Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 16:07:48 (3437)

2002-01-22 16:07:48# 127. lþ. 57.2 fundur 378. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (rekstrarform og arðgreiðslur) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[16:07]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil hreyfa sjónarmiðum varðandi þetta mál sem ég tel að eigi fullt erindi inn í umræðu og umfjöllun þingsins um þetta mál. Þó það sé ekki stórt í sniðum og því ekki tilefni til að gera um það stóran ágreining er eftir sem áður lagt til að hreyfa í málinu annars vegar ákvæðum um rekstrarform og hins vegar um gjaldtöku. Sérstaklega er það síðara umfangsmikið og lýtur að þeim sem fá reikninginn sendan. Því þykir mér ástæða til að fara um það mál nokkrum orðum.

Ég vil rifja upp að í lögum um vatnsveitur eru ákvæði í 1. gr. um að sveitarfélögum sé skylt að reka vatnsveitur. Þeim er lögð sú skylda á hendur að útvega íbúum sveitarfélagsins og atvinnufyrirtækjum vatn til sinna þarfa þannig að á sveitarfélögin eru lagðar þær skyldur að hafa vatnið til staðar og reka vatnsveitur. Með öðrum orðum, hér er um að ræða félagslega skyldu sem falin er stjórnvaldi.

Í öðru lagi, á móti þeirri skyldu, til þess að auðvelda sveitarfélaginu að sinna henni, er í 5. gr. gildandi laga sveitarfélaginu veittur einkaréttur til þess að reka vatnsveitu og selja vatn þannig að sá sem fær skylduna fær líka réttinn, einkaréttinn til þess að selja vatnið og afla tekna.

Í þriðja lagi eru ákvæði í 7. gr. laganna sem kveða á um hversu mikið gjald megi innheimta af þeim sem nota vatnsveitu. Þar er mjög skýrt tekið fram að sveitarstjórninni sé heimilt að taka vatnsgjald sem skal við það miðað að það standi undir stofnkostnaði og rekstri veitunnar, eðlilega, því hér er ekki um að ræða atvinnurekstur í ábataskyni í samkeppnisumhverfi heldur þörf sem stjórnvaldi er falið að uppfylla, veittur einkaréttur til þess að starfrækja veituna og veittur réttur til að afla tekna til að standa undir kostnaðinum við að veita þessa þjónustu.

Þannig er það og auðvitað má velta fyrir sér hvort ástæða sé til að breyta þessu. Eru uppi þær aðstæður í þjóðfélaginu að rétt sé að breyta lögunum og t.d. taka af sveitarfélögunum, létta af þeim þeirri skyldu að reka vatnsveitu? Niðurstaða félmrh. er að það sé ekki rétt, að nauðsynlegt sé að sveitarfélögin séu áfram skyldug að reka vatnsveitu og að þau hafi áfram einkaréttinn á að reka vatnsveituna. Með öðrum orðum er niðurstaðan að lokinni athugun málsins sú að ekki séu uppi neinar þær breytingar í þjóðfélaginu að þessu leytinu til sem kalli á að menn geti leyst úr þessu verkefni út frá venjulegum forsendum atvinnurekstrar í samkeppnisumhverfi.

Vilji menn fara að reka veituna í ábataskyni er auðvitað forsenda þess að þá sé einhver samkeppni og að sá sem fær reikninginn eigi einhvern valkost og geti snúið sér annað og keypt þjónustuna af öðrum aðila en þeim sem rekur veituþjónustuna í dag.

Ég tel ekki að saman fari að vera með fyrirkomulag einokunar annars vegar og hins vegar fyrirkomulag hlutafjárreksturs með arðsemissjónarmið að leiðarljósi eins og verið er að opna fyrir í frv., þ.e. að veita sveitarfélögunum þann möguleika að breyta vatnsveitunum í hlutafélög og reikna sér arð af hlutabréfunum allt að 7% af eigin fé veitunnar. Ég tel ekki að það fari saman að vera með arðsemissjónarmið í einokunarumhverfi af þeirri einföldu ástæðu að sá sem á að borga reikninginn á engan valkost. Hann getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér og neitað að borga reikninginn.

Ég er út af fyrir sig tiltölulega opinn fyrir þeim viðhorfum að ýta undir það að aðrir fari að reka vatnsveitur. Það getur vel verið að það sé ekkert óvitlaust að stuðla að því að fleiri reki vatnsveitur en sveitarfélög, enda leggi þeir þá sín eigin dreifikerfi og keppi við hinn aðilann sem er fyrir. Miðað við samkeppnissjónarmiðin er ekkert úr vegi, a.m.k. fyrir fram, að ætla að það geti ekki orðið þeim til góðs sem eiga að borga reikninginn að samkeppni komist á. En ég sé engin teikn uppi um að það sé á döfinni. Og á meðan svo er finnst mér ósanngjarnt gagnvart þeim sem eiga að greiða reikninginn að opna fyrir það í lögunum að reka megi vatnsveituna eins og fyrirtæki á arðsemisgrundvelli sem er að starfa í samkeppnisumhverfi.

Ég vildi koma þessum sjónarmiðum að í málinu því að í raun þegar allt er dregið saman er efni frv. bara eitt, að auka möguleika sveitarfélaga til að taka meiri peninga af þeim sem eru viðskiptavinir vatnsveitunnar. Ekkert annað felst í þessu frv. Sveitarfélögunum er veittur möguleiki til að hækka gjaldskrána þannig að hún standi ekki bara undir stofnkostnaði og rekstri heldur líka 7% arðsemiskröfu af eigin fé. Ég er ekki sammála því að veita þessa heimild og ég vil láta þau sjónarmið koma hér fram með þeim rökstuðningi sem ég hef fært fram í málinu.

[16:15]

Hinu er ekki að neita að hæstv. félmrh. hefur sitthvað til síns máls eftir sem áður. Það hafa verið gerðar breytingar á öðrum sviðum í veitukerfi með þessi sjónarmið að leiðarljósi, og Alþingi getur ekki neitað að það hefur fallist á það að sumu leyti. En það breytir því ekki að eftir sem áður, að mínu viti, verðum við að vera alveg klár á því til hvers við ætlumst af sveitarfélögunum og hvaða möguleika þau hafa til að bera þær skyldur sem þeim eru faldar. Og ég er ósammála því að það eigi að reka sveitarfélög á arðsemisforsendum.

Ég sé engar forsendur fyrir því að sveitarfélag sé að reka veitukerfi eða einhvern annan rekstur með arðsemissjónarmið að leiðarljósi. Ef það er orðið leiðarljósið á sá rekstur að fara á almennan atvinnurekstur og ekki að vera á höndum sveitarfélaga. Eða hvernig ætla menn að fara að því að skoða annað í rekstri sveitarfélaga sem við leggjum á þeirra herðar í dag, að veita íbúum sínum þjónustu, eins og rekstur áhaldahúss? Á að veita sveitarfélögum heimild til þess að reikna sér 7% arð og hver á að borga reikninginn? Rekstur félagsþjónustu, á að gera það upp sérstaklega með arðsemissjónarmið að leiðarljósi? Rekstur félagslegra íbúða sem nú er í tísku að færa undir sérstök hlutafélög, eins og Reykjavíkurborg var frumkvöðull að --- á að veita sveitarfélögunum heimild til að reikna sér arð af bundnu fé í þeim félögum?

Ég held að þegar þetta mál er flutt sé alveg fullt tilefni til að menn velti þessu fyrir sér og geri upp við sig hvaða stefnu menn ætla að taka almennt í gjaldskrárheimildum sveitarfélaga varðandi þá þjónustu sem þeim er skylt að veita.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið en ég hef þegar gert. Ég hef fært fram þau sjónarmið sem ég vildi að kæmust að í þessari umræðu og vænti þess að hv. félmn. fjalli um málið með þessum hætti, a.m.k. að einhverju leyti, horfi á það með víðtækari hætti en frv. eitt og sér gefur tilefni til því að mér finnst fyllsta ástæða til þess að stefnumörkunin verði tekin til umfjöllunar í tilefni af þessu frv.