Barnaverndarlög

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 15:32:49 (3427)

2002-01-22 15:32:49# 127. lþ. 57.1 fundur 318. mál: #A barnaverndarlög# (heildarlög) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[15:32]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum í annað sinn frv. til barnaverndarlaga sem hefur fengið mjög vandaða umfjöllun í hv. félmn.

Áður en ég fjalla um frv. vil ég geta þess að í flestum fjölskyldum er samband barna við foreldra sína með miklum ágætum sem og við aðra í fjölskyldunni. Þau mál sem við ræðum um hér eru sem betur fer undantekningar og eiga við hjá minni hluta fjölskyldna. Þetta eru engu að síður vandasömustu samskiptin sem ríkisvaldið á við borgara sína. Þetta eru mjög persónuleg mál, persónulegir harmleikir, sem um er að ræða. Þess vegna er mjög mikilvægt að vandað sé vel til mála þegar þetta frv. er rætt.

Frv. rekst m.a. á mannréttindi, þ.e. friðhelgi heimilisins og fjallar um lokuð mál, mál sem eðli sínu samkvæmt eru lokuð. Upplýsingar liggja ekki fyrir um þau mál og geta þar af leiðandi verið mjög hættulegar, sérstaklega ef framkvæmdin er ekki í samræmi við lög og reglur. Þess vegna er mikilvægt að vanda vel til verka.

Á undanförnum áratugum hefur fjölskyldan minnkað hratt og breyst. Fyrir einni öld samanstóð fjölskyldan iðulega af afa og ömmu, föður og móður og börnum á heimili, jafnvel vinnufólk og börn þess. Síðan minnkaði fjölskyldan niður í foreldra og börn og nú er svo komið að stór hluti þjóðarinnar eru einstæðir foreldrar. Það eru miklar sviptingar í hinum almennu fjölskyldum. Þegar fjölskylda leysist upp verður oft og tíðum mjög dapurlegur skilnaður barns og foreldris sem ekki er rætt um í þessum lögum. Það mætti kannski ræða dálítið betur. Barnið skilur að sjálfsögðu ekki að faðir þess eða móðir vilji ekki þekkja það lengur vegna þess að þeim sem í hlut á er illa við hitt foreldrið. Þetta eru því miður allt of algengt.

Ég ætla við 1. umr. að ræða lauslega um nokkur atriði frv. Ég er sammála því sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir gat um, að við þurfum almennt að minnka reglugerðarheimildir í lögum og hafa lögin skýrari. Þó að það kosti meiri vinnu er hættulegt að framselja mikið af valdi til framkvæmdarvaldsins.

Ég ætla að byrja á því að ræða um agavandamál í skólum og á heimilum. Þau eru vandi kennara og foreldra en líka barna. Ég ræddi við ungling fyrir skömmu sem skipti um skóla vegna þess að hann þoldi ekki agaleysið, óreiðuna og hávaðann í skólanum sem hann var áður í. Agavandinn er því ekki bara vandi foreldra og kennara, uppalenda, heldur líka barnanna, ekki síður og kannski hvað mest. Kannski líða þau mest fyrir skort á reglum og aga. Þess vegna þykir mér undarlegt að í markmiðssetningunni sé talað um rétt barna en engar skyldur, og skyldur foreldra en engan rétt. Ég vil að hv. félmn. hugleiði hvort ekki megi koma inn í markmiðin t.d. að börn skuli hlýða foreldrum sínum, fara að þeim reglum sem gilda á heimilinu og hafa þær skyldur að hlýða foreldrum sínum og fara eftir reglum í samræmi við aldur og þroska. Það er með ólíkindum að unglingar telji sér ekki skylt að fara að reglum heimilisins og þurfa ekki að hlýða foreldrum sínum en njóta samt allrar framfærslu af þeirra hendi.

Maður heyrir æ oftar að börn vísa í lög og reglur, jafnvel umboðsmann barna, og hóta að kæra vegna þess að þau eigi bara rétt, engar skyldur. Ég vil að hv. nefnd skoði hvort ekki sé rétt að leggja einhverjar skyldur á börnin. Þetta tengist nefnilega líka agavandamálum í skólunum og agavandamálum á heimilunum. Standi eingöngu í lögunum að börn eigi rétt en engar skyldur og foreldrar eigi skyldur en engan rétt leiðir það til þess sem ég gat um.

Síðan vantar í þetta frv., sem að öðru leyti er verulega gott, ákvæði um skyldur annarra uppalenda. Það eru bara lagðar skyldur á foreldra í markmiðssetningunni. Í frv. er ekki fjallað um skyldur kennara, fóstra og ættingja sem koma að uppeldi barna. Ég vildi gjarnan að líka yrði skoðað, að slíkar skyldur yrðu teknar upp.

Síðan má ég til með að nefna 21. gr. og 30. gr. þar sem ráðist er mjög hastarlega að einstaklingnum með rökum, að sjálfsögðu eins og alltaf. Þar stendur að ef þunguð kona kunni að stofna heilsu sinni í hættu og ófædds barns síns megi grípa inn í og gera ráðstafanir, jafnvel þvinga hana gegn vilja hennar. Það er jafnvel hægt að ganga svo langt að þvinga konu, t.d. í meðferð, áfengismeðferð, til verndar barni sem hún má samkvæmt lögum eyða. (ÞBack: Ekki eftir ákveðið langa meðgöngu.) Undir ákveðnum tíma gilda þau lög fyrir konuna að það má þvinga hana til að vernda barn sem þó má eyða samkvæmt lögum.

Ég veit að það er góður vilji í hv. félmn. til að vinna vel að þessu máli. Ég treysti því að þær umsagnir sem komu fram verði skoðaðar mjög vel. Ég mun leggja mitt af mörkum en ég á sæti í þeirri nefnd.