Barnaverndarlög

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 14:12:25 (3422)

2002-01-22 14:12:25# 127. lþ. 57.1 fundur 318. mál: #A barnaverndarlög# (heildarlög) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[14:12]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til barnaverndarlaga.

Frv. var lagt fram á síðasta þingi og hlaut þá nokkra umræðu og umfjöllun en náði ekki afgreiðslu. Það er nú lagt fram í annað sinn með smávægilegum breytingum hvað varðar gildistöku og eins nokkurri breytingu á 43. gr. um að barnaverndarnefnd eða starfsmönnum hennar sé því aðeins heimilt að fara inn á heimili barns til könnunar á högum þess að fyrir liggi samþykki foreldris eða forráðamanns eða á grundvelli dómsúrskurðar.

Mikið var lagt í samningu þessa frv. Hér er um heildarendurskoðun að ræða. Forustu um endurskoðunina hafði Davíð Þór Björgvinsson prófessor og með honum unnu í þessu endurskoðunarstarfi Benedikt Bogason skrifstofustjóri, Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, Guðrún Erna Heiðarsdóttir, forstöðumaður barnaverndarráðs, Hjördís Hjartardóttir félagsmálastjóri, Hrefna Friðriksdóttir lögfræðingur, Ingibjörg Broddadóttir deildarstjóri og Þorgerður Benediktsdóttir deildarstjóri. Guðrún Erna baðst lausnar frá skipun í nefndina. Í stað hennar kom Ingveldur Einarsdóttir, héraðsdómari og formaður barnaverndarráðs. Um tíma starfaði einnig hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir með nefndinni og einnig Halla Bachmann Ólafsdóttir lögfræðingur.

Herra forseti. Helstu nýmæli í frv. eru þau að dregnar eru saman meginreglur sem leggja ber til grundvallar í öllu barnaverndarstarfi. Lögð er áhersla á réttindi barna og önnur grundvallarsjónarmið sem barnaverndaryfirvöldum ber að hafa að leiðarljósi í störfum sínum. Lagt er til mikilvægt nýmæli um að úrskurðarvald í málum vegna sviptingar forsjár flytjist frá barnaverndarnefnd til dómstóla. Gert er ráð fyrir atbeina dómstóla í fleiri tilvikum, enda sé um að ræða ráðstafanir gegn vilja foreldris. Af þessari breytingu mun enn fremur leiða aðrar breytingar svo sem sérstakir kaflar um málsmeðferð fyrir dómi og stofnun kærunefndar barnaverndarmála, en barnaverndarráð í þeirri mynd sem það er nú verður lagt niður.

[14:15]

Komið verður á fót kærunefnd barnaverndarmála. Sú breyting helst í hendur við að frumúrskurðarvald í forsjársviptingarmálum og öðrum málum sem fela í sér hliðstæða skerðingu réttinda verður hjá dómstólum. Til kærunefndar barnaverndarmála má skjóta úrskurðum barnaverndarnefnda.

Gert er ráð fyrir að sveitarstjórn skuli fyrir hvert kjörtímabil gera framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar en með því móti er stuðlað að því að sveitarstjórn setji skýr markmið og vinni að framgangi þeirra.

Lagt er til að íbúafjöldi að baki hverri barnaverndarnefnd verði ekki undir 1.500. Gert er ráð fyrir að félmrh. verði fengnar tilteknar heimildir til að hlutast til um að barnaverndarnefndir sem fullnægi skilyrðum laganna verði settar á fót.

Lagðar eru fram róttækar breytingar á framsetningu og flokkun ákvæða um ráðstafanir barnaverndarnefnda frá því sem nú er. Er það gert í því skyni að nefndunum verði gert auðveldara fyrir í vinnu sinni.

Leitast er við að gera ákvæði um upphaf barnaverndarmála mun skýrari en nú er. Gerður er skýr greinarmunur á þeirri ákvörðun barnaverndarnefndar að hefja könnun máls annars vegar og öðrum ákvörðunum sem nefndin tekur hins vegar.

Það er nýmæli að sett er sérstakt ákvæði í barnaverndarlögum sem heimilar barnaverndarnefnd að hafa afskipti af þunguðum konum. Í fyrsta lagi er lagt til að barnaverndarnefnd geti hafið rannsókn máls vegna tilkynninga sem varða þungaðar konur. Leiði rannsókn síðar í ljós að þunguð kona kunni að stofna heilsu og lífi ófædds barns síns í hættu með líferni sínu skuli barnaverndarnefnd beita úrræðum laganna. Það er tekið fram að í reynd hafi gildandi lög verið túlkuð svo að þau heimili afskipti nefndanna að einhverju leyti af slíkum málum. Í því efni má vísa til lögræðislaga. Nýmælið felst fyrst og fremst í því að um þetta atriði sé kveðið á með beinum hætti í barnaverndarlögum.

Það er nýmæli að gert er ráð fyrir að Barnaverndarstofa skuli eiga rétt á upplýsingum úr sakaskrá um menn sem hafa hlotið refsidóm fyrir brot gegn ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga ef brotið hefur beinst gegn einstaklingi undir 18 ára, þ.e. ef um er að ræða kynferðisbrot eða önnur brot gegn börnum.

Jafnframt er gert ráð fyrir að yfirmenn stofnana þar sem börn koma saman, svo sem skóla, leikskóla, sumardvalarheimila o.fl., skuli eiga rétt á upplýsingum úr sakaskrá um hvort tiltekinn maður sem sótt hefur um störf á þeirra vegum hafi hlotið dóm á grundvelli ákvæða á þessum sviðum. Lagðar eru til ítarlegri reglur um meðferð mála fyrir barnaverndarnefnd en er að finna í gildandi lögum, einnig sérstakar reglur um málsmeðferð fyrir kærunefnd barnaverndarmála. Sérstök athygli er vakin á skyldu ýmissa aðila til að láta barnaverndarnefndum upplýsingar í té.

Tveir kaflar frv. fjalla um málsmeðferð fyrir dómi. Ákvæðin eru að öllu leyti nýmæli enda hefur ekki fyrr verið gert ráð fyrir því í íslenskum lögum að barnaverndarmál væru rekin fyrir dómi. Mál sem rekin verða fyrir dómi eru ólík að eðli og er þeim því skipt í tvo flokka.

Það er lagt til að barn sem hefur náð 15 ára aldri sé aðili barnaverndarmáls. Þetta er nýmæli, mikilvægt nýmæli til að stuðla að og treysta réttarstöðu barna í barnaverndarmálum.

Lagt er til að ákvæði um fóstur verði skilgreint með öðrum hætti en er í núgildandi lögum. Með fóstri er í frv. átt við að barnaverndarnefnd feli sérstökum fósturforeldrum umsjá barns í a.m.k. þrjá mánuði. Af því leiðir að hugtakið ,,varanlegt fóstur`` er ekki lengur notað í reglum um fóstur sem er að finna í XII. kafla frv.

Lagt er til sérstakt ákvæði um réttindi barna á meðferðarheimilum og stofnunum. Með því nýmæli er leitast við að setja lagaramma um beitingu þvingunarráðstafana á öllum heimilum og stofnunum sem reknar eru á grundvelli laganna.

Þá er nýmæli að kveða sérstaklega á um að skipuleggjendum og ábyrgðaraðilum fyrirsætu- og fegurðarsamkeppna og annarra keppna af því tagi, þar sem þátttakendur eru yngri en 18 ára, sé skylt að tilkynna keppnina til Barnaverndarstofu. Þá er tekið fram að börnum yngri en 18 ára sé óheimilt að taka þátt í nektarsýningum eða öðrum sýningum af kynferðislegum toga.

Ég hef, herra forseti, rifjað upp helstu breytingarnar eða helstu nýmælin í þessu frv. Ég endurtek það sem ég hef áður sagt að í frv. var lögð geysimikil vinna af sérfróðum aðilum. Samning þess var mjög kostnaðarsöm. Ég treysti því að hér sé um mjög vandaða lagagerð að ræða.

Ég geri tillögu um að frv. verði sent hv. félmn. til athugunar þegar þessari umræðu lýkur og læt máli mínu lokið.