Horfur í efnahagsmálum

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 14:07:45 (3420)

2002-01-22 14:07:45# 127. lþ. 57.94 fundur 261#B horfur í efnahagsmálum# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[14:07]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil taka upp þráðinn þar sem hann féll úr hendi hv. þm. Vilhjálms Egilssonar. Hann spyr: Hvað er að? Ég skal segja hv. þm. hvað er að. Það sem er að er verðbólga upp á hartnær 10%. Það sem er að eru vextir sem eru hér þrefalt hærri en víða annars staðar. Það sem er að voru rangar skattbreytingar vegna þess að ég tel að ef farið hefði verið að tillögum Samfylkingarinnar hefði það komið fyrirtækjum í landinu miklu betur.

Herra forseti. Ég deili því með hæstv. fjmrh. og forsrh. að það gæti verið rík ástæða til bjartsýni þegar við horfum fram á veginn. En það er blika á lofti. Hver er hún? Órói á vinnumarkaði. Af hverju stafar hann? Hann stafar af því að í maí þarf verðbólgan að vera undir ákveðnu stigi. Þegar menn fóru af stað með samráð við verkalýðshreyfingu, ríkisstjórn og atvinnurekendur í desembermánuði, töldu þeir að staðan væri talsvert öðruvísi. Nú hefur einfaldlega komið í ljós að þrýstingur á verðbólgu í pípunum er miklu meiri en menn töldu og hæstv. ríkisstjórn hefur engar áhyggjur af því. Hefur hæstv. ríkisstjórn áhyggjur af því að verðbólgan sem mældist um daginn var þrefalt hærri en fjármálastofnanir töldu? Hún var tvöfalt hærri en ég minnist að a.m.k. einstakir starfsmenn fjmrn. létu uppi. Auðvitað er þetta áhyggjuefni, herra forseti. Miðað við þær hækkanir sem yfirleitt verða á verðlagi á þessum tíma árs bendir ekkert til þess að við verðum undir þessum rauðu strikum. Hver segir það? Ekki bara formaður Samfylkingarinnar heldur segir forstjóri Þjóðhagsstofnunar að það sé ákaflega ólíklegt, og það er þess vegna sem við efnum til þessarar umræðu. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera?

Eitt getur hún gert, tekið undir með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni og þingmönnum stjórnarandstöðunnar og ráðist gegn einokun hvar sem er, ekki síst á matvælamarkaðnum. Við höfum séð að þar eru að koma upp risar sem í skjóli ríkisstjórnarinnar ætla greinilega að fara sínu fram. Hvers vegna fer ekki ríkisstjórnin í sömu föt og verkalýðshreyfingin og talar við þessa menn, talar niður þessa einokun, eins og hún er að berjast við að tala niður verðbólguna? Ég held að það gæti reynst ákaflega heilladrjúgt. Hún ætti líka að tala við sveitarfélögin.