Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 16:05:20 (3436)

2002-01-22 16:05:20# 127. lþ. 57.2 fundur 378. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (rekstrarform og arðgreiðslur) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[16:05]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, með síðari breytingum. Þetta er lítið frv. þar sem verið er að opna fyrir önnur rekstrarform á vatnsveitum, þ.e. að gefa formið á rekstrinum frjálst, eins og kemur fram í greinargerð með frv.

Hér er verið að gera breytingar í samræmi við breytingar á raforkulögum. Gerðar hafa verið breytingar á hinum ýmsu fyrirtækjum eins og Orkuveitunni í Reykjavík sem er sameignarfélag, og aðrar veitur hafa verið gerðar að hlutafélögum. Þetta er lagabreyting sem er í samræmi við aðra lagabreytingu sem hefur verið gerð í þinginu. Ég held að þetta sé eðlileg þróun þar sem verið er að laga lagaumhverfið að breytingum sem hafa orðið í samfélaginu og ég óttast ekki að við séum að gera neina vitleysu með þessu.

Hér voru ágætis vangaveltur um mikilvægi vatns og ég tek undir þær. Gott vatn er gulls ígildi og ekki eru allar þjóðir eins ríkar af vatni og við. Ég tek undir það. En ég get ekki séð annað en að þessi lagabreyting sé fullkomlega eðlileg.

Í 2. gr. er verið að heimila eiganda vatnsveitu að taka allt að 7% arð af eigin fé vatnsveitunnar. Sömuleiðis tel ég það vera eðlilega lagabreytingu. Ég geri því ekki athugasemdir við frv. En við munum auðvitað skoða þetta nánar í félmn. þegar málið kemur þangað.