sem hefur verið að stóraukast á liðnum árum. Suðurnesin hafa upp á margt að bjóða til dægrastyttingar fyrir gesti sem hingað koma, s.s. margar tegundir safna, hvalaskoðun, fuglalíf, stórbrotna náttúru, Bláa lónið og margt fleira.
    Aðalfundur SSS hvetur MOA og hagsmunaaðila í ferðaþjónustu að sameina krafta sína í að kynna Suðurnesin með markvissum hætti sem góðan valkost til að heimsækja.“
    Skýrslan er unnin af Valgerði Guðmundsdóttur menningarfulltrúa og Johani D. Jónssyni ferðamálafulltrúa Suðurnesja.
    Skýrslunni er ætlað að gera í stuttu máli grein fyrir stöðu safnamála á Suðurnesjum, rekstri safnanna og stöðu, eins og þau eru rekin í dag. Þá verður reynt að rýna í framtíðina og gera sér grein fyrir því hvernig æskilegt væri að söfnin þróuðu starfsemi sína, samstarf, sérhæfingu og fleira sem því við kemur til næstu ára.
    Á Suðurnesjum eru nú starfrækt átta söfn sem tengjast byggðarsögu og náttúru. Náttúrufræðisöfnin eru tvö og er nokkur sérhæfing milli þeirra þó svo að nokkuð í starfsemi þeirra sé mjög líkt. Annað þeirra er í einkarekstri sem er Sædýrasafnið í Höfnum og hitt er Fræðasetrið í Sandgerði sem er rekið af Sandgerðisbæ. Byggðasöfnin eru rekin af sveitarfélögum. Þau má flokka að mestu leyti undir hefðbundin byggðasöfn þótt þar standi Stekkjarkot aðeins á „ská“ og má flokkast sem sértækt safn. Þá er Byggðasafn Gerðahrepps að koma á fót vísi að báta- og vélasafni. Aðstaða byggðasafnanna er alls staðar mjög þröng og tækifæri til sérsýninga mjög takmörkuð. Þá er á engu safnanna starfsmaður sérmenntaður í þeim fræðum er nýtast til uppbyggingar byggðasafna heldur áhugamenn sem drifið hafa söfnunina og söfnin sjálf áfram. Eitt safnanna á Suðurnesjum er þó alsértækt en það er minjasafn SVFÍ í Garði.

Söfn á Suðurnesjum.

Byggðasöfn.
Byggðasafnið í Reykjanesbæ, opnað 1979.
    Safnið er staðsett á nokkrum stöðum. Aðalsafnið er á Vatnsnesvegi 8, gömlu íbúðarhúsi sem gefið var sérstaklega til þessara nota. Um er að ræða þriggja hæða hús að grunnfleti 60 m 2. Þar kennir ýmissa grasa og sérstaklega má nefna mikið ljósmyndasafn frá því um 1920. Í Innri Njarðvík er einnig gamalt hús, 53 m 2 að grunnfleti með hlöðnum geymslukjallara og risi. Er það að mestu óbreytt eins og síðustu íbúar hússins skildu við það. Einnig má telja Stekkjarkot til byggðasafnsins, gömul þurrabúð á Fitjunum. Geymsluhúsnæði safnsins er í leiguhúsnæði, 340 m 2 í Röstinni.
    Einn starfsmaður er í fullu starfi við safnið, safnvörðurinn sjálfur. Að auki er annar í 19% starfi við vörslu á sunnudögum. Auglýstur opnunartími er á sunnudögum frá 13.30 til 17.00 en annars eftir samkomulagi. Söfnunarstefna safnsins hefur verið sú að safna öllu er við kemur sögu sveitarfélagsins. Ekki hefur verið lögð áhersla á neinn einn flokk umfram annan en þó má benda á mikið ljósmyndasafn sem séreinkenni og einnig ýmsa muni tengda verslun. Heildarupphæð sveitarfélagsins til safnsins var 7.280.000 fyrir árið 2000. Að auki fékkst styrkur frá Þjóðminjasafninu sem var u.þ.b. 600.000.

Byggðasafn Gerðahrepps, opnað 1995.
    Safnið er til húsa í útihúsum við Garðskagavita. Húsið er 113 m 2 að stærð og að hluta til á tveimur hæðum. Safnið tekur við og varðveitir alla þá hluti sem tilheyra gömlum búskaparháttum til sjós og lands. Safnið á gott vélasafn. Einn starfsmaður er á launum frá 1. maí til 30. ágúst frá 13.00 til 17.00. Á öðrum tímum eftir samkomulagi. Safnið fær styrk frá Gerðahreppi upp á eina og hálfa milljón á ári. Rétt við safnið er gamli Garðskagavitinn sem er orðinn meira en 100 ára.

Náttúrufræðisöfn.
Fræðasetrið í Sandgerði var stofnað 1995.
    Verkefni safnsins er að sýna þann hluta náttúru landsins sem umlykur Sandgerði ásamt því að vera í mjög nánu samstarfi við botndýrarannsóknarstöð BIO Ice sem er á neðri hæð hússins. Safnið sýnir botndýr í kerum og sýningarskápum sem og fugla. Hópar geta pantað ferð í náttúruskoðun í fjöru eða tjarnir, sýnum er safnað og þau greind í víðsjám í Fræðasetrinu. Safnið er rekið af Sandgerðisbæ og eru þar tvö starfsgildi. Framlag bæjarfélagsins til safnsins er að frádregnum tekjum um 4,6 milljónir króna í ár. Fjöldi gesta í ár er áætlaður yfir 7000. Safnið er opið alla daga vikunnar frá 09.00 til 17.00, um helgar frá 13.00 til 17.00.

Sædýrasafnið í Höfnum, opnað 1994.
    Safnið sýnir fjöldann allan af fisk- og krabbadýrum sem lifa í sjónum í kringum land í þar til gerðum kerum. Þar er einnig fuglabjarg með flestum þeim tegundum fugla sem búa í fuglabjörgunum á Reykjanesi. Eins og í fræðasetrinu í Sandgerði er tekið á móti fjölda skólahópa sem vinna ákveðin umhverfisverkefni.
    Safnið er í einkaeign og hefur verið rekið frá 1994. Um 20 þúsund gestir komu í safnið fyrsta árið sem það var rekið. Í safninu er nú um eitt starfsgildi.

Sértæk söfn.
Minjasafn Slysavarnafélags Íslands í Garði, opnað 1998.
    Eina sérsafnið sem er opið á Suðurnesjum en það er helgað björgunarsögu SVFÍ. Safnið fræðir um flesta þætti starfsemi SVFÍ og sögu slysavarna og björgunarstarfs á Íslandi. Á safninu er hálft starfsgildi. Safnið er opið alla daga yfir sumarið 13.00 til 17.00 og á sama tíma um helgar yfir vetrarmánuðina.

Poppminjasafnið.
    Poppminjasafnið var opnað 1998. Safnið hefur verið til húsa á veitingahúsinu Glóðinni í Keflavík. Safnað hefur verið saman ýmsum munum sem tengjast upphafi bítlatímabilsins á Suðurnesjum sem er svo lýst í texta og myndum. Framtíðarhúsnæði er óráðið.

Íþróttaminjasafn.
    Íþróttaminjasöfn þar sem íþróttaminjar eru til sýnis fyrir almenning. Vísir af íþróttaminjasafni hefur verið til sýnis í Sundmiðstöðinni í Keflavík. Nokkurt safn muna, mynda og fréttaskota úr íþróttasögu bæjarfélaganna er varðveitt. Íþróttamiðstöðin í Garði heldur sýningu á verðlaunagripum Garðbúa sem líta má á sem vísi að íþróttaminjasafni.

Gjáin í Eldborg.
    Gjáin – vísindasetur var opnað 1999. Mikið fræðslusetur um jarðfræði Reykjaness og Íslands sem rétt er að telja til sértækra safna. Gjáin er í eign Hitaveitu Suðurnesja og tengjast tveir starfsmenn Eldborgar Gjánni.

Framtíðarsýn.

    Eðlilegast er þegar verið er að fjalla um framtíðarsýn í safnamálum á Suðurnesjum að horfa á heildarmyndina í einu samhengi. Hvaða söfn verða á svæðinu? Hvar verða þau staðsett? Hvar nýtast þau best með tilliti til t.d. fjölda íbúa, fjölda ferðamanna, umverfisþátta eins og tengingar við náttúru og starfsemi safns við atvinnulíf og fleira? Gæta þarf að sérhæfingu og aðgreiningu safna svæðisins. Tryggja þarf samstöðu bæjarfélaga um safnastefnu fyrir Suðurnes. Ljóst er að vel uppbyggð söfn auka úrval fjölbreytni afþreyingar á Suðurnesjum.

Byggðasöfn.
    Nauðsynlegt er að koma á sameiginlegri yfirstjórn safnanna. Ráðinn yrði menntaður svæðisminjavörður sem hefði yfirstjórn yfir öllum minjasöfnunum. Þannig væri auðveldara að koma á sérhæfingu hvers safns fyrir sig og samvinnu milli þeirra eða jafnvel sameiningu. Safnið í Gerðahreppi gæti þá einbeitt sér að t.d. sjóminjum og vélum á meðan Keflavíkurdeildin væri með byggða- og verslunarsöguna og eitthvað fleira o.s.frv.

Náttúrufræðasöfn.
    Margir möguleikar eru til að þróa náttúrufræðasöfn sérstaklega með tilliti til tækniþróunar í upplýsingamiðlun og rannsóknum. Það sem hér verður tekið til umræðu er frekar stefna og verksvið safnanna. En hvað er rétt, ef eitthvað er RÉTT, í uppbyggingu, rekstri og fjölda náttúrufræðatengdra safna og stofnana á Suðurnesjum?
    Nú þegar líður að opnun Náttúrustofu Reykjaness er verðugt að reyna að gera sér grein fyrir verkefnum hennar í tengslum við þau tvö/þrjú söfn tengd náttúrufræði sem eru á svæðinu. Verður náttúrustofan rekin ein og sér eða sjáum við fram á virk tengsl milli nefndrar stofnunar og safna á svæðinu? Eðlilegast væri að svo yrði. Með því móti fengist gegnheil safnastefna á þessu sviði á Suðurnesjum. Væri t.d. hugsanlegt að sameina Sædýrasafnið og Fræðasetrið í Sandgerði? Stofna náttúrusafn með áherslu á fuglalíf og jarðfræði í Höfnum? Með þessu móti væri sjávarlífinu komið fyrir á einum stað og komið á fót náttúrufræðasafni í Höfnum. Þessi röðun mundi hafa afgerandi áhrif á aðsókn og þar með möguleika í rekstri safnanna til uppbyggingar sérsviða þeirra.

Sértæk söfn.
Minjasafn Slysavarnafélags Íslands.
    Minjasafn SVFÍ í Garðinum er gott dæmi um sértæk söfn. Þar er byggt á ákveðinni sögu er tengist sérstöku starfssviði og ákveðnu félagi. Nokkur slík söfn gætu verið á Suðurnesjum. Staðsetning þeirra ætti að vera á þeim stöðum þar sem lítil áhrif frá öðrum söfnum eru og hafa því lítil áhrif á uppbyggingu þeirra og aðsókn.

Saltfisksafn.
    Hugmyndir eru uppi um stofnun Saltfisksafns í Grindavík. Hér eins og með minjasafn SVFÍ er um mjög sértækt safn að ræða sem þarf samt sína ákveðnu staðsetningu vegna tengsla við atvinnulífið. Verður að álíta að vegna hefðar við saltfiskvinnslu í Grindavík sé því þar vel fyrir komið og framtíð örugg vegna náinna tengsla við lifandi verkun eins og áætlanir eru til um.

Herminjasafn.
    Eitt af séreinkennum svæðisins er að hér hefur verið herstöð í yfir 50 ár. Hægt væri að koma upp sérstöku herminjasafni í Rockville þar sem allar byggingar eru nú þegar til staðar. Þetta safn yrði ekki eingöngu safn herminja heldur yrði það um leið stjórnmálasögusafn því fá mál hafa vakið heitari umræður á stjórnmálasviðinu á þessari öld en hersetan.

Poppminjasafn.
    Poppminjasafn er tvímælalaust hluti af menningu Suðurnesja. Heimili þess getur tæplega annar staðar verið en í Keflavík eða Njarðvík. Finna þarf framtíðarlausn á húsnæðisvanda safnsins. Skoða þarf tengingu við Byggðasafn Suðurnesja – poppdeild þar sem sams konar efni af Suðurnesjum verði komið fyrir.

Íþróttaminjasöfn.
    Eðlilegt er að þau þróist í tengslum við íþróttafélög hvers bæjarfélags og verði búin aðstaða þar sem almenningur á greiðan aðgang að þeim annaðhvort í íþrótta- eða sundmiðstöðvum.

Gjáin í Eldborg.
    Gjáin í Eldborg er eins konar fræðslusetur byggt á ákveðnum forsendum jarðfræði og vísinda og stendur eitt og út af fyrir sig. Framtíð þess byggist að öllum líkindum á framkvæmdum og þróunarverkefnum HS í tengslum við jarðhitanýtingu í framtíðinni.

Aðrar safnminjar.
    Þegar rætt er um safnminjar erum við að ræða um staði eins og Selatanga, Básenda og lík fyrirbrigði. Sögulegar fornminjar eru víða á Suðurnesjum og flestar illa varðveittar. Dugir hér að minnast á landnámsbæi eins og Hólminn, Í Vogi (nú Gamli Kirkjuvogur) og fleiri staði. Hér er sóknarfæri í að gera svæðið að sögulegri einingu. Hér þarf að gera átak í að „lífga við“ þessa fornfrægu staði og tengja söguna saman, heimamönnum og ferðafólki til ánægju. Mikil vinna við skráningu og merkingu þessara staða er fram undan.

Tenging við ferðaþjónustu.
    Þannig er málum nú einu sinni fyrir komið að ímynd svæðis tekur oft mið af auglýsingum og áróðri sem svæði hafa í frammi á ferðaþjónustusviðinu. Ef fólk fær ánægju af að ferðast um ákveðin svæði þar sem það fær fræðslu, góða upplifun og hefur ánægjulegar endurminningar þá gefur það viðkomandi svæðum yfirleitt góðar ímyndunareinkunnir. Reykjanes er þar engin undantekning. Fastlega má gera ráð fyrir því að ferðaþjónusta á svæðinu muni eflast verulega með tilkomu sameiningar krafta þekkingar- og vísindamanna á sviði safna og menningar við ferðaþjónustuaðila. Hægt væri að tengja söfnin og þær minjar sem tilheyra sögunni, t.d. vitana, í einhvers konar hring þar sem fólk væri leitt af einum stað á annan eftir einhvers konar ferðalykli og fengi þá um leið heildarmynd af sögu lands og þjóðar. Inn í þennan hring kæmu ný söfn, s.s. saltfisksafn í Grindavík og herminjasafn í Rockville.

Markaðssetning.
    Fjármunir til markaðssetningar safna virðast alltaf vera af skornum skammti.
    Nauðsynlegt er að sem mest samvinna náist á milli safna í kynningar- og útgáfumálum.
    Ná þarf þeim árangri að skapa heildstæða mynd af safna- og söguskoðun á svæðinu sem og auðveldar aðgengi almennings að söfnum og sögustöðum.
    Aukin fræðsla um uppruna og arfleifð er þáttur sem nýtist vel í sameiginlegri markaðssetningu svæðisins, þáttur sem styrkir ákveðna ímyndaruppbyggingu og eflir sjálfsímynd íbúanna.