Ferill 588. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 931  —  588. mál.




Frumvarp til laga



um móttöku flóttamannahópa og aðstoð við þá.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



I. KAFLI

Gildissvið.
1. gr.
Gildissvið og yfirstjórn.

    Lög þessi gilda um móttöku hópa flóttamanna og aðstoð stjórnvalda við þá.
    Félagsmálaráðherra fer með yfirstjórn málefna flóttamannahópa samkvæmt lögum þessum.

2. gr.
Markmið.

    Markmið laganna er að stuðla að móttöku flóttamannahópa með viðhlítandi hætti þegar aðstæður í heimaríki þeirra krefjast þess.

II. KAFLI
Flóttamannaráð Íslands.
3. gr.

Skipun Flóttamannaráðs Íslands.

    Félagsmálaráðherra skipar Flóttamannaráð Íslands til fjögurra ára í senn. Ráðherra skipar formann án tilnefningar en dóms- og kirkjumálaráðuneyti, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti og utanríkisráðuneyti tilnefna hvert sinn fulltrúa í ráðið. Varamenn eru skipaðir með sama hætti. Rauði kross Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga eiga hvort um sig einn áheyrnarfulltrúa í Flóttamannaráði. Félagsmálaráðherra leggur ráðinu til starfsmann.

4. gr.
Hlutverk Flóttamannaráðs Íslands.

    Hlutverk Flóttamannaráðs Íslands er að leggja til við ríkisstjórn heildarstefnu og skipulag er varðar móttöku á flóttamannahópum, hafa yfirumsjón með móttöku flóttamannahópa og veita stjórnvöldum umsögn um einstök tilvik eftir því sem óskað er. Flóttamannaráð skal jafnframt vera stjórnvöldum til ráðgjafar um aðbúnað og þjónustu við erlenda ríkisborgara með lögheimili á Íslandi.
    Flóttamannaráð Íslands skal árlega gera félagsmálaráðherra grein fyrir störfum sínum.

III. KAFLI
Þjónustusamningar og framkvæmd móttöku.
5. gr.
Þjónustusamningur við Rauða kross Íslands.

    Flóttamannaráð Íslands skal gera þjónustusamning við Rauða kross Íslands um undirbúning móttöku og tiltekna aðstoð við flóttamannahópa fyrsta dvalarár þeirra hérlendis.
    Rauði kross Íslands kemur fram sem fulltrúi og talsmaður flóttmannahópa og veitir einstaklingum í hópunum liðveislu.
    Ríkissjóður greiðir kostnað af þjónustusamningi þessum.

6. gr.
Þjónustusamningur við sveitarfélög um móttöku flóttamannahópa.

    Flóttamannaráð Íslands auglýsir eftir sveitarfélögum sem hafa áhuga á að taka á móti flóttamannahópum. Við mat á því hvaða sveitarfélagi skuli falið verkefnið skal tekið mið af aðstæðum öllum, svo sem félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu, atvinnuástandi, skólamálum og framboði á húsnæði.
    Flóttamannaráð Íslands semur við tiltekið sveitarfélag eða sveitarfélög um móttöku á ákveðnum fjölda flóttamanna hverju sinni. Samningar við sveitarfélög skulu taka til þjónustu sem ætla má að einstaklingar úr flóttamannahópum þarfnist, svo sem heilbrigðisþjónustu, húsnæðisöflun, vinnumiðlun, leikskólakennslu, grunnskólakennslu, framhaldsskólakennslu, félagsráðgjöf og fjárhagsaðstoð.
    Sveitarfélag, sbr. 2. mgr., gerir kostnaðaráætlun vegna móttöku flóttamannahóps í samráði við Flóttamannaráð Íslands og skal hún vera hluti samnings þess við ráðið.
    Kostnaður af móttöku flóttamannahópa greiðist úr ríkissjóði.

7. gr.
Starfshópur vegna móttöku flóttamannahópa.

    Flóttamannaráð Íslands felur Rauða krossi Íslands og sveitarfélagi sem tekur á móti flóttamannahópi að skipa starfshóp við upphaf hvers verkefnis til að tryggja samræmi og samhæfingu í móttöku og aðstoð. Yfirstjórn starfshópsins, samsetning hans og fjöldi fulltrúa í honum fer eftir samkomulagi þessara aðila og þörfum á hverjum tíma.
    Formaður Flóttamannaráðs Íslands kallar saman fyrsta fund starfshóps hvers móttökuverkefnis. Starfshópurinn kýs sér formann sem skal sjá til þess að fundargerðir starfshópsins séu sendar Flóttamannaráði Íslands eftir hvern fund.

8. gr.
Sérstök aðstoð við flóttamannahópa.

    Sérhvert móttökuverkefni skal standa yfir í tiltekinn tíma frá komu flóttamannahóps til landsins.
    Meðal þess sem skal felast í aðstoð við flóttamannahópa er:
     a.      dvalar- og atvinnuleyfi,
     b.      húsnæði,
     c.      heilbrigðisþjónusta,
     d.      menntun, einkum íslenskukennsla, móðurmálskennsla og samfélagsfræðsla,
     e.      fjárhagsaðstoð,
     f.      túlkaþjónusta,
     g.      önnur nauðsynleg aðstoð.
    Félagsmálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd móttökuverkefna að fenginni tillögu Flóttamannaráðs Íslands.

III. KAFLI
Ýmis ákvæði.
9. gr.
Kæruleið.

    Kæra vegna ákvörðunar Flóttamannaráðs um einstök framkvæmdaatriði móttökuverkefnis skulu berast skriflega til félagsmálaráðuneytis.
    Um málsmeðferð fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga.


10. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Núverandi Flóttamannaráð Íslands skal halda skipun sinni til nóvember 2003 og starfa samkvæmt lögum þessum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta var samið í félagsmálaráðuneytinu í þeim tilgangi að festa í sessi það fyrirkomulag á móttöku flóttamannahópa sem tíðkast hefur. Mikil reynsla af móttöku slíkra hópa hefur áunnist á þeim tíma sem liðinn er frá fyrstu skipun Flóttamannaráðs Íslands árið 1995 en íslensk stjórnvöld hafa tekið á móti flóttamannahópum á hverju ári frá árinu 1996. Kom sú reynsla sér vel er íslensk stjórnvöld ákváðu með skömmum fyrirvara að taka á móti allt að 100 manna hópi flóttamanna vorið 1999 er stríðsástand ríkti í Kosovo. Sú móttaka þótti takast mjög vel og skipti þar ekki síst máli góð og lipur samvinna Flóttamannaráðs og Rauða kross Íslands. Má segja að móttöku flóttamannahópa hafi verið mótaður farvegur sem hefur reynst farsæll og vakið mikla athygli erlendis, ekki síst hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna ( UNHCR).
    Samningur um stöðu flóttamanna var undirritaður í Genf árið 1951 og gerðist Ísland aðili að samningnum þann 30. nóvember 1955. Gekk samningurinn í gildi að því er Ísland varðar þann 1. mars 1956. Með fullgildingu samningsins gekkst Ísland undir skuldbindingar að þjóðarétti til að taka þátt í samvinnu þjóða á milli um að veita flóttamönnum vernd. Felst sú vernd meðal annars í því að tryggja að flóttamenn sem koma hingað til lands njóti sömu mannréttinda og aðrir þegnar ríkisins. Kveður samningurinn á um ýmis réttindi sem aðildarríki skulu sjá til að flóttamenn njóti á landsvæði þeirra en í upphafi samningsins er flóttamannahugtakið skilgreint. Jafnframt skuldbindur samningurinn íslenska ríkið til að hafa samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna í málum er snerta flóttamenn. Þess vegna hafa íslensk stjórnvöld haft það að markmiði að taka árlega á móti flóttamannahópum í samráði við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Íslensk stjórnvöld hafa átt mjög gott samstarf við stofnunina. Hún hefur meðal annars gefið Flóttamannaráði Íslands leiðbeiningar um hvar neyðin sé mest og sent forvalslista yfir einstaklinga og fjölskyldur sem þurft hafa á aðstoð að halda. Hafa stjórnvöld tryggt flóttamannahópunum sérstaka aðstoð fyrsta dvalarárið í ljósi þess að flestir einstaklinganna í hópunum hafa dvalið í flóttamannabúðum til lengri eða skemmri tíma.
    Vegna þessara alþjóðlegu skuldbindinga íslenska ríkisins þykir eðlilegra að Flóttamannaráð Íslands verði skipað lögum samkvæmt en áður hefur það einungis starfað á grundvelli samþykktar ríkisstjórnarinnar. Jafnframt er lagt til að meginatriði í skipulagningu á móttöku flóttamannahópa verði lögfest en að nánari útfærslu verði gerð skil með reglugerð á grundvelli laganna, verði frumvarpið að lögum. Ástæðan er sú að framkvæmd verkefnisins er í stöðugri þróun og þykir því ekki rétt að binda hana í lög. Engu að síður er mikilvægt að mælt sé fyrir um fyrirkomulag móttökunnar í lögum og reglugerð, enda hefur verið farið þess á leit við Flóttamannaráð að verkefnið verði fyrirmynd að móttöku flóttamannahópa í öðrum ríkjum.
    Í frumvarpinu er lagt til að hlutverk Rauða kross Íslands í undirbúningi og framkvæmd móttökunnar verði lögfest. Rauði krossinn hefur átt stóran þátt í að móta þá framkvæmd sem viðhöfð hefur verið og þykir því mikilvægt að það samstarf verði áfram tryggt. Hefur Rauði krossinn einkum gegnt mikilvægu hlutverki við að miðla upplýsingum milli verkefna en það eru jafnan mismunandi sveitarfélög sem taka á móti hópunum. Rauði krossinn hefur þannig stuðlað að samræmingu verkefnanna á milli ára. Einnig er lagt til að Flóttamannaráð semji við tiltekið sveitarfélag um móttöku flóttamannahópa og er tilgreint til hvaða þjónustu samningurinn skuli taka. Jafnframt er gert ráð fyrir að kostnaðaráætlun vegna móttökunnar verði gerð fyrir fram í samráði við Flóttamannaráð eins og verið hefur.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að lögin taki einungis til móttöku flóttamannahópa en stjórnvöld hafa árlega frá árinu 1996 tekið á móti flóttamannahópum frá ríkjum fyrrum Júgóslavíu. Haft er samráð við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um frá hvaða ríkjum eða svæðum flóttamennirnir skulu koma. Er samráðið í samræmi við ákvæði samningsins um stöðu flóttamanna frá árinu 1951.
    Áfram er gert ráð fyrir að móttaka flóttamannahópa verði undir yfirstjórn félagsmálaráðherra. Ástæðan er sú að sveitarfélög landsins skipa stóran sess í móttöku flóttamannahópa en vilji sveitarfélaganna til að standa að móttöku flóttamannahópa er eitt af lykilatriðum þess að unnt sé að taka á móti slíkum hópum. Þykir því eðlilegt að ráðuneyti sveitarstjórnarmála, þar á meðal félagsþjónustu sveitarfélaga, fari með yfirumsjón með slíkum móttökum. Þar undir falla einnig húsnæðismál og vinnumál en mikil áhersla er á þessa málaflokka í tengslum við móttöku flóttamannahópa. Yrði því málum skipað með sama hætti og áður í sambandi við flóttamannahópa og dómsmálaráðherra færi áfram með málefni hælisleitenda.

Um 2. gr.

    Markmið frumvarps þessa er að stuðla að því að íslensk stjórnvöld taki á móti hópum flóttamanna þegar aðstæður í heimaríki þeirra krefjast þess. Er um leið verið að undirstrika alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins til að taka þátt í samvinnu þjóða á milli um að veita flóttamönnum vernd. Íslensk stjórnvöld tóku fyrst á móti flóttafólki árið 1956 er 52 manna hópur kom hingað til lands frá Ungverjalandi. Þremur árum síðar kom til Íslands 32 manna hópur frá Júgóslavíu en árið 1979 kom fyrsti hópurinn frá Víetnam. Síðan hafa tveir hópar komið hingað til lands frá Víetnam á árunum 1990–91. Árið 1982 tóku íslensk stjórnvöld á móti 26 manna hópi frá Póllandi. Frá árinu 1996 hafa stjórnvöld tekið árlega á móti hópum flóttamanna frá ríkjum fyrrum Júgóslavíu. Er ljóst að móttaka flóttamannahópa á sér langa sögu á Íslandi og þykir því tímabært að lögbinda það markmið að stjórnvöld taki á móti flóttamannahópum með viðhlítandi hætti þegar aðstæður krefjast þess. Með því orðalagi er átt við að flóttamannahópurinn fái nauðsynlega aðstoð í tiltekinn tíma til að auðvelda fólkinu að aðlagast nýjum lifnaðarháttum. Ástæðan er einkum sú að jafnan er um að ræða einstaklinga sem hafa verið lengi á flótta og dvalist í flóttamannabúðum við erfiðar aðstæður.


Um 3. gr.

    Ákvæðið fjallar um skipun Flóttamannaráðs Íslands og eru ekki lagðar til breytingar á henni. Flóttamannaráð yrði áfram skipað af félagsmálaráðherra að fengnum tilnefningum frá þeim fjórum ráðuneytum sem koma að framkvæmd verkefnanna. Félagsmálaráðherra skipar formann ráðsins án tilnefningar. Hefur þessi skipun ráðsins reynst vel og leitt til mjög góðrar samvinnu þeirra ráðuneyta sem um er að ræða.
    Þá er lagt til að Rauði kross Íslands eigi áfram áheyrnarfulltrúa í Flóttamannaráði. Þykir þetta nauðsynlegt þar sem Rauði krossinn hefur gegnt mikilvægu hlutverki í skipulagningu og framkvæmd móttöku flóttamannahópa. Enn fremur telst þýðingarmikið að fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi áheyrnarfulltrúa í ráðinu í ljósi lykilhlutverks sveitarfélaga í móttöku flóttamannahópa til landsins.

Um 4. gr.

    Orðalag ákvæðisins er efnislega samhljóða samþykkt ríkisstjórnar Íslands um skipun Flóttamannaráðs. Í þessu felst að Flóttamannaráð hefur yfirumsjón með móttöku flóttamannahópa. Ráðið leggur til við félagsmálaráðherra að stjórnvöld taki á móti flóttamannahópum en ráðherra leggur tillögu ráðsins formlega fyrir ríkisstjórnina. Samþykki ríkisstjórnin að standa að móttöku flóttamannahóps óskar Flóttamannaráð eftir samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Stofnunin gerir tillögu um frá hvaða ríki eða svæði flóttamennirnir skuli vera og sendir ráðinu forvalslista yfir þá einstaklinga og fjölskyldur sem þurfa brýnast á aðstoð að halda. Listarnir eru síðan jafnan sendir Útlendingaeftirlitinu til skoðunar. Venja hefur verið að sérstök sendinefnd, skipuð fulltrúum Rauða kross Íslands og Flóttamannaráðs, hefur verið send á vettvang í þeim tilgangi að taka viðtal við fólkið, kynna land og þjóð og taka endanlega ákvörðun um hverjir koma til landsins. Þegar ákvörðun er tekin um samsetningu hópsins er fyrst og fremst tekið tillit til ástands fólksins og aðstæðna þess þar sem það dvelst er viðtölin eru tekin. Einnig er þó litið til aðstæðna allra í móttökusveitarfélagi. Oft getur verið tímafrekt að ganga frá pappírum þessa fólks og geta því liðið allt að tveir mánuðir þangað til hópurinn getur haldið af stað til nýrra heimkynna sinna. Hefst þá móttakan formlega hjá viðkomandi sveitarfélagi og stendur yfir í tiltekinn tíma. Er Flóttamannaráð á þeim tíma sveitarfélaginu innan handar við framkvæmd verkefnisins ásamt Rauða krossi Íslands.
    Jafnframt er lagt til að Flóttamannaráð verði stjórnvöldum til ráðgjafar um aðbúnað og þjónustu við erlenda ríkisborgara sem hafa lögheimili á Íslandi. Ástæða þessa er sú að Flóttamannaráð er skipað fulltrúum þeirra ráðuneyta sem koma með einhverjum hætti að aðbúnaði og þjónustu við erlenda ríkisborgara sem hafa ákveðið að setjast hér að til lengri eða skemmri tíma, svo sem vinnumálum, menntamálum, heilbrigðismálum, tryggingamálum og félagsþjónustu.
    Flóttamannaráð Íslands hefur gert félagsmálaráðherra árlega grein fyrir störfum sínum og er gert ráð fyrir að svo verði áfram.

Um 5. gr.

    Lagt er til að Flóttamannaráð geri sérstakan þjónustusamning við Rauða kross Íslands um þátttöku hans í skipulagningu á móttöku flóttamannahópa og aðstoð í framkvæmd. Ekki er mælt frekar fyrir um hvað felist í samningnum né til hversu langs tíma hann skuli gilda. Gerður hefur verið þjónustusamningur til fimm ára í senn og síðan sérstök kostnaðaráætlun fyrir hvert verkefni fyrir sig.
    Hlutverk Rauða krossins er meðal annars að vera fulltrúi og talsmaður flóttamannahópa gagnvart almenningi og stjórnvöldum. Jafnframt felur hlutverk hans í sér að veita einstaklingum liðveislu sem á þurfa að halda, t.d. að aðstoða viðkomandi við að fá læknisþjónustu sem ekki er unnt að veita í móttökusveitarfélaginu. Einnig hefur Rauði krossinn séð um skipulagningu sálrænnar aðstoðar fyrir flóttafólkið í samráði við viðkomandi sveitarfélag.

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu er nánar skýrt til hvaða atriða horft er þegar ákvörðun er tekin um hvaða sveitarfélag gengið skuli til samninga við. Undirbúningsferlið hefst á því að Flóttamannaráð auglýsir eftir sveitarfélögum sem hafa hug á að taka á móti flóttamannahópum. Sveitarfélögin gegna mikilvægu hlutverki í móttöku stjórnvalda á flóttamannahópum en hlutverk þeirra er fyrst og fremst að sjá til þess að flóttafólkið njóti þeirrar þjónustu sem aðrir íbúar sveitarfélagsins njóta. Einnig er lögð áhersla á að sveitarfélagið sjái um skipulagningu á íslenskukennslu fyrir fólkið, fullorðna sem og börn, auk þess að sjá um námskeið fyrir stuðningsfjölskyldur ásamt Rauða krossi Íslands.
    Mikilvægt er að sveitarfélagið sé vel í stakk búið að taka á móti flóttamannahópum og er meðal annars litið til stöðu heilbrigðisþjónustu á staðnum, framboðs á húsnæði og til skólamála. Mikil áhersla er á að félagsþjónustan sé öflug á staðnum og jafnframt að atvinnuástand sé gott. Hið síðastnefnda er sérstaklega mikilvægt í þeim tilgangi að fólkið geti á nýjan leik lifað sem eðlilegustu lífi en flestir hafa jafnan dvalið lengi í flóttamannabúðum áður en þeir koma til landsins.
    Við samningsgerðina skal taka tillit til þeirrar þjónustu sem ætla má að einstaklingar úr flóttamannahópnum þarfnist en venjulega lýkur samningsgerðinni ekki fyrr en við komu hópsins til landsins. Þá er orðið ljóst hvernig hópurinn er samansettur og því auðveldara að sjá hvar áherslurnar munu liggja. Sama á við um gerð kostnaðaráætlunar en hún skal vera fylgiskjal með samningnum. Kostnaður við móttökuverkefni greiðist úr ríkissjóði eins og verið hefur.

Um 7. gr.

    Venja hefur verið að sérstakur starfshópur starfi í tengslum við móttöku flóttamannahópa. Hlutverk hans hefur reynst mikilvægt og því er lagt til að sami háttur verði hafður á áfram. Rauði kross Íslands og móttökusveitarfélagið sjá um að skipa starfshópinn en hann hefur umsjón með að verkefnið gangi vel fyrir sig í sveitarfélaginu. Skal hópurinn jafnframt vera sveitarfélaginu innan handar við að leysa vandamál sem geta komið upp á meðan verkefnið stendur yfir. Rauði krossinn gegnir hér mikilvægu hlutverki við að miðla þekkingu milli verkefna þannig að reynsla af fyrri verkefnum nýtist við framkvæmd þess næsta. Einnig leiðir þetta til að samræmingar er gætt milli verkefna sem er mjög nauðsynlegt.
    Lagt er til að starfshópurinn sendi Flóttamannaráði fundargerðir sínar eftir hvern fund svo ráðið eigi auðveldara að fylgjast með gangi mála og geti gripið inn í ef þurfa þykir.

Um 8. gr.

    Lagt er til að sérhvert móttökuverkefni standi yfir í tiltekinn tíma frá komu flóttamannahóps til landsins. Frá árinu 1996 hefur eitt ár þótt hæfilegur tími til að aðstoða fólkið við að lifa aftur sem eðlilegustu lífi utan flóttamannabúða en flestir þeirra flóttamanna sem koma í svona skipulögðum hópum hafa dvalið einhvern tíma í flóttamannabúðum. Hafa flestir náð að aðlagast nýjum lifnaðarháttum á þeim tíma og eru tilbúnir að standa á eigin fótum. Engu að síður er lagt til að ekki verði bundið í lög í hversu langan tíma hvert verkefni eigi að standa yfir þar sem það þarf að meta eftir aðstæðum hverju sinni. Hugsanlegt væri að stjórnvöld vildu taka á móti fleiri hópum ef ástand í viðkomandi ríki kallaði á það og sýnt væri að skemmri tími en eitt ár væri nægjanlegur fólki þaðan til að spjara sig á eigin spýtur. Eins væri mögulegt að annar hópur þyrfti aðeins lengri tíma til að fóta sig við nýjar aðstæður.
    Við samningu frumvarps þessa þótti ekki ráðlegt að mæla nákvæmlega fyrir um í lögum hvernig aðstoð við flóttafólkið skuli vera háttað. Ástæðan er sú að skipulag hennar hefur tekið breytingum eftir því sem reynslan hefur orðið meiri og því eðlilegra að kveða nánar á um nákvæmt fyrirkomulag hennar í reglugerð sem félagsmálaráðherra setur að fenginni tillögu frá Flóttamannaráði. Engu að síður þótti nauðsynlegt að telja upp í ákvæðinu hvers konar aðstoð sé um að ræða án þess að útfæra framkvæmd hennar nánar.

Um 9. gr.

    Kæra vegna ágreiningsefna um framkvæmd móttökuverkefnis skal berast skriflega til félagsmálaráðuneytis. Með þessari kæruheimild er átt við að ákvarðanir Flóttamannaráðs um einstök framkvæmdaatriði í hverju verkefni verði kæranlegar til ráðuneytisins. Er þar með gert ráð fyrir að komi upp vafaatriði í framkvæmdinni leysi Flóttamannaráð fyrst úr ágreiningnum milli aðila enda fer ráðið með yfirumsjón verkefnanna. Fallist aðilar ekki á úrlausn málsins hjá ráðinu hafa þeir tækifæri á að bera málið undir ráðuneytið.

Um 10. gr.

    Lagt er til að lög þessi öðlist þegar gildi.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Lagt er til að núverandi Flóttamannaráð Íslands haldi skipun sinni og að nýtt ráð verði skipað að loknum skipunartíma þess í nóvember 2003. Mun það engu að síður starfa samkvæmt ákvæðum laga þessara enda er einungis verið að festa í sessi það fyrirkomulag sem hefur verið viðhaft.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um móttöku flóttamanna og aðstoð við þá.

    Frumvarpi þessu er ætlað að festa í sessi þá skipan á móttöku flóttamannahópa sem komin er í framkvæmd með samþykktum ríkisstjórnar. Frumvarpið gerir ráð fyrir að félagsmálaráðherra skipi Flóttamannaráð Íslands eins og verið hefur og leggi ráðinu til starfsmann. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að Flóttamannaráð geri þjónustusamning við Rauða kross Íslands og einstök sveitarfélög um móttöku og undirbúning flóttamannahópa en kostnaður við framkvæmd þeirra samninga greiðist úr ríkissjóði. Stærð flóttamannahópa og umfang þjónustusamninga um móttöku þeirra ræðst af framlagi í fjárlögum hverju sinni. Á árunum 1996–2000 hafa sjö sveitarfélög tekið á móti flóttamannahópum og heildargreiðslur til þeirra hafa numið rúmlega 150 m.kr. en greiðslur til Rauða kross Íslands hafa numið tæplega 80 m.kr. Auk þessa hafa útgjöld Flóttamannaráðs numið 10 m.kr. á sama tíma.
    Gera má ráð fyrir að kostnaður Flóttamannaráðs verði um 2,5 m.kr. á ári verði frumvarpið að lögum en á síðustu tveimur árum hefur kostnaður þess verið nokkuð hærri vegna umfangsmikilla verkefna.