Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 15:55:23 (3432)

2002-01-22 15:55:23# 127. lþ. 57.2 fundur 378. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (rekstrarform og arðgreiðslur) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[15:55]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir litlu frv. um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga.

Þetta frv. er samið í félmrn. og í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Það hefur tvíþætt markmið. Annars vegar er lagt til að sveitarfélagi verði veitt fullt vald til að ákveða hvaða rekstrarform það hefur á vatnsveitu sem það rekur. Hins vegar er lagt til að eiganda vatnsveitu verði heimilað að áskilja sér arðgreiðslur sem numið geti allt að 7% af eigin fé vatnsveitunnar.

Ákvæði 1. gr. frv. er ætlað að tryggja samræmi við frv. til raforkulaga sem iðnrh. hyggst leggja fram og kynnt var á 126. löggjafarþingi, þar sem mælt er fyrir um að öll raforkufyrirtæki skuli vera sjálfstæðir lög- og skattaðilar. Þess eru nokkur dæmi að sveitarfélög reki í einu fyrirtæki eða stofnun héraðsrafmagnsveitu, hitaveitu og vatnsveitu. Ætla má að á næstu árum muni þessi fyrirtæki og stofnanir sveitarfélaga taka þátt í samkeppnisrekstri á sviði raforkuframleiðslu og verður þeim þá skylt að halda þeim hluta starfsemi sinnar aðskildum frá rekstri sem þau eiga einkarétt á, þar á meðal rekstri hitaveitu og vatnsveitu. Engu að síður kann að vera hagkvæmt að reka allar þessar veitur í einu fyrirtæki eða stofnun.

Í núgildandi 1. mgr. 2. gr. laganna er mælt fyrir um að sveitarstjórn skuli fara með stjórn vatnsveitu í sveitarfélagi. Hefur ákvæðið verið túlkað svo að vatnsveita skuli annaðhvort vera hluti af sveitarsjóði eða rekin sem B-hluta stofnun í eigu sveitarfélags, sbr. 60. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Er sveitarfélagi því ekki heimilt að reka vatnsveitu í formi sameignarfélags eða hlutafélags. Í 3. gr. laganna er hins vegar ákvæði sem heimilar sveitarstjórnum að leggja og reka sameiginlega vatnsveitu og er sveitarstjórnum þá jafnframt heimilt að gera með sér samkomulag um með hvaða hætti veitan skuli lögð og rekin. Í 1. gr. frv. er lagt til að orðalag 2. gr. laganna verði fært til samræmis við orðalag 3. gr. og þar með verði sveitarfélagi í sjálfsvald sett að ákveða rekstrarform vatnsveitu. Með því að gefa rekstrarform vatnsveitna í eigu sveitarfélaga frjálst er verið að koma í veg fyrir að skipta verði veitufyrirtækjum stofnana upp í fleiri en eitt fyrirtæki eða stofnanir.

Herra forseti. Í 2. gr. frv. er lagt til að bætt verði inn í lögin heimild fyrir sveitarfélögin til að áskilja sér allt að 7% arð af eigin fé vatnsveitu. Greinin er að mestu efnislega samhljóða 1. og 2. gr. laga nr. 78/2001, um breytingu á orkulögum, nr. 58/1967, með síðari breytingum, sem samþykkt var á 126. löggjafarþingi. Greinin er einnig í samræmi við 5. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, þar sem segir að sveitarfélög skuli setja sér stefnu um arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið í rekstri fyrirtækja sinna og stofnana og þeim sé heimilt að ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem bundið sé í rekstri þeirra. Var því ákvæði ætlað að skjóta stoðum undir framkvæmd sem tíðkast hafði um árabil í rekstri sveitarfélaga þótt ótvíræða lagaheimild til þess hefði vantað í löggjöfina. Í áliti meiri hluta félmn. með frv. sem varð að lögum nr. 45/1998, þ.e. sveitarstjórnarlögunum, segir enn fremur að einnig þurfi að gera breytingar á ákvæðum ýmissa sérlaga til að tryggja enn frekar heimildir sveitarfélaga til að ákveða arðgreiðslur frá fyrirtækjum sem alfarið eru í eigu sveitarfélaganna og rekin eru á þeirra ábyrgð. Í samræmi við þessi sjónarmið er lagt til í 2. gr. frv. að sett verði skýr almenn heimild um arðgreiðslur vatnsveitna, líkt og þegar hefur verið gert í orkulögum varðandi rafveitur og hitaveitur.

Herra forseti. Þetta mál er tiltölulega einfalt. Ég óska eftir því að það verði að lokinni þessari umræðu sent hv. félmn. til athugunar.