Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 16:36:33 (3442)

2002-01-22 16:36:33# 127. lþ. 57.2 fundur 378. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (rekstrarform og arðgreiðslur) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[16:36]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að láta stilla mér þannig upp í þessari umræðu að ég sé fylgjandi breytingum á hitaveitu- eða orkumálum sem ég hef aldeilis ekkert skrifað upp á og ekki endilega mælt með, t.d. því að knýja Ísland inn undir orkutilskipun Evrópusambandsins sem við áttum auðvitað ekkert erindi með. Það var algjört axarskaft og mistök af hálfu þeirra sem voru í forsvari fyrir Ísland að reyna ekki að fá Ísland undanþegið, enda erum við ekki hluti af samtengdum orkumarkaði í Evrópu. Það er síðan notað sem rök fyrir því að einnig verði að einkavæða kaldavatnsveitur, m.a. af því að e.t.v. hafi einhver sveitarfélög blandað þessu saman í rekstrinum. Ég kaupi það bara ekki.

Ég er ekki að tala hér af einhverri vandlætingu um sveitarfélögin, sveitarstjórnarmenn eða vantreysta því að þeir reyni að vinna verk sín vel. Við verðum náttúrlega að setja allt tal um sjálfstæði sveitarfélaga og sjálfsákvörðunarrétt í það samhengi að við erum löggjafi og setjum líka sveitarfélögunum lög. Það hafa gilt um þetta lög. Ég veit ekki til þess að það hafi verið til stórfelldra vandræða eða t.d. að um það hafi verið sérstakur ófriður að vatnsveitur væru skilgreindar sem skyldubundin þjónusta sveitarfélaganna við íbúa sína. Það er viss munur á þeim, þ.e. kaldavatnsveitunum og síðan aftur hitaveitunni, sem er orkudreifing, og svo aftur almennum orkufyrirtækjum sem oft hafa breiðari starfsgrundvöll undir, blandaðri starfsemi og blandaðri hagsmuni en hreinar og klárar vatnsveitur.

Ég bakka því ekki fet, herra forseti, með að það er ástæða til að fara rækilega í saumana á þessu frv. og skoða hvort skynsamlegt sé að breyta fyrirkomulaginu sem verið hefur og ef svo er, hvernig eigi þá að gera það. Það þarf að skoða í samhengi við hlutverk sveitarfélaganna og skyldur þeirra við íbúa sína.