Ferill 517. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 906  —  517. mál.



Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um greiðslur vegna tjóna á útihúsum af völdum jarðskjálfta.


     1.      Í hve mörgum tilvikum var um að ræða bótaskylt tjón á útihúsum í jarðskjálftunum á Suðurlandi 17. og 21. júní 2000? Í hve mörgum tilvikum var um að ræða altjón á útihús um?
    Samkvæmt upplýsingum frá Viðlagatryggingu Íslands er nú unnið að því að sundurgreina allar eignir sem fyrir tjóni urðu, þar á meðal útihús, í jarðskjálftunum sl. sumar en sú vinna, sem er umsvifamikil, er ekki komin nægjanlega langt á veg til að unnt sé að veita nákvæmar upplýsingar um altjón á útihúsum. Fjölmörg altjón urðu á útihúsum enda mörg þeirra gömul og úr sér gengin. Sum voru ekki lengur í notkun nema þá sem geymsluhúsnæði. Altjón eru ekki sérstaklega auðkennd á matsskýrslum, þar sem í tjónsuppgjörum er skráð heildartjón á húseignum á bújörðum en ekki sundurliðuð tala vegna hverrar húseignar. Því þarf að fara í gegnum matsgögn og í sumum tilfellum að leggja í vinnu við upplýsingaöflun frá viðkomandi matsmönnum. Fyrirhugað er að fara í þá vinnu þegar um hægist í tjónamati. Þegar Viðlagatrygging Íslands lýkur þeirri vinnu og slíkur listi liggur fyrir verður hann sendur viðskiptaráðuneytinu. Listanum verður dreift til þingmanna um leið og hann liggur fyrir.

     2.      Hverjar eru bótafjárhæðir viðlagatryggingar þegar um var að ræða altjón útihúsa, sundurliðað eftir eignum borið saman við brunabótamat, endurstofnverð og áætlaðan endurbyggingarkostnað?
    Eins og fram kom í svari við fyrsta lið fyrirspurnarinnar liggja enn ekki fyrir sundurliðaðar upplýsingar um tjón á útihúsum þar sem í skráningu og tjónsuppgjörum er skráð heildartjón á húseignum á bújörðum en ekki sundurliðuð tala fyrir hverja húseign.
    Samkvæmt upplýsingum frá Viðlagatryggingu Íslands eru tilkynntir tjónastaðir vegna skjálftanna sl. sumar nú orðnir yfir 2.000 og greiddar tjónabætur nema rúmlega 1,8 milljörðum kr.

     3.      Verður mismunur á útgreiddum bótum byggðum á brunabótamati útihúsa og raunveru legum endurbyggingarkostnaði sömu eigna greiddur þeim sem urðu fyrir tjóni?
    
Eins og fram kom í svari við fyrirspurn á þskj. 812, 516. máli, er ráðuneytisstjóranefnd sú sem sett var á fót í kjölfar skjálftanna enn að störfum. Nefndinni hefur verið falið að ræða þessi mál frekar við stjórn Viðlagatryggingar Íslands og liggur ekki fyrir niðurstaða í málinu nú. Að sama skapi er vakin athygli á því að tekin hefur verið ákvörðun um skipun nefndar sem skal hafa það hlutverk að fara yfir þá verkferla sem Viðlagatrygging Íslands beitti í starfi sínu við tjónsuppgjör vegna skjálftanna sl. sumar og helstu ágreiningsefni sem upp komu við úrvinnslu og benda á leiðir til úrbóta. Jafnframt er gert ráð fyrir að nefndinni verði falið að kanna tilhögun viðlagatrygginga í helstu nágrannalöndum og meta það hvort viðlagatryggingar séu eins vel eða betur komnar hjá almennum vátryggingafélögum. Þegar nefnd þessi hefur skilað niðurstöðum verður tekin ákvörðun um hvort tilefni sé til þess að láta semja frumvarp til laga um breytingar á því lagaumhverfi sem gildir um viðlagatryggingar.