Barnaverndarlög

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 14:58:25 (3425)

2002-01-22 14:58:25# 127. lþ. 57.1 fundur 318. mál: #A barnaverndarlög# (heildarlög) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[14:58]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til barnaverndarlaga. Eins og komið hefur fram í umræðunni er þetta mál að koma fram í annað sinn því það var lagt fram á síðasta þingi. Hæstv. ráðherra fór yfir það í framsögu sinni hvaða helstu nýmæli eru í frv. og sömuleiðis þær smávægilegu breytingar sem gerðar hafa verið á málinu frá því að það var lagt fram í fyrra.

Ég velti því fyrir mér þegar mál eru lögð fram að nýju hvers vegna ekki eru teknir fleiri þættir inn til breytinga því að borist hafa mjög ítarlegar umsagnir og athugasemdir, sérstaklega við ákveðnar lagagreinar sem þyrfti að gera verulegar breytingar á. En það bíður þá nefndarinnar í þeirri vinnu sem hún fer nú í og heldur áfram með hvað varðar þetta frv.

Ljóst er á þeim umsögnum sem komið hafa frá fagaðilum að mjög mikið og ítarlegt starf bíður félmn. í málinu þannig að ef menn ætlast til að þetta verði klárað fyrir vorið þá get ég ekki séð að félmn. geri mikið annað en að vinna að þessu máli.

[15:00]

Þeir hv. þm. sem töluðu á undan mér hafa farið yfir ýmsa þætti sem ég hafði hugsað mér að nefna og tel því ekki ástæðu til að gera þá mikið að umtalsefni. En ég get tekið undir það, og þær athugasemdir sem hafa komið frá ýmsum aðilum hvað varðar þetta frv., að í stað þess að vera með opnar reglugerðarheimildir þá þurfi lagasetningin að vera ítarleg. Við þurfum að fara vel yfir lagasetninguna þannig að vilji löggjafans sé skýr. Gagnrýni hefur t.d. komið fram frá umboðsmanni barna og ýmsum öðrum aðilum, t.d. barnaverndarráði, á 82. gr. sem fjallar um réttindi barna og beitingu þvingana. Menn gagnrýna að þar sé allt of opin reglugerðarheimild. Einnig hefur verið bent á að skoða í sambandi við 82. gr. nýlegt álit umboðsmanns Alþingis 2805/1999 um agaviðurlög sem hefur komið hér fram í sérriti.

Ég get nefnt það hér að þingflokkur Samfylkingarinnar fór á fund umboðsmanns Alþingis. Þar fórum við aðeins yfir þessi mál og fengum þetta rit. Ég held að nauðsynlegt sé að félmn. skoði þetta sérstaklega. Ef formaður nefndarinnar er nokkuð að hlusta á þessa umræðu þá þætti mér vænt um að hann tæki það til athugunar. En mér sýnist nú að hann sé ekki að því. Það er greinilega einhver sérstakur fundur þarna í horninu. Ég bíð bara þangað til hann er búinn.

Ég var að beina því til formanns nefndarinnar að full ástæða væri til þess að skoða nýlegt álit umboðsmanns Alþingis um agaviðurlög í sambandi við 82. gr. í frv., en þar er farið mjög ítarlega yfir þessa þætti --- það álit er reyndar í sambandi við réttarstöðu afplánunarfanga í meðferð hjá fangelsisyfirvöldum --- og ég tel að það væri mjög gagnlegt að við skoðuðum þetta um leið og við færum yfir frv.

Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir kom inn á marga mjög gagnlega þætti sem við þurfum að skoða í vinnu nefndarinnar. Hún benti á hugleiðingar Valborgar Snævarr. Ýmislegt slíkt efni tel ég að við þurfum að kynna okkur og fara yfir í sambandi við þessa vinnu og vil benda á grein sem Ragnheiður Thorlacius, varaformaður barnaverndarráðs, skrifar í nýjustu ársskýrslu barnaverndarráðs um neyðarráðstafanir, þ.e. það sem varðar 31. gr. Ég held að við ættum einmitt að skoða þessa grein hennar í sambandi við endurskoðun á 31. gr. og hvernig við getum gert hana betur úr garði.

Líka hafa verið skiptar skoðanir um atriði í II. kafla um yfirstjórn barnaverndarmála, þ.e. hlutverk Barnaverndarstofu. Barnaverndarstofa hefur bæði leiðbeiningarhlutverk og eftirlitshlutverk og full ástæða er til að velta því fyrir sér hvort það samræmist sjónarmiðum um góða stjórnsýsluhætti. Þetta er atriði sem við þurfum að skoða í nefndinni þegar málið kemur þangað. Ekki er fráleitt að e.t.v. þurfi eftirlit með starfi barnaverndarnefnda að vera markvissara og öflugra. Hlutverk Barnaverndarstofu er mjög stórt og mikið sem e.t.v. samræmist ekki því.

Á kærunefndinni og IX. kafla frv. hafa komið fram þær skoðanir frá þeim sem hafa starfað hjá barnaverndarráði að nauðsynlegt sé að kærunefndin hafi sjálfstæða heimild til gagnaöflunar. Bent hefur verið á ýmis atriði sem snúa að því, þ.e. sem snúa að 52. gr., og ég held að við þurfum einnig að skoða það atriði vel. Ég get fallist á ýmislegt sem kemur fram hjá þeim sem hafa starfað að þessum málum, t.d. það að mjög mikilvægt er að í kærunefndinni sitji hæfustu sérfræðingar á þessu sviði. Þeir eru auðvitað best fallnir til þess að meta gögn og upplýsingar og þá hvaða upplýsingar vantar, hvaða sérfræðinga þurfi að kalla til o.s.frv. Síðan má gera ráð fyrir að þau gögn sem kærunefndin kallar til sjálf verði frekar unnin af hlutlausum aðilum, þ.e. þeim sem ekki eru tengdir málinu, en einnig hefur komið fram í umræðunni að barnaverndarnefndir hafa ekki á að skipa sérfræðingum til að vinna þessi störf og e.t.v. ekki fjármagn heldur. Einnig mætti ætla að ef gagnaöflunin verður ekki á höndum kærunefndarinnar yrði málsmeðferðartíminn lengri.

Mig langar til að nefna fleiri atriði sem athugasemdir hafa verið gerðar við í umsögnum, þ.e. þau sem varða upplýsingar úr sakavottorðum. Persónuvernd hefur t.d. gert athugasemdir við það að þeir sem reka stofnanir eða eru með atvinnurekstur í þessa veru geti kallað eftir upplýsingum úr sakaskrá um starfsmenn. Þeir benda á ágæta leið sem er mun farsælli og það er að ef auglýst verður eftir starfsfólki í þessi störf þá verði óskað eftir því að umsókn fylgi hreint sakavottorð og að umsóknir verði ekki teknar til greina nema það fylgi. Ýmis svona atriði sem koma fram í umsögnum tel ég að við þurfum að skoða.

Einnig kom fram hvort ekki væri full ástæða til þess að hafa orðskýringar í lögunum og m.a. um --- mig minnir að það hafi verið í umsögn frá Stuðlum --- hvað refsing þýðir þar. Bent er á hvaða úrræðum þurfi að beita á Stuðlum þar sem ungmenni eru oft vistuð gegn vilja sínum og þarf að beita ýmsum úrræðum vegna þess. Ég held að við þurfum að taka tillit til ýmissa atriða sem koma fram í umsögn frá Stuðlum en koma ekki fram í frv.

Ég minntist í upphafi á að heimild til reglugerðar er of rúm í sambandi við 82. gr. og ég efast um að lagastoð sé fyrir í greininni eins og hún er. Alla vega hef ég efasemdir um að þau atriði sem talin eru upp að eigi að vera í reglugerð ættu að vera þar, heldur að þau ættu að vera í lögunum. Það er mun skýrara en að vísa öllu til reglugerða, sérstaklega varðandi það sem snýr að agaviðurlögum og þvingunarúrræðum.

Ég get tekið undir að við verðum að hafa að leiðarljósi að hagsmunir barnsins verða að vera í fyrirrúmi.

Ýmis önnur atriði hafði ég hugsað mér að nefna. Ég vil taka undir að við þurfum að skoða rækilega umsögnina frá Ljósmæðrafélaginu, sem hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir benti á í ræðu sinni á undan mér. Sömuleiðis vantar vilja löggjafans í sambandi við aðgang barna að dansleikjum og skemmtunum, t.d. dansleikjum án áfengisveitinga, því að í 58. gr. er ekkert ákvæði um aðgang barna að dansleikjum án áfengisveitinga. En í áfengislögum er kveðið á um að börnum yngri en 18 ára sé ekki heimilt að fara inn á slíka staði án fylgdar foreldra sinna. Það þarf að koma fram hver vilji löggjafans sé um aðgang barna að dansleikjum, skemmtunum, útihátíðum o.s.frv., og það þarf auðvitað að koma í 58. gr.

Ýmis atriði ættum við því að skoða og ég hef tæpt á nokkrum. Fjölmörg önnur atriði ætti að nefna hér, en ég tel ástæðulaust að hafa 1. umr. mjög langa. Ég á sæti í nefndinni og get því komið frekari athugasemdum mínum að í vinnunni þar. En ég hef bent hér á nokkur atriði og ég læt máli mínu lokið að sinni um þetta frv.