Ferill 650. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1028  —  650. mál.




Frumvarp til laga



um Iðntæknistofnun Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Iðntæknistofnun Íslands er sjálfstæð stofnun undir yfirstjórn iðnaðarráðuneytisins.
    Stofnunin hefur aðalaðsetur í Reykjavík, en heimilt er að setja á stofn útibú annars staðar.

2. gr.

    Hlutverk Iðntæknistofnunar Íslands er að vinna að nýsköpun í íslensku atvinnulífi, tækniþróun og aukinni framleiðni með því að veita sérhæfða þjónustu á sviði tækni- og stjórnunarmála, stuðla að hagkvæmri nýtingu íslenskra auðlinda og þekkingar í atvinnulífinu.
    Hlutverki sínu skal stofnunin gegna meðal annars með því að vinna að ráðgjöf og fræðslu, öflun og dreifingu upplýsinga, hagnýtum rannsóknum, tilraunum og prófunum, tæknilegu eftirliti og leiðsögn. Stofnunin annast samskipti við hliðstæðar erlendar stofnanir.

3. gr.

    Iðnaðarráðherra skipar sjö manna stjórn Iðntæknistofnunar Íslands sem hér segir: Einn fulltrúa án tilnefningar, tvo fulltrúa samkvæmt tilnefningu Samtaka iðnaðarins, einn fulltrúa samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands, einn fulltrúa samkvæmt tilnefningu Landssambands iðnverkafólks, einn fulltrúa samkvæmt tilnefningu stjórnar Rannsóknarráðs Íslands og einn fulltrúa tilnefndan af stjórn Félags framtaksfjárfesta.
    Ráðherra skipar formann stjórnarinnar úr hópi stjórnarmanna og ákveður stjórnarlaun. Stjórnarmenn skulu skipaðir til tveggja ára í senn.

4. gr.

    Stjórn stofnunarinnar hefur með höndum stjórn hennar, markar henni stefnu og fer, ásamt forstjóra, með tengsl stofnunarinnar við iðnaðarráðuneytið.

5. gr.

    Iðnaðarráðherra skipar forstjóra stofnunarinnar að fengnum tillögum stjórnar hennar. Skal hann skipaður til fimm ára í senn.
    Forstjóri sér um daglega stjórn stofnunarinnar. Hann gerir tillögur til stjórnar um starfs- og fjárhagsáætlun stofnunarinnar og ber ábyrgð á fjárreiðum hennar.
    Forstjóra og forstöðumönnum deilda ber að leggja áherslu á samstarf við aðrar stofnanir og fyrirtæki eftir því sem tilefni gefst til.

6. gr.

    Tekjur stofnunarinnar skulu vera sem hér segir:
     a.      Framlag í fjárlögum.
     b.      Tekjur fyrir selda þjónustu, samkvæmt gjaldskrá.
     c.      Greiðslur frá aðilum vegna stórra verkefna, samkvæmt samningi hverju sinni.
     d.      Framlög til sérstakra verkefna og aðrar tekjur.

7. gr.

    Iðntæknistofnun Íslands er heimilt, að fengnu samþykki stjórnar stofnunarinnar og iðnaðarráðherra, að eiga aðild að sprotafyrirtækjum svo og rannsókna- og þróunarfyrirtækjum sem eru hlutafélög eða önnur félög með takmarkaðri ábyrgð er þrói hugmyndir og hagnýti niðurstöður rannsókna- og þróunarverkefna sem tengist starfssviði stofnunarinnar hverju sinni.

8. gr.

    Iðnaðarráðherra getur falið Iðntæknistofnun Íslands að fara með eignir ríkisins í sprotafyrirtækjum og verkefnum á frumstigi nýsköpunar. Skal stofnunin halda bókhaldi vegna þessara þátta aðskildu frá bókhaldi stofnunarinnar. Iðnaðarráðherra ákveður ráðstöfun á andvirði þessara eigna.

9. gr.

    Forstjóri ræður starfslið stofnunarinnar í samráði við forstöðumenn viðkomandi deilda og annast forstöðumenn daglega stjórn deildanna í samráði við forstjóra.
    Starfslið stofnunarinnar skal ýmist ráðið ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti eða til ákveðins tíma, t.d. til ákveðinna verkefna.
    Um launakjör starfsfólks fer samkvæmt kjarasamningum ríkisstarfsmanna á hverjum tíma.

10. gr.

    Starfsmönnum stofnunarinnar er óheimilt að taka að sér aukastörf, sem skoðast geta sem samkeppni við stofnunina, nema með samþykki forstjóra. Forstjóra er á sama hátt óheimilt að taka að sér aukastörf án samþykkis stjórnar.

11. gr.

    Starfsfólki stofnunarinnar er óheimilt að láta þriðja aðila í té upplýsingar um rannsóknir, tilraunir, prófanir eða önnur verkefni sem stofnunin vinnur að nema fyrir liggi skriflegt samþykki verkbeiðanda. Forstjóri ákveður upplýsingagjöf um rannsóknir sem stofnunin kostar af eigin fé.

12. gr.

    Iðnaðarráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu falla úr gildi lög nr. 41/1978, um Iðntæknistofnun Íslands, með síðari breytingum.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Lög um Iðntæknistofnun Íslands eru frá 1978 og tók sú stofnun þá við starfsemi og eignum, réttindum og skyldum Rannsóknastofnunar iðnaðarins og Iðnþróunarstofnunar Íslands. Vegna örra breytinga sem orðið hafa á ytra umhverfi iðnaðarins á þeim 23 árum sem liðin eru frá gildistöku laganna er orðið tímabært að endurskoða þau og aðlaga að nýjum aðstæðum.
    Lögin hafa staðist tímans tönn nokkuð vel, en þeim hefur engu að síður verið breytt tvisvar. Fyrra skiptið var árið 1986 þegar stofnuninni var veitt heimild til að eiga minnihlutaaðild að rannsókna- og þróunarfyrirtækjum. Síðari breytingarnar voru gerðar 1997 og fjölluðu um hlutverk forstjóra við ráðningu starfsmanna.
    Það frumvarp sem hér er lagt fram er byggt á núverandi lögum um Iðntæknistofnun Íslands, nr. 41/1978. Heiti laganna er haldið óbreyttu sem er til marks um að núverandi löggjöf er látin halda sér í meginatriðum. Aðallega er um að ræða breytingar sem auðvelda stofnuninni að taka með virkari hætti þátt í frumstigum nýsköpunar atvinnulífsins og veita frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum þá nauðsynlegu þjónustu sem krafa er gerð um í tæknisamfélagi nútímans.
    Iðntæknistofnun Íslands vinnur að þróun, nýsköpun og aukinni framleiðni í íslensku atvinnulífi. Stofnunin vinnur að markmiðum sínum í samstarfi við fyrirtæki, félög og einstaklinga, vísinda- og rannsóknastofnanir og stjórnvöld. Áhersla er lögð á frumkvæði og sveigjanleika til að mæta þörfum viðskiptavina á hverjum tíma.
    Starfsemi Iðntæknistofnunar Íslands greinist í þrjú meginsvið. Á tækniþróunar- og fræðslusviði eru stundaðar rannsóknir, tækniyfirfærsla, fræðsla og ráðgjöf. Upplýsinga- og þjónustusvið veitir frumkvöðlum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum almennar upplýsingar og leiðsögn. Rekstrar- og stjórnunarsvið er stoðeining við alla starfsemi stofnunarinnar.
    Íslenskt atvinnulíf hefur breyst mikið á undanförnum árum og hefur Iðntæknistofnun Íslands leitast við að laga starfsemi sína að breyttu umhverfi til að þjónusta sem best nýsköpun atvinnulífsins og auka framleiðni í samfélaginu. Stofnunin aðstoðar fyrirtæki við að hagnýta nýja tækni og þekkingu í starfsemi sinni. Að þessu er m.a. unnið í umfangsmiklum alþjóðlegum þróunarverkefnum.
    Í byrjun árs 1999 var komið á nýrri þjónustu fyrir frumkvöðla og fyrirtæki undir heitinu „Impra“. Meginástæður þess voru: Í fyrsta lagi var þjónusta við frumkvöðla og lítil og meðalstór fyrirtæki ófullnægjandi hér á landi. Iðntæknistofnun hafði í takmörkuðum mæli sinnt slíkri þjónustu, en aðallega í tengslum við framleiðslugreinarnar. Nauðsynlegt var að efla og útvíkka þjónustuna og leggja jafnframt áherslu á að fleiri atvinnugreinar nytu hennar. Í öðru lagi kveða samkeppnislög á um að þjónusta opinberra aðila megi ekki skekkja samkeppni á almennum markaði. Því var sú starfsemi stofnunarinnar sem kostuð var af ríkisfé fjárhagslega og stjórnunarlega aðskilin frá þeirri starfsemi sem gæti verið í samkeppni við sambærilega starfsemi á almennum markaði.
    Starfræksla frumkvöðlaseturs er hluti af starfsemi Impru. Þar fá frumkvöðlar aðstoð við úrlausn daglegra viðfangsefna við að fullþróa hugmyndir að nýjum vörum og þjónustu. Eftir 18 mánaða rekstur hefur starfsemin skapað um 70 ný störf og veltu sem er rúmar 200 millj. kr.
    Unnið er að stofnsetningu frumkvöðlagarðs fyrir fyrirtæki á sviði efna- og líftækni. Til þess verður nýtt sérhæft húsnæði þar sem áður var rekin líftæknistarfsemi stofnunarinnar. Iðntæknistofnun er aðili að Frumkvöðlasetri Norðurlands sem er sniðið að þessari fyrirmynd.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Þessi grein er óbreytt frá 1. gr. gildandi laga. Eins og fyrr er gert ráð fyrir að aðalaðsetur stofnunarinnar verði í Reykjavík. Starfssvið stofnunarinnar hefur þó ætíð náð til landsins alls og mun svo verða áfram. Nú er stofnunin með starfsmenn á Ísafirði og Akureyri auk Reykjavíkur. Auk þess mun sá hluti starfseminnar sem fyrst og fremst beinist að aðstoð við frumkvöðla og sprotafyrirtæki í auknum mæli verða komið fyrir úti á landi, t.d. með starfrækslu frumkvöðlasetra. Frumkvöðlasetur Norðurlands, sem um þessar mundir er að hefja starfsemi sína á Akureyri, Dalvík og Húsavík, byggist á aðferðafræði sem fylgt er á Iðntæknistofnun og nýtur aðstoðar þaðan.

Um 2. gr.

    Með þessari grein er hlutverk stofnunarinnar útvíkkað nokkuð. Nýsköpun fær aukið vægi og í stað þess að tiltaka iðnað og iðnfyrirtæki sérstaklega er nú vísað til íslensks atvinnulífs. Í þessu felst að Iðntæknistofnun er ætlað að sinna hagsmunum atvinnulífsins alls á sviði nýsköpunar að svo miklu leyti sem þeim hagsmunum er ekki sinnt af öðrum og hlutverk stofnunarinnar gefur tilefni til. Þetta hlutverk er þó ekki nýmæli því að hin síðari ár hefur stofnunin þjónað öllum atvinnuvegum án tillits til starfssviðs þeirra.
    Aukið vægi Iðntæknistofnunar í þekkingarmiðlun og leiðsögn á sviði nýsköpunar byggist á því að mörkin á milli hinna hefðbundnu atvinnugreina hafa riðlast og orðið iðnaður hefur fengið nýja og víðtækari merkingu í hugum flestra en áður var. Komnar eru fram nýjar atvinnugreinar sem fyrir einum til tveimur áratugum voru ekki til, eða flestum ókunnar. Upplýsingatækniiðnaður og líftækniiðnaður eru dæmi um nýjar atvinnugreinar sem ekki fylgja hefðbundinni afmörkun atvinnugreinanna en eru þess í stað þverfaglegar. Iðntæknistofnun hefur látið sig hin nýju fræðasvið máli skipta og hefur m.a. gegnt lykilhlutverki í framvindu líftækniiðnaðar hér á landi.
    Nýsköpunin er sérstakt áhersluatriði vegna þess að nýsköpun atvinnulífsins er undirstaða efnahagslegra og félagslegra framfara í þjóðfélaginu. Hin síðari ár hefur stofnunin aðlagað starfsemi sína mjög að því að sinna þörfum frumkvöðla og sprotafyrirtækja, eflt tækniyfirfærslu og erlent samstarf. Með frumvarpi þessu er hinar nýju áherslur festar í sessi.

Um 3. gr.

    Skipun stjórnar markast af megináherslum í starfsemi stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að í stjórninni sitji fulltrúar ráðherra, atvinnurekenda og launþega eins og áður var, en auk þeirra bætist nú við einn fulltrúi frá vísindasamfélaginu sem tilnefndur yrði af stjórn Rannsóknarráðs Íslands og annar fulltrúi frá framtaksfjárfestum sem tilnefndur yrði af Félagi framtaksfjárfesta.
    Þessi breyting markast af því mikilvæga hlutverki Iðntæknistofnunar að brúa bilið á milli uppruna hinnar vísindalegu og tæknilegu þekkingar sem til verður í háskólum og rannsóknastofnunum og hinna fullgerðu markaðshæfu afurða sem eru þróaðar hjá fyrirtækjunum. Þetta hlutverk þekkingarmiðlunar og leiðsagnar stofnunarinnar mun fá stöðugt aukið vægi á komandi árum og byggist það umfram annað á traustu samstarfi allra þeirra aðila sem gert er ráð fyrir að skipi stjórn Iðntæknistofnunar Íslands.

Um 4. gr.

    Stjórn stofnunarinnar er fyrst og fremst ætlað að móta framtíðarstarfsemi hennar og fjármál en ekki að hafa afskipti af daglegum rekstri.
    Stjórninni er ætlað að gegna mikilvægu hlutverki við að tengja starfsemi Iðntæknistofnunar við nánasta starfsumhverfi sitt í þeim tilgangi að ná fram samlegðaráhrifum við t.d. starfsemi vísindamanna, atvinnulífs og fjárfesta. Þá er og mikilvægt að stjórnin geti átt þátt í ráðgjöf stofnunarinnar við iðnaðarráðuneytið um málefni vísinda, atvinnuþróunar og nýsköpunar og geti haft áhrif á stjórnvaldsákvarðanir ráðuneytisins í málefnum er snerta stofnunina.

Um 5. gr.

    Skipun forstjóra er í samræmi við 23. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Þar sem gert er ráð fyrir að stjórnin verði skipuð fulltrúum helstu samstarfsaðila stofnunarinnar sem hafi ríka yfirsýn yfir starfsumhverfi hennar er eðlilegt að stjórnin geri tillögu til ráðherra um skipun forstjóra.
    Forstjóra er ætlað að bera ábyrgð á daglegum rekstri stofnunarinnar og fjárreiðum hennar.
Stjórnin er fyrst og fremst ráðgefandi eins og fram kemur í umfjöllun um 4. gr. en engu að síður er til þess ætlast að hún samþykki starfsáætlanir og fjárhagsáætlanir, bæði ársáætlanir og langtímaáætlanir.
    Í þriðju málsgrein er sérstaklega lögð áhersla á samstarf við aðrar stofnanir og fyrirtæki sem tengjast starfsemi Iðntæknistofnunar. Þetta ákvæði er til að leggja áherslu á mikilvægi þess að stofnunin hafi frumkvæði að samstarfi við aðra sem vinna að sömu markmiðum og stofnunin, sbr. 2. gr.

Um 6. gr.

    Gert er ráð fyrir að Iðntæknistofnun njóti beinna framlaga úr ríkissjóði á sama hátt og aðrar sambærilegar stofnanir. Framlag ríkissjóðs er nú aðeins um 1/ 3 af veltu stofnunarinnar en meginhluta tekna sinna aflar Iðntæknistofnun með verkefnasölu og með þátttöku í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum.
    Árið 1999 var sá hluti rekstursins sem eingöngu er rekinn af ríkisfé skilinn frá samkeppnisstarfseminni. Ríkið kostar nú hina veigamiklu þekkingarmiðlun og leiðsagnarstarfsemi fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki og kostar rannsóknir sem nauðsynlegar eru fyrir atvinnuþróunina og er þess eðlis að aðrir telja sér ekki ávinning að því að stunda eða kosta slíkar rannsóknir.

Um 7. gr.

    Iðntæknistofnun hefur frá árinu 1986 haft heimild með samþykki stjórnar stofnunarinnar og iðnaðarráðherra til að eiga minnihlutaaðild að rannsókna- og þróunarfyrirtækjum. Með ákvæði þessarar greinar er krafan um minnihlutaaðild felld brott og stofnuninni einnig veitt heimild til að eiga aðild að félögum sem vinna við rannsóknir eða hagnýti niðurstöður rannsókna- og þróunarverkefna sem tengist starfssviði stofnunarinnar hverju sinni. Mikilvægt er að gera tímabundið eignarhald að slíkum fyrirtækjum einfalt því að eðli frumkvöðlasetra eins og rekið er á Iðntæknistofnun er m.a. að fóstra misvel skilgreindar hugmyndir svo að til verði þroskavænleg fyrirtæki.

Um 8. gr.

    Umhverfi nýsköpunarinnar hefur breyst mjög hin síðustu ár með tilkomu framtaksfjárfesta sem sýnt hafa nýsköpunarstarfinu mikinn áhuga. Þetta hefur leitt til þess að viðhorf til stuðnings ríkisins hefur breyst. Nú eru frumkvöðlar sem leita aðstoðar ríkisins á frumstigi nýsköpunarinnar margir hverjir fúsir að veita ríkinu takmarkaða aðild í hugmyndinni verði hún að veruleika gegn stuðningi við að þróa hugmyndina á það stig að hún verði áhugaverð fyrir framtaksfjárfestana.
    Auk þessa er nauðsynlegt að ríkið komi einstaka sinnum að verkefnum með fjárframlagi til þess að þau nái tilætluðum árangri. Þá hefur ríkið hlutverki að gegna við að skapa tiltrú annarra sem vildu leggja fram fé en gerðu það ekki án frumkvæðis ríkisins og að undangengnu mati sérfræðinga þess á málinu.
    Áður var algengara en nú að líta á hin takmörkuðu fjárframlög ríkisins sem óafturkræfa styrki, enda ekki hefð fyrir öðru. Í ljósi breyttra viðhorfa og þess möguleika sem nú hefur skapast til að endurnýta fjárframlög ríkisins er nauðsynlegt að varðveita þessar eignir í sprotafyrirtækjum og verkefnum á frumstigi nýsköpunar á einum stað. Með hlutverk Iðntæknistofnunar í huga er eðlilegt að ætla þeirri stofnun varðveisluna.

Um 9. gr.

    Um ráðningu og kjör starfsmanna og stjórnun deilda eru farnar hefðbundnar leiðir sem þarfnast ekki frekari skýringa. Þó þarf að geta þess að vegna breytilegra verkefna, bæði í eðli og umfangi, er sveigjanleiki í ráðningum nauðsynlegri en hjá mörgum öðrum stofnunum.

Um 10. gr.

    Margt í starfsemi Iðntæknistofnunar er byggt á áralöngu þróunarstarfi og gæti verið skaði af því fyrir stofnunina ef starfsmenn hennar tækju að sér aukastörf á eigin vegum eða fyrir aðra sem kynnu að vera í samkeppni við stofnunina. Auk þess er núorðið almennt talið mikilvægt að aukastörfum sé haldið í hófi og stjórn höfð á þeim.
    Á grundvelli þessa er starfsmönnum gert að leita heimildar forstjóra til að sinna aukastörfum þegar um gæti verið að ræða samkeppni við stofnunina og forstjóra að leita heimildar stjórnar þegar um sams konar aukavinnu hans er að ræða.

Um 11. gr.

    Iðntæknistofnun vinnur að margvíslegum vísindalegum og tæknilegum rannsóknum fyrir ríkið og fjölmarga verkkaupa. Ljóst má vera að í mörgum tilfellum fela þessi verkefni í sér meðferð upplýsinga sem leynd þarf að hvíla yfir, m.a. vegna viðskiptalegra hagsmuna.
    Þá er ekki síður mikilvægt að stofnunin geti gætt eigin hagsmuna og hagsmuna ríkisins, t.d. vegna rannsókna sem unnar eru á kostnað stofnunarinnar og ríkisins.
    Margar rannsóknir stofnunarinnar eru þó þess eðlis að ekki þarf að fara leynt með framkvæmd eða niðurstöður þeirra. Þegar svo ber við eru rannsóknirnar yfirleitt birtar almenningi í ritum eða á heimasíðu stofnunarinnar. Góð regla er engu að síður að birting og meðferð rannsóknaniðurstaðna sé í samræmi við þarfir verkkaupa hverju sinni eða í samræmi við viðurkennt verklag sem verkkaupum er almennt kunnugt um.

Um 12. og 13. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Iðntæknistofnun.

    Frumvarpið er lagt fram til að skilgreina betur starfsemi stofnunarinnar, verkefni, ábyrgð og stjórnsýslu.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.