Flokkun og mat á gærum og ull

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 16:52:39 (3446)

2002-01-22 16:52:39# 127. lþ. 57.3 fundur 293. mál: #A flokkun og mat á gærum og ull# (ullarmat) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[16:52]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. 358. Um er að ræða frv. til laga sem mun hafa í för með sér breytingu á lögum nr. 57/1990, um flokkun og mat á gærum og ull, með síðari breytingum.

Með frv. þessu er stefnt að því að leggja niður starf eftirlitsmanns með ullarmati sem starfar á grundvelli 6. gr. laga nr. 57/1990, um flokkun og mat á gærum og ull, með síðari breytingum. Samkvæmt þessu ákvæði ber landbrh. að ráða eftirlitsmann með ullarmati samkvæmt tillögu ullarmatsnefndar og skal hann hafa sérþekkingu á því sviði. Þessu eftirliti hefur fylgt töluverður kostnaður sem hefur verið greiddur úr ríkissjóði á grundvelli 7. gr. laganna.

Markaðir fyrir ull hafa dregist saman hér á landi á undanförnum árum og kaupendum ullar hefur fækkað. Ullarverð hefur verið lækkandi og hefur verið í lágmarki síðustu árin. Kostnaður við ullarsöfnun hefur aftur á móti verið mikill og hefur ekki lækkað í samræmi við lækkun ullarverðs. Leitað hefur verið leiða til þess að lækka þann kostnað eins og unnt er.

Samkvæmt lögum nr. 57/1990 er gert ráð fyrir að löggiltir ullarmatsmenn annist mat á ull. Jafnframt er þar gert ráð fyrir að með reglugerð sé unnt að skylda afurðastöðvar og söluaðila, þar með taldar sútunarverksmiðjur, til að hafa á sinn kostnað í þjónustu sinni löggilta matsmenn til að framkvæma mat á ull samkvæmt lögunum og að sjá þeim fyrir aðstöðu til að framkvæma matið. Mati þeirra er heimilt að skjóta til sérstakra kærunefnda sem einnig starfa á grundvelli laganna og eru skipaðar af landbrh.

Starf eftirlitsmanns með ullarmati, eins og nafnið gefur til kynna, er fólgið í að hafa eftirlit með störfum löggiltra ullarmatsmanna sem starfa á grundvelli laganna og að leggja mat á störf þeirra og gæði þeirrar ullar sem fer á markað. Hér á landi er einungis einn kaupandi ullar af framleiðendum en ullarverðið er verð sem byggist á samningum milli Bændasamtaka Íslands og kaupandans á hverjum tíma. Þessi kaupandi hefur haft í þjónustu sinni matsmenn samkvæmt framangreindum ákvæðum vítt og breitt um landið og hefur reynslan sýnt að mat þeirra uppfyllir í meginatriðum þær kröfur sem markaðurinn gerir til vörunnar. Einnig er gert ráð fyrir að framangreind kæruheimild til kærunefnda verði áfram til staðar í lögunum ef ágreiningur rís um ullarmatið, eins og ég gat um hér áðan. Í samræmi við það er ekki lengur talið nauðsynlegt að hafa eftirlitsmann með ullarmati starfandi með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í núgildandi lögum. Í frv. þessu eru því lagðar til breytingar sem hafa í för með sér að starf eftirlitsmanns með ullarmati skv. 6. gr. laganna verður lagt niður. Ef afurðastöðvar eða aðrir aðilar vilja halda uppi eftirliti með ullarmatinu er þeim að sjálfsögðu heimilt að ráða sér slíkan eftirlitsaðila á eigin kostnað.

Á fylgiskjali með frv. þessu er að finna kostnaðarumsögn fjmrn. um frv. og læt ég nægja að vísa þangað. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir frv. og athugasemda með frv.

Hæstv. forseti. Frv. þetta er lagt fram í þeim tilgangi að draga úr kostnaði við ullarsöfnun og aðlaga hann betur að því verði sem fæst fyrir ullina hér á landi svo og að draga úr útgjöldum ríkissjóðs í samræmi við breytta tíma í íslensku þjóðfélagi þar sem ekki er lengur þörf fyrir þá þjónustu sem fólgin er í starfi eftirlitsmanns með ullarmati.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.