Ferill 496. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 875  —  496. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Drífu Hjartardóttur um nýgengi krabbameins.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver hefur verið þróun nýgengis krabbameins hér á landi sl. tíu ár, greint eftir árum, fjölda tilvika, tegundum, kynjum og skipt eftir landshlutum?

    Skipuleg skráning krabbameina á vegum Krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands hófst árið 1954 þannig að hægt er að skoða breytingar á tíðni krabbameina í meira en fjóra áratugi. Á þessu tímabili hefur tíðni krabbameina í heild aukist um 1,2% á ári, að teknu tilliti til fjölgunar íbúa og breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar. Miklar breytingar hafa orðið á tíðni einstakra meina. Tíðni krabbameins í blöðruhálskirtli hefur nær fimmfaldast og er þetta mein fyrir nokkru orðið algengasta krabbamein karla. Þessa fjóra áratugi hefur brjóstakrabbamein verið algengasta krabbamein kvenna, en það er nú tvöfalt algengara en við upphaf skráningarinnar. Tíðni lungnakrabbameins hjá körlum hefur nær þrefaldast og meira en fjórfaldast hjá konum, en heldur er farið að draga úr aukningunni. Tíðni magakrabbameins er nú aðeins þriðjungur af því sem áður var og er það meðal annars þakkað breyttum neysluvenjum. Þá er tíðni leghálskrabbameins aðeins þriðjungur af því sem var um skeið, en það skýrist af leit að sjúkdómnum á forstigi.
    Um 1.040 krabbamein eru greind hér á landi á ári, 530 hjá körlum og 510 hjá konum, samkvæmt tölum frá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, en þær miðast við meðaltal áranna 1995–99. Alls greinast 147 karlar með krabbamein í blöðruhálskirtli, 57 með lungnakrabbamein, 48 með ristilkrabbamein, 35 með krabbamein í þvagblöðru og 28 með magakrabbamein, svo að fimm algengustu meinin séu talin. Meðal kvenna var brjóstakrabbamein langalgengast. Ár hvert greinast 135 slík mein, 49 lungnakrabbamein hjá konum, 37 ristilkrabbamein, 27 eggjastokkakrabbamein og 24 krabbamein í legbol.
    Spáð hefur verið að eftir áratug muni greinast 1.300–1.400 ný tilfelli af krabbameini hér á landi á hverju ári.
    Að teknu tilliti til aldurssamsetningar þjóðarinnar eftir landshlutum er nýgengi krabbameins hærra í Reykjavík og á Reykjanesi en annars staðar á landinu. Er það í samræmi við stöðu mála í nálægum löndum.
    Samkvæmt útreikningum frá Krabbameinsskránni getur þriðji hver Íslendingur búist við að fá krabbamein einhvern tímann fyrir 85 ára aldur. Þessir útreikningar sýna að tíunda hver kona fær brjóstakrabbamein og áttundi hver karl fær blöðruhálskirtilskrabbamein áður en þessum aldri er náð.
    Fólk getur fengið krabbamein á öllum aldri þó að líkurnar aukist eftir því sem aldurinn hækkar. Af þeim Íslendingum sem greindust með krabbamein á árunum 1995–99 voru innan við 2% undir tvítugu, 6% á aldrinum frá tvítugu til fertugs, 22% frá fertugu til sextugs, 54% á aldrinum frá sextugu til áttræðs og 16% voru áttræðir eða eldri. Fleiri konur en karlar fá krabbamein á aldrinum frá tvítugu til sjötugs en eftir það eru karlarnir fleiri.
    Úr gögnum Krabbameinsskrárinnar má sjá að meðalaldur karla við greiningu krabbameins er rúm 67 ár en meðalaldur kvenna rúm 62 ár.
    Um 17% karla sem greindust með krabbamein á árunum 1956–60 lifðu í fimm ár eða lengur en nú geta um 44% vænst þess að lifa svo lengi (miðað við 1991–95). Að teknu tilliti til annarra dánarorsaka eru fimm ára lífshorfur karla með krabbamein um 55% af lífshorfum jafnaldra.
    Um 27% kvenna sem greindust með krabbamein á árunum 1956–60 lifðu í fimm ár eða lengur en nú geta um 51% vænst þess að lifa svo lengi (miðað við 1991–95). Að teknu tilliti til annarra dánarorsaka eru fimm ára lífshorfur kvenna með krabbamein um 59% af lífshorfum jafnaldra.
    Hjá körlum eru horfurnar bestar varðandi krabbamein í eistum, skjaldkirtli, þvagblöðru, blöðruhálskirtli og húð. Hjá konum eru horfurnar bestar varðandi krabbamein í skjaldkirtli, brjóstum, barkakýli, legháls og legbol.
    Fyrir þrjátíu árum voru 1.600 krabbameinssjúklingar á lífi, nú eru á lífi um 7.200 einstaklingar sem fengið hafa krabbamein, um 3.000 karlar og 4.200 konur. Fjölmennustu hóparnir eru 1.400 konur með brjóstakrabbamein, 870 karlar með blöðruhálskirtilskrabbamein, 450 karlar og konur með ristilkrabbamein og 380 karlar og konur með þvagblöðrukrabbamein.
    Í meðfylgjandi töflu, sem birtist í tímaritinu Heilbrigðismál, 2. tbl. 1998, má sjá tölulegt yfirlit yfir nýgengi krabbameins eftir kjördæmum hjá báðum kynjum. Einnig birtist góð yfirlitsgrein um sama efni í blaðinu.


Fylgiskjal I.


Heilbrigðismál, 2. tbl. 1998:



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Heilbrigðismál, 2. tbl. 1998:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.