Ferill 403. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 715  —  403. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um íslenska búninga.

     1.      Hefur samgönguráðuneytið eða nefnd á þess vegum ályktað um íslenska búninga og gildi þeirra í ferðaþjónustu?
     2.      Ef svo er, hver er afrakstur þeirrar vinnu?


    Ekki hefur verið ályktað sérstaklega um íslenska búninga og gildi þeirra í ferðaþjónustu.
    Í byrjun árs 2000 skipaði samgönguráðherra nefnd til að fjalla um menningartengda ferðaþjónustu og gera tillögur um aðgerðir sem styrkt gætu þennan vaxandi þátt greinarinnar.
    Formaður nefndarinnar er Tómas Ingi Olrich alþingismaður.
    Nefndin hefur ekki lokið störfum en íslenski þjóðbúningurinn er meðal fjölmargra mála sem hún hefur fjallað um enda hefur áhugi almennings á að fræðast um og eignast þjóðbúninga aukist mjög verulega að undanförnu.
    Þessi áhugi kemur m.a fram í því að eftirspurn eftir námskeiðum í þjóðbúningasaumi hjá Heimilisiðnaðarskólanum hefur margfaldast. Því hefur verið áhugi á því að starfsfólk á helstu viðkomustöðum ferðamanna noti búningana meira en nú er.
    Á fund nefndarinnar hafa eftirtaldir sérfræðingar um þjóðbúninga komið og veitt upplýsingar um stöðu þeirra og nýtingarmöguleika:
    Elsa E.Guðjónsson, textíl- og búningafræðingur.
    Ásdís Birgisdóttir, textílhönnuður og ritari Heimilisiðnaðarfélags Íslands.
    Oddný Kristjánsdóttir, klæðskeri og kennari í þjóðbúningasaumi við Heimilisiðnaðarskólann.
    Sigrún Helgadóttir, líffræðingur og kennari, en hún er í skólanefnd Heimilisiðnaðarskólans.
    Þegar nefnd um menningartengda ferðaþjónustu hefur skilað tillögum sínum til samgönguráðherra munu þær kynntar á Alþingi enda margir sem koma að framkvæmd svo viðamikils verkefnis.