Ferill 193. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 949  —  193. mál.




Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. nr. 107/1999, um fjarskipti.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur frá samgönguráðuneytinu og Sigrúnu Jóhannesdóttur frá Persónuvernd. Jafnframt bárust umsagnir um málið frá Blaðamannafélagi Íslands, tölvunefnd, Almannavörnum ríkisins, ríkislögreglustjóra, Landssíma Íslands hf., Samtökum fjármálafyrirtækja, Póst- og fjarskiptastofnun og Landhelgisgæslu Íslands.
    Með lögum nr. 107/1999 voru sett ný heildarlög um fjarskipti. Í lögum þessum voru fjölmörg nýmæli, þar á meðal ákvæði 3. mgr. 44. gr. sem hér er til umfjöllunar. Í umræddu ákvæði er kveðið á um að sá aðili að símtali sem vill hljóðrita það skuli í upphafi þess tilkynna viðmælanda sínum um þá fyrirætlan.
    Fljótlega eftir að lögin voru samþykkt kom fram talsverð gagnrýni á þetta ákvæði laganna. Gagnrýnin fólst einkum í því að ákvæðið væri of strangt og án undantekninga sem gerði það að verkum að það raskaði hagsmunum bæði stjórnvalda og einkaaðila sem nýttu sér hljóðritanir í starfsemi sinni. Einkum mótmælti Blaðamannafélag Íslands þessu ákvæði harðlega. Einnig var gagnrýnt að ákvæðið gengi mun lengra en nauðsynlegt væri skv. 5. gr. tilskipunar 97/66/EB, sem ákvæðið er byggt á.
    Í kjölfar þessa flutti meiri hluti samgöngunefndar á 125. þingi frumvarp til laga þar sem lagt var til að umrætt ákvæði yrði fellt niður. Frumvarpið varð ekki útrætt.
    Nefndin hefur rætt fyrirliggjandi frumvarp ítarlega. Meiri hlutinn telur þær undantekningar sem lagðar eru til frá meginreglu 3. mgr. 44. gr. nægjanlegar og vill í því sambandi vekja sérstaka athygli á túlkun samgönguráðherra á 1. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins, en í greininni segir að aðili þurfi ekki að tilkynna sérstaklega um upptöku samtals þegar ótvírætt má ætla að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritunina. Um þetta sagði samgönguráðherra í framsöguræðu sinni:
    „Hér skiptir öllu máli að viðkomandi hafi fengið eða getað fengið vitneskju um upptökuna. Ljóst er að með þessu ákvæði er fjallað um alla aðra en stjórnvöld, þar á meðal einstaklinga, félög og fjármálastofnanir sem ekki þurfa að tilkynna sérstaklega um hljóðritun samtals þegar ótvírætt má ætla að viðmælanda sé kunnugt um hana. Sem dæmi má nefna ákvæði í viðskiptasamningi, almenn ummæli eða tilkynningar í eitt skipti fyrir öll. Fórnarlamb persónuofsókna á samkvæmt því að geta hljóðritað símtöl eftir einfalda tilkynningu.“
    Meiri hlutinn tekur undir framangreinda túlkun samgönguráðherra. Meiri hlutinn lítur svo á að samkvæmt þessu geti t.d. fjölmiðill með almennri tilkynningu fullnægt tilkynningarskyldu skv. 3. mgr. 44. gr. laganna þannig að þeir sem starfa hjá honum séu þar með undanþegnir tilkynningarskyldunni í skjóli þessa ákvæðis. Með sama hætti lítur meiri hlutinn svo á að það nægi fórnarlambi persónuofsókna að tilkynna ofsækjanda það í eitt skipti fyrir öll að samtöl þeirra verði tekin upp.
    Í 2. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins eru opinberar stofnanir undanþegnar tilkynningarskyldu þegar hljóðritun er eðlilegur þáttur í starfsemi stjórnvalds og nauðsynleg vegna þjóðar- og almannaöryggis.
    Meiri hlutinn telur, með hliðsjón af framansögðu, að þær undantekningar sem tilgreindar eru í frumvarpinu séu nægjanlegar og tryggi hagsmuni þeirra sem helst nýta hljóðritanir í starfi sínu, sem og neyðarhagsmuni einstaklinga. Meiri hlutinn telur þannig að tillögur frumvarpsins séu til þess fallnar að sætta andstæð sjónarmið í málinu.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Lúðvík Bergvinsson og Kristján L. Möller skrifa undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 26. mars 2001.


Árni Johnsen,

form., frsm.

Arnbjörg Sveinsdóttir.

Hjálmar Árnason.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.

Jón Kristjánsson.

Guðmundur Hallvarðsson.


Lúðvík Bergvinsson,

    með fyrirvara.

Kristján L. Möller,


með fyrirvara.