Ferill 574. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1406  —  574. mál.
Svarfjármálaráðherra við fyrirspurn Ástu Möllers um áhrif nýs launakerfis á launamun karla og kvenna hjá opinberum stofnunum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað líður framkvæmd úttektar á áhrifum nýs launakerfis á launamun karla og kvenna starfandi hjá opinberum stofnunum, sbr. yfirlýsingu fjármálaráðherra í tengslum við gerð kjarasamninga ýmissa stéttarfélaga opinberra starfsmanna 1997?

    Vorið 2000 hófst undirbúningsvinna fyrir könnun á kynbundnum launamun í samvinnu við Reykjavíkurborg eins og kveðið er á í yfirlýsingu sem gerð var í tengslum við kjarasamninga ýmissa stéttarfélaga árið 1997. Þá voru haldnir nokkrir vinnufundir með Félagsvísindastofnun. Hlé varð á þeirri vinnu vegna þess að flokkun starfa í launavinnslukerfi ríkisins sem og Reykjavíkurborgar var ábótavant og mæltist Félagsvísindastofnun til þess að áður en hafist yrði handa við greiningu á kynbundnum launamun væru störf í launaskrám flokkuð samkvæmt ÍSTARF 95 staðli.
    Vinnsluferlið má greina í eftirfarandi stig:
     1.      forvinnu, sem felst í því að velja og semja við samstarfsaðila, setja fram rannsóknarspurningar og rannsóknaraðferðir, tilgreina gögn og velja tímapunkta, yfirfara og villuhreinsa gögn og kóðun gagna,
     2.      gagnaúrvinnslu og
     3.      framsetningu niðurstaðna.
    Nú er svo komið að um það bil helmingur starfa í launaskrám ríkisins er starfaflokkaður. Tekin hefur verið sú ákvörðun að bíða ekki lengur eftir því að stofnanir ljúki flokkun starfa, heldur kanna launamun kynjanna út frá þeim hluta sem nú er búið að flokka, þrátt fyrir takmarkaðra upplýsingagildi þar sem starfaflokkunin er hvorki jafndreifð yfir stofnanaflokka né starfshópa. Vinnan er nú stödd á forvinnslustigi, þar sem komið er að því að yfirfara og villuhreinsa gögn.