Ferill 581. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 907  —  581. mál.
Frumvarp til lagaum frestun á verkfalli fiskimanna.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)1. gr.

    Verkfalli því er samtök fiskimanna hófu gegn félögum og samtökum útvegsmanna, um og undir miðnætti aðfaranótt 16. mars sl., er frestað til kl. 24.00 hinn 19. apríl nk. frá og með gildistöku laga þessara. Sama gildir um verkbann það er félög og samtök útvegsmanna settu á fiskimenn frá og með miðnætti aðfaranótt 16. mars sl.

2. gr.

    Á meðan frestun verkfalls og verkbanns skv. 1. gr. stendur yfir skulu allir síðastgildandi kjarasamningar þeirra aðila sem lög þessi taka til gilda þeirra í milli, nema þeir semji um annað.

3. gr.

    Vinnustöðvanir þær sem lög þessi taka til, svo og verkbönn, verkföll og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða, eru óheimilar.

4. gr.

    Með brot gegn lögum þessum skal fara að hætti opinberra mála og varða þau sektum ef ekki liggja við þyngri refsingar samkvæmt öðrum lögum.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Verkfall það er hófst á fiskiskipaflotanum um miðnætti þann 15. mars sl. mun ef ekkert er að gert hafa í för með sér mikinn skaða fyrir atvinnulíf landsmanna og óbætanlegt tjón fyrir þjóðarbúið í heild. Sérstaklega er það alvarlegt mál að ekki tókst að ljúka veiðum á öllum loðnukvótanum. Þegar verkfallið hófst voru óveidd u.þ.b. 130 þús. tonn af loðnukvóta landsmanna. Má ætla að það samsvari allt að 1,5 milljarði króna í útflutningsverðmætum. Með þeirri frestun verkfalls fiskimanna og tilsvarandi verkbanni útgerðarmanna, sem hér er lögð til, er gerð tilraun til að bjarga þessum verðmætum er ella væru landsmönnum að fullu glötuð.
    Ljóst er að stöðvun almennra veiða og vinnslu á þessum tíma þegar vetrarvertíðin stendur sem hæst hefði alvarlegar afleiðingar fyrir sjómenn, fiskvinnslu og sveitarfélög sem byggja á sjávarútvegi. Má benda á að fram hefur komið að hluti hefðbundinna vertíðarbáta hefur uppistöðu tekna sinna á þessum árstíma. Þá hefur stöðvun veiða á þessum tíma alvarlegar afleiðingar á saltfisksmörkuðum.
    Einungis er lagt til að frestun verkfalls standi í einn mánuð. Ef ekki hefur samist fyrir þann tíma munu bæði verkfall og verkbann hefjast aftur og aðilar kjaradeilunnar því aftur hljóta full forráð yfir kjaramálum sínum.