Ferill 641. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1018  —  641. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2001, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2001 frá 30. mars 2001, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/46/EB frá 18. september 2000, um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2001 frá 30. mars 2001, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/46/EB frá 18. september 2000, um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir eru prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES- nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES- samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/46/EB frá 18. september 2000, um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim.
    Tilskipunin fjallar um rafeyrisfyrirtæki, þ.e. fjármálafyrirtæki önnur en lánastofnanir sem hafa með höndum útgáfu og umsýslu með rafeyri. Í tilskipuninni er meðal annars kveðið á um heimildir til útgáfu rafeyris, lágmarkskröfur um eigið fé rafeyrisfyrirtækis og um eftirlit og fjárfestingarstefnu slíkra fyrirtækja. Kröfur um eigið fé eru lægri en gilda um lánastofnanir. Heimilt er að undanþiggja lítil rafeyriskerfi frá ákvæðum tilskipunarinnar.
    Unnið er að undirbúningi nauðsynlegra lagabreytinga vegna þessa í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu en sérstök nefnd sem vinnur að gerð frumvarps um fjármálafyrirtæki mun gera tillögur um hvernig tilskipunin verður tekin upp í íslenskan rétt. Samkvæmt tilskipuninni er gert ráð fyrir að efni hennar komi til framkvæmda á Evrópska efnahagssvæðinu eigi síðar en 27. apríl 2002.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 45/2001

frá 30. mars 2001

um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      IX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 15/2001 frá 28. febrúar 2001( 1 ).

     2)      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/46/EB frá 18. september 2000 um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi komi í stað 15. liðar í IX. viðauka við samninginn.

„15.         32000 L 0046: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/46/EB frá 18. september 2000 um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim (Stjtíð. EB L 275, 27.10.2000, bls. 39).“

2. gr.

Texti tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2000/46/EB á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 31. mars 2001, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni( * ).


4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild og EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 30. mars 2001.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    P. Westerlund


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    P. K. Mannes     M. Brinkmann




Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2000/46/EB

frá 18. september 2000

um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum fyrsta og þriðja málslið 2. mgr. 47. gr.,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),

með hliðsjón af áliti Seðlabanka Evrópu ( 3 ),

í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 4 ),

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Lánastofnanir, í skilningi b-liðar fyrsta undirliðar 1. liðar 1. gr. tilskipunar 2000/12/EB ( 5 ), hafa takmarkað starfssvið.

     2)      Taka þarf tillit til séreinkenna þessara stofnana og kveða á um viðeigandi og nauðsynlegar ráðstafanir til að samræma og samhæfa lög aðildarríkjanna um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim.

     3)      Að því er varðar þessa tilskipun er rafeyrir rafrænn staðgengill fyrir mynt og peningaseðla sem er geymdur í rafrænum búnaði, eins og á gjörvakortum eða í tölvuminni, og er að jafnaði ætlaður til rafrænnar greiðslu lágra fjárhæða.

     4)      Aðferðin, sem valin var, hentar til að ná einmitt þeirri grunnsamhæfingu sem þarf og nægir til að tryggja gagnkvæma viðurkenningu á (starfs)leyfum og eftirlit með rafeyrisstofnunum, sem gerir það að verkum að nóg er að gefa út eitt leyfi sem er viðurkennt í öllu bandalaginu og er ætlað að tryggja tiltrú handhafa þess og beitingu meginreglunnar um eftirlit heimaríkis.

     5)      Séð í samhengi við þá hröðu þróun sem á sér stað í rafrænum viðskiptum er æskilegt að sett verði rammaákvæði sem stuðla að því að allir kostir rafeyris verði nýttir og varna því einkum að tækninýjungar verði tafðar. Í þessari tilskipun eru því sett rammaákvæði sem eru hlutlaus í tæknilegu tilliti og samhæfa eftirlit með rafeyrisstofnunum að því marki sem er nauðsynlegt til að tryggja traustan og varfærinn rekstur þessara stofnana og einkum fjárhagslegan heilleika þeirra.

     6)      Skv. 5. lið I. viðauka við tilskipun 2000/12/EB er lánastofnunum nú þegar heimil útgáfa og umsýsla greiðslumiðla, að meðtöldum rafeyri, og ástundun slíkrar starfsemi í öllu bandalaginu svo fremi að þau hafi hlotið gagnkvæma viðurkenningu og heyri undir heildareftirlitskerfi í samræmi við bankatilskipanir Evrópubandalagsins.

     7)      Það er rökrétt og æskilegt að taka upp sérstakt eftirlitskerfi fyrir rafeyrisstofnanir sem er frábrugðið því kerfi sem gildir fyrir aðrar lánastofnanir þótt það sé sniðið eftir því, einkum að því er varðar tilskipun 2000/12/EB, nema 2. og 3. kafla V. bálks hennar, því að útgáfa rafeyris telst ekki í sjálfu sér, með hliðsjón af séreinkennum hans sem rafræns staðgengils fyrir mynt og bankaseðla, innlánsstarfsemi skv. 3. gr. tilskipunar 2000/12/EB ef fjármununum, sem tekið er við, er umsvifalaust skipt í rafeyri.
     8)      Viðtaka fjármuna frá almenningi í skiptum fyrir rafeyri, sem leiðir til innistæðu á reikningi hjá stofnuninni sem gefur þá út, telst viðtaka innláns eða annarra endurgreiðanlegra fjármuna að því er varðar tilskipun 2000/12/EB.

     9)      Rafeyrir skal vera innleysanlegur til að handhafar hans hafi trú á honum. Að rafeyrir sé innleysanlegur merkir ekki endilega að líta beri á fjármuni, sem tekið er við í skiptum fyrir rafeyri, sem innlán eða annað endurgreiðanlegt fé, að því er varðar tilskipun 2000/12/EB.

     10)      Endurgreiðsla skal ætíð vera á nafnverði.

     11)      Vegna þeirrar sérstöku áhættu sem tengist útgáfu rafeyris verður eftirlitskerfið að vera markvissara og um leið þjálla en eftirlitskerfið sem gildir fyrir lánastofnanir, einkum af því að kröfur um stofnfé eru lægri og tilskipun 93/6/EBE ( 1 ) og II. og III. þætti 2. kafla V. bálks tilskipunar 2000/12/EB er ekki beitt.

     12)      Það er þó nauðsynlegt að skapa jöfn samkeppnisskilyrði milli rafeyrisstofnana og annarra lánastofnana sem gefa út rafeyri og tryggja þannig sanngjarna samkeppni milli fleiri stofnana, sem kemur sér vel fyrir handhafana. Þessu takmarki verður náð því að á móti framangreindri einföldun á eftirlitskerfinu, sem gildir fyrir rafeyrisstofnanir, vega strangari ákvæði en gilda um aðrar lánastofnanir, meðal annars að því er varðar takmarkanir á þeirri viðskiptastarfsemi sem rafeyrisstofnunum er heimilt að stunda og varfærnismörk fyrir fjárfestingar þessara stofnana, til að öruggt sé að fjárhagslegar skuldbindingar þeirra vegna útistandandi rafeyris séu ávallt tryggðar með nægilegu lausafé með lítilli áhættu.

     13)      Uns eftirlit með utankaupastarfsemi fyrir lánastofnanir hefur verið samhæft er rétt að rafeyrisstofnanir hafi trausta og varfærna stjórnun og eftirlitsaðferðir. Til að fyrirtæki, sem sæta ekki eftirliti, geti annast rekstrarþætti og aðra stoðþætti sem tengjast útgáfu rafeyris er mikilvægt að rafeyrisstofnanir hafi innra stjórnskipulag sem er í samræmi við fjárhagslega áhættu og aðra áhættu sem þeim er búin.

     14)      Útgáfa rafeyris getur haft áhrif á fjármálakerfið og snurðulausan rekstur greiðslukerfa. Mat á heilleika rafeyriskerfa útheimtir náið samstarf.

     15)      Lögbær yfirvöld ættu að eiga kost á að veita undanþágu frá sumum eða öllum kröfum sem settar eru fram í þessari tilskipun ef um er að ræða rafeyrisstofnanir sem starfa aðeins á yfirráðasvæðum viðkomandi aðildarríkis.

     16)      Samþykkt þessarar tilskipunar er besta leiðin til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að. Þessi tilskipun er takmörkuð við það lágmark sem þarf til að ná þessum markmiðum og gengur ekki lengra en þarf til þess.

     17)      Rétt er að kveða á um endurskoðun þessarar tilskipunar með hliðsjón af þróuninni á markaðinum og verndun handhafa rafeyris.

     18)      Samráð hefur verið haft við ráðgjafarnefnd um bankamál varðandi samþykkt þessarar tilskipunar.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Gildissvið, skilgreiningar og takmörkun starfsemi

1.     Tilskipun þessi gildir um rafeyrisstofnanir.

2.     Hún gildir ekki um stofnanir sem um getur í 3. mgr. 2. gr. tilskipunar 2000/12/EBE.

3.     Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a)      „rafeyrisstofnun“: fyrirtæki eða önnur lögpersóna, nema lánastofnun samkvæmt skilgreiningu í a-lið fyrsta undirliðar 1. liðar 1. gr. tilskipunar 2000/12/EB, sem gefur út greiðslumiðil í formi rafeyris;

b)      „rafeyrir“: peningaleg verðmæti, í formi kröfu á útgefanda, sem eru:

    i)     geymd í rafrænum miðli;

    ii)    gefin út í skiptum fyrir fjárhæð sem er ekki lægri en þau peningalegu verðmæti sem eru gefin út;

    iii)    samþykkt sem greiðslumiðill af öðrum fyrirtækjum en útgefanda.

4.     Aðildarríkin skulu banna einstaklingum, lögpersónum eða fyrirtækjum, sem eru ekki lánastofnanir samkvæmt skilgreiningu í a-lið fyrsta undirliðar 1. liðar 1. gr. tilskipunar 2000/12/EB, að stunda viðskiptastarfsemi sem felst í útgáfu rafeyris.

5.     Önnur viðskiptastarfsemi rafeyrisstofnana en útgáfa rafeyris skal takmörkuð við:

a)      náskylda fjármálaþjónustu eða aðra þjónustu, svo sem umsýslu rafeyris með því að annast rekstrarþætti og aðra stoðþætti sem tengist útgáfu hans og útgáfa og umsýsla annarra greiðslumiðla, að undanskilinni hvers konar lánveitingu; og

b)      geymslu gagna í rafræna búnaðinum fyrir önnur fyrirtæki eða opinberra stofnanir.

Rafeyrisstofnanir mega ekki eiga hlut í öðrum fyrirtækjum nema fyrirtækin annist rekstrarþætti eða aðra stoðþætti sem tengist rafeyri sem viðkomandi stofnun gefur út eða dreifir.

2. gr.

Beiting bankatilskipana

1.     Aðeins tilvísanir til lánastofnana í tilskipun 91/308/EBE ( 1 ) og tilskipun 2000/12/EB, að undanskildum 2. kafla V. bálks hennar, gilda um rafeyrisstofnanir nema skýrt sé kveðið á um annað.

2.     Ákvæði 5., 11., 13., 19., 20. (7. mgr.), 51. og 59. gr. tilskipunar 2000/12/EB gilda ekki. Það fyrirkomulag á gagnkvæmri viðurkenningu, sem kveðið er á um í tilskipun 2000/12/EB, gildir ekki um aðra viðskiptastarfsemi rafeyrisstofnana en útgáfu rafeyris.

3.     Viðtaka fjármuna í skilningi ii-liðar b-liðar 3. mgr. 1. gr. telst ekki innlán eða annað endurgreiðanlegt fé, skv. 3. gr. tilskipunar 2000/12/EB, ef fénu, sem tekið er við, er strax skipt í rafeyri.

3. gr.

Endurgreiðanleiki

1.     Handhafi rafeyris getur, á þeim tíma sem hann er í gildi, beðið útgefanda um að innleysa hann á nafnverði í mynt og peningaseðlum eða með því að færa hann á reikning án annars endurgjalds en er strangt til tekið nauðsynlegt til að framkvæma þá aðgerð.

2.     Í samningi milli útgefanda og handhafa skal tilgreina skýrt skilyrðin fyrir innlausn.

3.     Í samningnum má setja lágmark fyrir innlausn. Lágmarkið má ekki vera hærri 10 evrur.

4. gr.

Stofnfjárkröfur og eiginfjárkröfur

1.     Rafeyrisstofnanir skulu hafa stofnfé, skv. skilgreiningu í 1. og 2. lið 2. mgr. 34. gr. tilskipunar 2000/12/EBE, sem er ekki undir einni milljón evra. Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr. skal eigið fé þeirra, skv. skilgreiningu í tilskipun 2000/12/EBE, aldrei fara niður fyrir þá fjárhæð.

2.     Rafeyrisstofnanir skulu ávallt hafa yfir að ráða eigin fé sem er að minnsta kosti 2% af því sem hærra er: fjárskuldbindingum hverju sinni vegna útistandandi rafeyris eða meðalfjárskuldbindingum næstliðinna sex mánaða vegna útistandandi rafeyris.

3.     Hafi rafeyrisstofnun ekki enn starfað í sex mánuði, að meðtöldum þeim degi sem starfssemi hennar hófst, skal eigið fé hennar vera að minnsta kosti 2% af því sem hærra er: fjárskuldbindingum hverju sinni vegna útistandandi rafeyris eða heildarfjárhæð sex mánaða áætlunar um fjárskuldbindingar hennar vegna útistandandi rafeyris. Heildarfjárhæð sex mánaða áætlunar um fjárskuldbindingar viðkomandi stofnunar vegna útistandandi rafeyris skal koma fram í viðskiptaáætlun stofnunarinnar með fyrirvara um breytingar á áætluninni sem lögbær yfirvöld kynnu að hafa óskað eftir.

5. gr.

Takmörkun fjárfestinga

1.     Fjárfestingar rafeyrisstofnana skulu að minnsta kosti samsvara fjárskuldbindingum þeirra vegna útistandandi rafeyris en aðeins í eftirfarandi eignum:

a)      nægilega seljanlegum eignum sem, skv. 1., 2., 3. og 4. lið a-liðar 1. mgr. 43. gr. og 1. mgr. 44. gr. tilskipunar 2000/12/EB, fá lánsáhættuvægið núll;
b)      sýningarinnlánum hjá lánastofnunum á svæði A, eins og þær eru skilgreindar í tilskipun 2000/12/ EB; og

c)      skuldaskjölum sem:

    i)         eru nægilega seljanleg;

    ii)    heyra ekki undir a-lið 1. mgr.;

    iii)    eru viðurkennd af lögbærum yfirvöldum sem fullgildir liðir í skilningi í 12. mgr. 2. gr. tilskipunar 93/6/EBE;

    iv)    eru gefin út af öðrum fyrirtækjum en þeim sem eiga virkan eignarhluta, eins og hann er skilgreindur í 1. gr. tilskipunar 2000/12/EB, í viðkomandi rafeyrisstofnun eða þeim sem koma fram í samstæðureikningum þessara fyrirtækja.

2.     Fjárfestingar, sem um getur í b- og c-lið 1. mgr., mega ekki fara yfir tuttugufalt eigið fé viðkomandi rafeyrisstofnunar og skulu vera háðar takmörkunum sem eru að minnsta kosti jafnstrangar og þær sem gilda um lánastofnanir í samræmi við III. þátt 2. kafla V. bálks tilskipunar 2000/12/EB.

3.     Til að baktryggja sig gegn markaðsáhættu sem leiðir af útgáfu rafeyris og fjárfestinganna sem um getur í 1. mgr. er rafeyrisstofnunum heimilt að nota nægilega seljanlega vaxtaberandi og gengistengda liði utan efnahagsreiknings í formi afleiddra skjala sem verslað er með á verðbréfamarkaði (þ.e. ekki afleidd skjöl sem verslað er með utan verðbréfamarkaðar) þar sem þau heyra undir daglegar kröfur um tryggingarfé eða gjaldeyrissamninga með upphaflegan lánstíma sem er í mesta lagi 14 dagar. Notkun afleiddra skjala samkvæmt fyrsta málslið er því aðeins leyfileg að ætlunin sé að útrýma til fulls markaðsáhættu og að því markmiði sé náð eftir því sem unnt er.

4.     Aðildarríkin skulu setja viðeigandi takmarkanir á markaðsáhættu rafeyrisstofnana í tengslum við fjárfestingarnar sem um getur í 1. mgr.

5.     Við beitingu 1. mgr. skal meta eignir á því verði sem er lægra: kaupverði eða markaðsverði.


6.     Ef verðgildi eignanna, sem um getur í 1. mgr., fer niður fyrir fjárhæð fjárskuldbindinga vegna útistandandi rafeyris skulu lögbær yfirvöld sjá til þess að viðkomandi rafeyrisstofnun geri viðeigandi ráðstafanir til að ráða bót á því ástandi án tafar. Í því skyni geta lögbær yfirvöld heimilað, en aðeins tímabundið, að fjárskuldbindingar stofnunarinnar vegna útistandandi rafeyris séu tryggðar með öðrum eignum en þeim sem um getur í 1. mgr. sem nemur að hámarki fjárhæð sem er í mesta lagi 5% af þessum skuldbindingum eða af samanlögðu eigin fé stofnunarinnar.

6. gr.

Eftirlit lögbærra yfirvalda með sérkröfum

Lögbær yfirvöld skulu sjá til þess að reiknað sé út að minnsta kosti tvisvar á ári hvort ákvæðum 4. og 5. gr. hafi verið hlítt og að annaðhvort annist rafeyrisstofnanirnar sjálfar útreikningana og sendi niðurstöðurnar og nauðsynleg fylgigögn til lögbærra yfirvalda eða að lögbær yfirvöld annist þá og noti til þess gögn frá rafeyrisstofnununum.

7. gr.

Traustur og varfærinn rekstur

Rafeyrisstofnanir skulu hafa trausta og varfærna stjórnun og umsýslu- og reikningshaldsaðferðir og fullnægjandi innri eftirlitskerfi. Þessi kerfi ættu að vera í samræmi við þá fjárhagslegu áhættu og aðra áhættu sem viðkomandi stofnun er búin, þar með talið áhætta sem tengist tækni og málsmeðferð og áhætta sem tengist samstarfi hennar við annað fyrirtæki sem annast rekstrarþætti eða aðra stoðþætti í tengslum við viðskiptastarfsemi hennar.

8. gr.

Undanþágur

1.     Aðildarríkin geta leyft lögbærum yfirvöldum sínum að undanþiggja rafeyrisstofnanir beitingu sumra eða allra ákvæða þessarar tilskipunar svo og beitingu tilskipunar 2000/12/EB:

a)      ef öll viðskiptastarfsemi stofnunarinnar af þeirri tegund, sem um getur í a-lið 3. mgr. 1. gr. þessarar tilskipunar, leiðir til fjárskuldbindinga vegna útistandandi rafeyris sem að heildarfjárhæð fara að jafnaði ekki yfir 5 milljónir evra og aldrei yfir 6 milljónir evra.; eða

b)      ef rafeyririnn, sem stofnunin gefur út, er aðeins viðurkenndur sem greiðslumiðill hjá dótturfyrirtækjum stofnunarinnar, sem annast rekstrarþætti eða aðra stoðþætti vegna rafeyris sem stofnunin gefur út eða dreifir, hjá móðurfyrirtæki stofnunarinnar eða hjá öðrum dótturfyrirtækjum móðurfyrirtækisins; eða

c)      ef rafeyrir, sem stofnunin gefur út, er aðeins viðurkenndur sem greiðslumiðill hjá takmörkuðum fjölda fyrirtækja sem ótvírætt má þekkja á því að:

    i)        þau eru staðsett á sama athafnasvæði eða öðru afmörkuðu svæði á staðnum; eða

    ii)    þau eru í nánum fjárhagslegum eða viðskiptalegum tengslum við útgáfustofnunina, svo sem með sameiginlegu markaðs- eða dreifingarkerfi.

Í þeim samningum, sem liggja til grundvallar, skulu vera ákvæði um að í mesta lagi megi geyma 150 evrur á rafræna geymslumiðlinum sem handhafar fá til ráðstöfunar til greiðslu.

2.     Rafrænar stofnanir, sem hafa fengið undanþágu skv. 1. mgr., skulu ekki njóta góðs af því fyrirkomulagi á gagnkvæmri viðurkenningu sem kveðið er á um í tilskipun 2000/12/EB.

3.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að allar rafeyrisstofnanir, sem hafa fengið undanþágu frá þessi tilskipun og tilskipun 2000/12/EB, skili reglubundið skýrslu um starfsemi sína, þar með talið um heildarfjárhæð fjárskuldbindinga vegna rafeyris.

9. gr.

Starfsleyfi til starfandi stofnana

Litið skal svo á að rafeyrisstofnanir hafi starfsleyfi ef þær heyra undir þessa tilskipun og hófu starfsemi sína í samræmi við gildandi ákvæði í aðildarríkinu, þar sem þær hafa aðalskrifstofur, fyrir gildistökudag ákvæða sem samþykkt eru til að koma þessari tilskipun í framkvæmd eða fyrir daginn sem um getur í 1. mgr. 10. gr., eftir því hvor dagurinn kemur á undan. Aðildarríkin skulu skylda þessar rafeyrisstofnanir til að afhenda lögbærum yfirvöldum allar viðeigandi upplýsingar til að þau geti metið, innan sex mánaða frá gildistöku ákvæða sem samþykkt eru til að koma þessari tilskipun í framkvæmd, hvort stofnanirnar uppfylli kröfur samkvæmt þessari tilskipun, hvaða ráðstafanir þurfi að gera til að tryggja að kröfur séu uppfylltar eða hvort starfsleyfi skuli afturkallað. Ef kröfur hafa ekki verið uppfylltar innan sex mánaða frá deginum sem um getur í 1. mgr. 10. gr. skal rafeyrisstofnunin ekki njóta gagnkvæmrar viðurkenningar eftir þann tíma.

10. gr.

Framkvæmd

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 27. apríl 2002. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum, sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

11. gr.

Endurskoðun

Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 27. apríl 2005, leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið um beitingu þessarar tilskipunar, einkum að því er varðar:

–    ráðstafanir til að vernda handhafa rafeyris, þar með talið hugsanleg þörf á að taka upp ábyrgðarkerfi,

–    eiginfjárkröfur,

–    undanþágur, og

–    hugsanlega þörf á banni gegn greiðslu vaxta á fé sem tekið er við í skiptum fyrir rafeyri, ef þörf krefur ásamt tillögu um endurskoðun bannsins.

12. gr.

Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi daginn sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

13. gr.

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 18. september 2000.

     Fyrir hönd Evrópuþingsins,     Fyrir hönd ráðsins,

    N. FONTAINE     H. VÉDRINE

     forseti.     forseti.
Neðanmálsgrein: 1
(1) Hefur enn ekki verið birt.
Neðanmálsgrein: 2
(2) Stjtíð. EB L 275, 27.10.2000, bls. 39.
Neðanmálsgrein: 3
(*) Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB C 317, 15. 10. 1998, bls. 7.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. EB C 101, 12. 4. 1999, bls. 64.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Stjtíð. EB C 189, 6. 7. 1999, bls. 7.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Álit Evrópuþingsins frá 15. apríl 1999 (Stjtíð. EB C 219, 30. 7. 1999, bls. 415), staðfest 27. október 1999, sameiginleg afstaða ráðsins frá 29. nóvember 1999 (Stjtíð. EB C 26, 28. 1. 2000, bls. 1) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 11. apríl 2000 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB). Ákvörðun ráðsins frá 16. júní 2000.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB frá 20. mars 2000 um stofnun og rekstur lánastofnana (Stjtíð. EB L 126, 26. 5. 2000, bls. 1). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2000/28/EB (Stjtíð. EB L 275, 27.10.2000, bls. 37 ).
Neðanmálsgrein: 9
(1)    Tilskipun ráðsins 93/6/EBE frá 15. mars 1993 um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana (Stjtíð. EB L 141, 11. 6. 1993, bls. 1). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 98/33/EB (Stjtíð. EB L 204, 21. 7. 1998, bls. 29).
Neðanmálsgrein: 10
(1)    Tilskipun ráðsins 91/308/EEC frá 10. júní 1991 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvottar (Stjtíð. EB L 166, 28.6.1991, bls. 77).