Ferill 488. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 902  —  488. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um póststöðvar Íslandspósts.

     1.      Hversu mörgum póststöðvum Íslandspósts er fyrirhugað að loka, hvar eru þær starfræktar og hverjir munu taka við starfseminni í hverju tilviki?
    Sem stendur eru engin áform um að loka póstafgreiðslum Íslandspósts. Starfsemi allra póstafgreiðslna er að staðaldri í gagngerri endurskoðun vegna síbreytilegs rekstrarumhverfis. Fækkun verkefna hefur leitt til þess að póstafgreiðslunetið er mjög óhagkvæmt og dýrt í rekstri. Leitað verður því áfram hagkvæmustu leiða í rekstri þess.

     2.      Hversu mörgum póststöðvum hefur verið lokað nú þegar, hvar voru þær starfræktar og hverjir tóku við starfseminni, sundurliðað eftir kjördæmum?
    Þremur póststöðvum hefur verið lokað síðan Íslandspóstur hf. var stofnað. Þetta eru pósthúsin R-3 í Kringlunni, R-4 á Kleppsvegi og pósthúsið á Fagurhólsmýri. Við þessar breytingar fluttust allir starfsmenn til í störfum, nema einn fór á starfslokasamning á R-4 og starfsmaður á Fagurhólsmýri hætti að eigin ósk. Breyting á rekstrarformi hefur orðið á 16 stöðum á landinu. Þessir staðir eru, raðað í tímaröð:

Staður Samstarfsaðili Samstarf hófst
Hrísey Sparisjóður Svarfdæla 1. júlí 1998 Norðurland eystra
Laugar Sparisjóður Suður-Þingeyinga 1. júlí 1998 Norðurland eystra
Reykjahlíð Sparisjóður Suður-Þingeyinga 1. júlí 1998 Norðurland eystra
Staður Staðarskáli 1. janúar 1999 Norðurland vestra
Grenivík Sparisjóður Höfðhverfinga 1. janúar 2000 Norðurland eystra
Flateyri Sparisjóður Önundarfjarðar 15. apríl 1999 Vestfirðir
Grímsey Flugmálastjórn og Brynjólfur Árnason 15. október 1999 Norðurland eystra
Sandgerði Landsbankinn 1. desember 1999 Reykjanes
Flúðir Búnaðarbankinn 29. maí 2000 Suðurland
Laugarvatn Búnaðarbankinn 2. júní 2000 Suðurland
Vík í Mýrdal BVT ehf. 1. september 2000 Suðurland
Ólafsfjörður Sparisjóður Ólafsfjarðar 1. nóvember 2000 Norðurland eystra
Reyðarfjörður Sparisjóður Norðfjarðar 1. desember 2000 Austurland
Djúpivogur Sparisjóður Hornafjarðar og nágrennis 4. desember 2000 Austurland
Varmahlíð Kaupfélag Skagfirðinga 1. mars 2001 Norðurland vestra
Hofsós Kaupfélag Skagfirðinga 1. mars 2001 Norðurland vestra

    Undirritaður hefur verið samningur við Búnaðarbankann um sameiginlegan rekstur á Skagaströnd frá og með 1. apríl nk.

Prentað upp.
     3.      Hversu mörg störf hafa verið lögð niður nú þegar og hversu mörg störf er áætlað að leggist af þegar starfsemi póststöðva er hætt, sundurliðað eftir kjördæmum?

Fjöldi starfsmanna Fjöldi ársverka
Starfslok v/aldurs
3 3,00
Færast yfir til samstarfsaðila
18 13,58
Hætta að eigin ósk
6 4,75
Áfram hjá Íslandspósti
9 7,09
Fastráðnir sem missa starf og samið um starfslok
8 6,15
Lausráðnir sem missa starf
5 3,00

    Í nokkrum tilfellum var starfsmönnum Íslandspósts hf. boðið starf hjá samstarfsaðila en það ekki þegið. Starfsmenn hafa í flestum tilfellum tekið að sér starfsþjálfun, allt upp í mánuð, hjá samstarfsaðila ef ekki hafa flust starfsmenn á milli til frambúðar. Engar áætlanir eru til um hversu mörg störf leggist af í framtíðinni.
    Hrísey. Tveir starfsmenn voru hér í einu og hálfu ársverki. Starfsmaðurinn í fullu starfi hætti vegna aldurs og var samið um starfslok en hinn fór yfir til samstarfsaðila.
     Laugar. Tveir starfsmenn voru hér í einu og hálfu ársverki. Starfsmaðurinn í fullu starfi hætti að eigin ósk en hinn fór til samstarfsaðila.
     Reykjahlíð. Tveir starfsmenn voru hér í tveimur ársverkum. Annar starfsmaðurinn fór yfir til samstarfsaðila og hinn gerðist landpóstur hjá Íslandspósti hf.
    Staður. Tveir starfsmenn voru hér í einu og hálfu ársverki. Starfsmaðurinn í fullu starfi fór yfir til samstarfsaðila en við hinn var samið um starfslok. Sá sem samið var við um starfslok tók svo við af hinum þegar hann flutti af staðnum í lok síðasta árs rúmlega ári eftir að samstarf hófst.
    Grenivík. Tveir starfsmenn voru hér í einu og hálfu ársverki. Starfsmaðurinn í fullu starfi fór yfir til samstarfsaðila en lausráðni starfsmaðurinn missti starf sitt.
     Sandgerði. Í ársbyrjun 1999 voru fjórir starfsmenn í 2,84 ársverkum. Einn starfsmaður í fullu starfi fór yfir til samstarfsaðila og annar í 50% starfi hætti að eigin ósk vegna aldurs og veikinda. Tveir bréfberar í 67% störfum hvor eru áfram starfsmenn Íslandspósts.
     Flateyri. Þrír starfsmenn voru hér í 1,83 ársverkum. Allir þrír fluttust yfir til samstarfsaðila.
     Grímsey. Tveir starfsmenn voru hér í einu og hálfu ársverki. Báðir hættu að eigin ósk.
     Laugarvatn. Tveir starfsmenn voru hér í einu og hálfu ársverki. Starfsmaðurinn í fullu starfi fór á starfslokasamning vegna aldurs en hinn missti starf sitt og fór á starfslokasamning.
     Flúðir. Þrír starfsmenn voru hér í 1,9 ársverkum. Tveir starfsmenn misstu starf sitt í 1,15 ársverkum, annar fór á starfslokasamning en hinn var lausráðinn. Bréfberi í 75% starfi er áfram starfsmaður Íslandspósts.
     Vík í Mýrdal. Fjórir starfsmenn voru hér í 3,17 ársverkum. Einn starfsmaður í fullu starfi fór á starfslokasamning og missti vinnuna. Tveir starfsmenn í 1,75 ársverkum fóru yfir til samstarfsaðila. Bréfberi í hlutastarfi hætti störfum.
     Reyðarfjörður. Fimm starfsmenn voru hér í 4,75 ársverkum. Einn starfsmaður í fullu starfi fór á starfslokasamning og missti vinnuna, honum var þó boðið annað starf sem hann hafnaði. Annar starfsmaður í fullu starfi fór yfir til samstarfsaðila. Þriðji starfsmaðurinn í fullu starfi starfar núna hjá Íslandspósti í Reykjavík. Bréfberi í hlutastarfi er ennþá í starfi hjá Íslandspósti ásamt flutningsaðila í Fjarðarbyggð sem er í fullu starfi hjá Íslandspósti.
    Ólafsfjörður. Í ársbyrjun 2000 voru hér í starfi fimm starfsmenn í 3 ársverkum. Einn starfsmaður í fullu starfi hætti að eigin ósk. Tveir starfsmenn í 50% ársverkum hvor fóru yfir til samstarfsaðila. Tveir bréfberar sem voru í 50% ársverkum eru áfram starfsmenn Íslandspósts, en nú í 70% ársverkum hvor.
     Djúpivogur. Fjórir starfsmenn voru hér í 3 ársverkum. Allir fluttust yfir til samstarfsaðila.
     Varmahlíð. Tveir starfsmenn voru hér í einu og hálfu ársverki. Starfsmaðurinn í fullu starfi fer á starfslokasamning og missir vinnuna. Starfsmaðurinn í 50% starfi var lausráðinn og ekki var framlengd ráðning hans.
    Hofsós. Þrír starfsmenn voru hér í starfi í tveimur ársverkum. Einn starfsmaður í fullu starfi fer á starfslokasamning og missir vinnuna. Annar starfsmaður í 50% starfi var lausráðinn og ekki var framlengd við hann ráðning. Bréfberi í 50% starfi fer á starfslokasamning frá 1. október nk. og missir vinnuna.
     Skagaströnd (samstarf hefst 1. apríl nk.). Fjórir starfsmenn eru hér í 3,25 ársverkum. Einn starfsmaður í fullu starfi fer á starfslokasamning vegna aldurs. Annar starfsmaður í fullu starfi flyst til Reykjavíkur í starf hjá Íslandspósti. Starfsmaður í 50% starfi er lausráðinn og ekki verður framlengd við hann ráðning.

     4.      Í hve mörgum tilvikum hafa konur gegnt þeim störfum sem hafa verið eða munu verða lögð niður, sundurliðað eftir kjördæmum?
    Á pósthúsum Íslandspósts eru tæplega 90% starfsmanna konur. Allir þeir starfsmenn sem fjallað er um hér að ofan eru konur, nema flutningsaðili í Fjarðarbyggð.