Horfur í efnahagsmálum

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 13:42:21 (3410)

2002-01-22 13:42:21# 127. lþ. 57.94 fundur 261#B horfur í efnahagsmálum# (umræður utan dagskrár), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[13:42]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að hefja máls á þessu efni og ég skal svara honum strax varðandi þessi atriði. Ríkisstjórnin mun standa við það sem hún hefur þegar tilkynnt verkalýðshreyfingunni að hún muni gera varðandi lækkun á útgjöldum.

Í annan stað tel ég að verulegar líkur séu á því --- ég vil leyfa mér að segja jafnvel yfirgnæfandi líkur --- að það mark sem menn hafa sett sér gagnvart uppsögn kjarasamninga standist.

Um leið og ég þakka hv. þm. fyrir að taka þetta mál upp hér og nú verð ég þó að segja að hann fór ekki alveg rétt með í upphafi fundar á vorþinginu. Hann sagði að 2/3 af hækkuninni sem varð núna um síðustu mánaðamót væri af völdum ríkisins. Þetta er rangt því 2/3 er hækkun á verði matvæla. Það kom fram síðar í ræðunni. (Gripið fram í.) Jú, jú, það sagði þingmaðurinn. Það kom hins vegar síðar fram í ræðu hans að hann hafði skilning á því að hækkunin á matvælunum skipti verulegu máli.

En þingmaðurinn sagði líka í upphafi ræðu sinnar: Var ekki talað um það fyrir jól að gengið ætti að styrkjast? Jú, það var talað um það og gengið hefur heldur betur styrkst og hefur verið að styrkjast, meira að segja í dag. Vísitalan sem fór hæst í tæplega 152 stig er núna í 139 stigum. Þetta er gríðarlegur árangur og mun hafa mjög mikla þýðingu vegna verðbólgunnar sem fram undan er. Þess vegna segi ég að miklar líkur eru á að þetta muni allt saman ganga eftir. Við erum að sjá mjög jákvæða hluti ganga fram hvarvetna. Og þegar þetta gengur eftir, þá mun það einnig ganga eftir að verðbólgan á árinu verði kringum 3,5% sem er mjög viðunandi árangur.

Hv. þm. talaði um viðskiptahallann, sagði reyndar að viku eftir kosningar ætti allt að springa í loft upp. Það er liðinn drjúgur tími frá þeirri viku eins og menn muna frá því að sú klukka átti að springa. Hvernig er með viðskiptahallann sem hv. þm. hefur talað mest um sem var 73 milljarðar þegar hann fór hæst? Nú er gert ráð fyrir að hann verði 25 milljarðar kr. á þessu ári, aðeins þriðjungur, og hann spyr um árangur. Er það ekki árangur? Auðvitað er það gríðarlegur árangur sem þarna er að gerast.

Til viðbótar þessu til að ýta undir bjartsýni sem við höfum öll fulla ástæðu til að búa yfir um þessar mundir, þá hefur sjútvrh. getað aukið aflann, skattalækkanir hafa aukið mönnum þor, menn eru að flytja heim fyrirtæki sín af þeim ástæðum o.s.frv.

Við horfum til annarra landa. Hvað værum við að tala um í þessum sal núna um efnahagsmál ef atvinnuleysi væri hér það sama og í Evrópulöndunum, innan Evrópubandalagsins þar sem það er 9--10%? Árið 2000 var atvinnuleysið á Íslandi 1,3%. Árið 2001 1,4%, hækkaði um 0,1%. Ætli við værum ekki að tala um það sem eina og agalegasta vandann í efnahagsmálum ef atvinnuleysi væri hér eins og það er í evrulöndunum, 10--12%? Og ef skoðað væri eins og gert er hér á landi, þar sem ekki er miðað við að menn hætti sextugir heldur 65--70 ára, þá væri þetta 12--14% atvinnuleysi sem væri stærsti vandinn sem við væri að glíma og væri hörmung öll og mikil.

Við sjáum líka að kaupmátturinn mun standast, við munum halda honum gangandi. Við sjáum líka, og það er gleðilegt, að úrvalsvísitalan hefur ekki verið hærri í heilt ár. Trúin á markaðanum er líka að vaxa, markaðurinn fer vaxandi og er enn eitt dæmið um það að efnahagsástandið er að komast í mjög gott horf hér og eru allar ástæður til þess að vera fullur af bjartsýni og hafa trú á því sem er að gerast. Auðvitað hefur skipt mestu máli í þessu sambandi nákvæmlega þriðja spurningin sem hv. þm. spurði um: Hvað er það sem ríkisstjórnin er að gera? Það eru nákvæmlega verk ríkisstjórnarinnar sem hafa ráðið úrslitum: Það að ríkissjóður er rekinn með afgangi í mörg herrans ár og skuldir eru greiddar niður skiptir máli. Það að skattar eru lækkaðir með þeim hætti sem við höfum verið að gera, sem styrkir atvinnu til frambúðar, skiptir máli. Ég tel að vaxtalækkanir séu ekki langt undan heldur skammt undan. Ég tel að við munum sjá fram á vaxtalækkanir þegar í næsta mánuði. Þegar eftir næstu mælingu á vísitölunni munum við sjá fram á vaxtalækkanir til viðbótar öðrum hlutum: skattalækkanir, vaxtalækkanir, styrking á gengi, lækkandi verðbólga, lítið atvinnuleysi, traustur kaupmáttur. Hver mundi ekki vera ánægður með þess háttar efnahagsástand í landi sínu?