Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 16:46:49 (3445)

2002-01-22 16:46:49# 127. lþ. 57.2 fundur 378. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (rekstrarform og arðgreiðslur) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[16:46]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þetta hefur verið dálítið undarleg umræða.

Þetta frv. er flutt í samráði við sveitarfélögin í landinu. Það er reyndar ekki einhlítt að vatnsveitur séu í eigu sveitarfélaga og það er ekki skylda sem öll sveitarfélög uppfylla að leggja vatnsleiðslur til notenda eða á öll heimili. Ég á t.d. hlut í vatnsveitu og ber kostnað af henni. Sveitabæir eru flestir með eigin vatnsveitu eða sameinast um vatnsveitu og þar kemur sveitarfélagið ekki að. Ég ber kostnað af viðhaldi vatnsveitunnar sem ég á hlut í og bar kostnað af því að koma henni upp.

Kalt vatn er ekki ókeypis. Það er reiknað til verðs frá sveitarfélaginu og það er í fasteignaskattinum. Hluti af fasteignaskattinum er vatnsgjald. Mér fyndist rangt að banna Reykjavík að taka arð af hitaveitu. Það fyndist mér rangt. Reykjavík hefur um langt árabil tekið arð af hitaveitunni. Sveitarfélögunum í landinu veitir ekkert af tekjustofnum. Það er svo önnur saga.

Ég vil leiðrétta það að ekkert sveitarfélag í landinu er í gjörgæslu. Því fer fjarri sem betur fer. Hins vegar hefur lögum samkvæmt eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga snúið sér til nokkurra sveitarfélaga, rúmlega 30 sveitarfélaga, til að fá útskýringar á því hvernig þau hyggist reka sig og hvernig þau hyggist greiða úr skuldamálum sínum, hvernig þau hyggist auka framlegð. Þetta eru fyrirspurnir sem sendar eru sveitarfélögunum og ekki má slá því upp, eins og mér virðist sem fréttamenn hafi gert, að þessi sveitarfélög séu komin í einhverja voðalega þröng.

Ég þekki til nokkurra sveitarfélaga sem fengu þessa fyrirspurn. Eitt lítið sveitarfélag var nýbúið að leggja í hitaveitu, stórkostlega framkvæmd, í fyrra. Það fékk fyrirspurn. Annað sveitarfélag sem ég þekki náið til í varð að kaupa hlutabréf í útgerðarfyrirtæki beinlínis til þess að missa ekki kvótann. Það skuldsetti sig stórkostlega fyrir það. En það er enginn háski í því sveitarfélagi. Enginn efnahagslegur háski steðjar að því.

Eitt sveitarfélag, sem ég þekki nú kannski allra best, fékk aðvörun. En það er líka búið að koma sínum fráveitumálum í lag eða svo til og búið að verja í fráveitumál á annað hundrað milljónir og ég hugsa að það sé næstbest statt af sveitarfélögum í landinu að því leyti til.

Svona atriði geta komið til og geta orðið þess valdandi að sveitarfélögin fái bréf. Sum hafa að vísu farið glannalega, því miður, og ráðist í fjárfestingar sem þau hafa ekki ráðið við og hafa lent í þröng þess vegna.

Ég tel að ef sveitarfélög telja sig hafa hagræði af því að reka saman vatnsveitu, hitaveitu og rafveitu þá eigi að heimila þeim það. Annað væri bara fjarstæða. Ég tel líka að það eigi að leyfa fleiri en einu sveitarfélagi, ef þeim þykir það henta, að eiga og reka saman veitur. Þessi dæmi eru fyrir hendi og ég sé enga ástæðu til að fara að banna þeim það eða leggja stein í götu þeirra við að ná fram hagræði fyrir íbúa sína og ég tel eðlilegt að veita þeim það frelsi að þau geti tekið hóflegan arð af þessum framkvæmdum.