Ferill 341. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 629 —  341. mál.
Svarmenntamálaráðherra við fyrirspurn Péturs H. Blöndals um rekstrarform í menntakerfinu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu stór hluti grunnskóla-, framhaldsskóla-, háskóla- og fullorðinsfræðslu hér á landi er ekki í höndum opinberra aðila? Svar óskast sundurgreint miðað við mannafla.

    Upplýsingum um starfsfólk í grunn-, framhalds- og háskólum er safnað af Hagstofu Íslands. Fyrirliggjandi eru upplýsingar um starfsfólk í grunnskólum skólaárið 1999–2000 en á framhalds- og háskólastigi skólaárið 1998–1999. Gera má ráð fyrir að hlutfallið sé svipað nú og það var umrædd skólaár, nema hvað varðar háskólastigið, þar sem Listaháskóli Íslands tók til starfa haustið 1999 með myndlistardeild og telst hann einkaskóli með ríkisstyrk.

Hlutfall starfsfólks árið 1999 í skólum á grunn-, framhalds- og háskólastigi
sem ekki eru reknir af opinberum aðilum.

Fjöldi starfsm. í einkask. Stöðu- gildi Starfsmenn alls Stöðugildi
alls
Hlutfall starfsmanna í einkask., % Hlutfall stöðugilda í einkask., %
Grunnskólar
Starfsfólk við kennslu
Annað starfsfólk
70
20
53
9
4.196
2.249
3.703
1.683
1,7
0,9
1,4
0,6
Framhaldsskólar
Starfsfólk við kennslu
Annað starfsfólk
76
22
62
18
1.516
521
1.297
395
5,0
4,2
4,7
4,5
Háskólar
Starfsfólk við kennslu
Annað starfsfólk
24
23
17
20
1.431
591
799
497
1,7
3,9
2,1
4,0
Skýringar: Tölur um starfsfólk grunnskóla miðast við október 1999 en febrúar 1999 hvað snertir starfsfólk framhalds- og háskóla. Einkareknir grunnskólar teljast Landakotsskóli, Skóli Ísaks Jónssonar, Suðurhlíðarskóli, Tjarnarskóli, Waldorfskólinn Sólstafir og Waldorfskólinn í Lækjarbotnum. Til framhaldsskóla teljast hússtjórnarskólarnir í Reykjavík og á Hallormsstað og Verzlunarskóli Íslands. Til háskóla teljast Háskólinn í Reykjavík og Viðskiptaháskólinn Bifröst.

    Ekki er mögulegt að veita sams konar upplýsingar um starfsfólk í fullorðinsfræðslu og um grunn-, framhalds- og háskólastig þar sem upplýsingum um starfsfólk á þessu sviði er ekki safnað á kerfisbundinn hátt. Ljóst er hins vegar að töluverður fjöldi fólks sinnir kennslu og/eða störfum sem tengjast fullorðinsfræðslu, en í flestum tilvikum er um mjög lágt starfshlutfall kennara að ræða. Ef litið er til þeirra átta símenntunarmiðstöðva sem eru starfandi þá eru 1–2 fastir starfsmenn á hverri þeirra. Lauslega áætlað má gera ráð fyrir að rúmlega 200 manns hafi sinnt kennslu á vegum símenntunarmiðstöðvanna á þessu ári. Nokkur sveitarfélög reka námsflokka/kvöldskóla þar sem fullorðinsfræðslu er sinnt. Ekki eru fyrirliggjandi nákvæmar upplýsingar um starfsfólk við kennslu á þeirra vegum, en sem dæmi má nefna að hjá Námsflokkum Reykjavíkur komu rúmlega 160 manns að kennslu á árinu og hjá Kvöldskóla Kópavogs 30 manns. Háskólastofnanir starfrækja endurmenntunar- eða símenntunarstofnanir sem má segja að flokkist til fullorðinsfræðslu. Við lauslega könnun á fjölda kennara hjá KHÍ og HÍ á þessum vettvangi kom í ljós að rúmlega 300 kennarar komu að kennslunni. Fastir starfsmenn hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands voru 16 árið 2000.
    Rekstur sex grunnskóla var ekki í höndum opinberra aðila skólaárið 1999–2000. Flestir þeirra nutu stuðnings frá viðkomandi sveitarfélögum á einn eða annan hátt. Alls voru starfandi 192 grunnskólar á landinu sl. skólaár. Hlutfall grunnskóla þar sem rekstur var ekki í höndum opinberra aðila var 3,1% skólaárið 1999–2000.
    Rekstur þriggja framhaldsskóla var ekki í höndum opinberra aðila skólaárið 1998–1999, en þeir nutu allir ríkisstyrks. Á framhaldsskólastigi voru 37 skólar það skólaár. Ekki eru taldir með skólar sem voru að hluta til á háskólastigi. Hlutfall framhaldsskóla þar sem rekstur var ekki í höndum opinberra aðila var 8,1% skólaárið 1998–1999.
    Rekstur tveggja háskóla var ekki í höndum opinberra aðila skólaárið 1998–1999, en þeir nutu ríkisstyrks. Á háskólastigi voru tíu skólar það skólaár. Hlutfall háskóla þar sem rekstur var ekki í höndum opinberra aðila var 20% skólaárið 1998–1999.
    Fullorðinsfræðsla er í höndum fjölmargra aðila hér á landi, í sumum tilfellum standa sveitarfélög að rekstri fullorðinsfræðslu eins og fyrr segir. Einnig má benda á fullorðinsfræðslu á vegum stéttarfélaga og annarra félagasamtaka. Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um rekstur fullorðinsfræðslu til að veita svar við því hve stórt hlutfall hennar er ekki í höndum opinberra aðila. En bent skal á að símenntunarmiðstöðvarnar átta njóta allar ríkisstyrks.