Flokkun og mat á gærum og ull

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 16:57:07 (3447)

2002-01-22 16:57:07# 127. lþ. 57.3 fundur 293. mál: #A flokkun og mat á gærum og ull# (ullarmat) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[16:57]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum um flokkun og mat á gærum og ull. Þetta frv. kemur í raun ekki til af góðu þar sem ullariðnaðurinn í landinu hefur náttúrlega beðið mikinn hnekki á síðustu árum og er það af ýmsum ástæðum. Þessar breytingar eru því óhjákvæmilegar. Starfssvið þessara aðila sem um getur er náttúrlega orðið miklu minna.

Hins vegar er dapurlegt hvað bændur fá lítið verð fyrir ullina. Það sem ég hugsa um í þessu sambandi er hvort það verði alveg tryggt að bændur geti haft eitthvað um það að segja eða eigi einhvern ákveðinn fulltrúa sjálfir þegar verið er að selja ullina. Alveg eins og þegar verið er að selja aðra vöru þá hafa menn ákveðna hugmynd um hversu góð varan er og hvaða gæði hún ber í sér.

Er mikil ull í landinu hreinlega ekki unnin? Fer mikið af gærum beint á haugana? Sú spurning vaknar þegar við ræðum þessi mál hvort hægt sé að hrinda af stað einhverju starfi eða átaki til að koma þessari vöru á markað.

Þegar ég var drengur í sveit fór ég með þvegna ull og lagði hana inn í Gefjun á Akureyri þar sem mikil framleiðsla var á teppum og annarri vöru sem var seld til Rússlands. Olía var keypt í staðinn og mikið var látið með íslenska ull. En mikið hefur breyst frá þeim tíma og manni rennur oft til rifja að hugsa um það af því íslenska ullin er svolítið sérstök með sín löngu hár. Því vakna þær spurningar hvort hægt sé að gera eitthvað til þess að skapa meiri verðmæti svo bændur fái meira fyrir sína ull og þær gærur sem koma af fénu sem er slátrað.

Nú er reyndar í bígerð að koma upp stofnun eða safni norður á Ströndum sem verður helgað sauðfé. Ekki er seinna vænna því mér finnst oft eins og blikur séu á lofti í sambandi við sauðfjárbúskapinn. Þessi mál hafa verið dálítið erfið, t.d. sláturhúsmálin öll og ýmislegt annað. Spurningin er náttúrlega hvað sé hægt að gera til að hressa upp á þessa atvinnugrein. Ég held að hægt sé að breyta ýmsu þannig að bændur komi meira að þessu sjálfir og ég vona að það verði þannig í framtíðinni.

Um þetta frv. er ekkert annað að segja en að það fer til landbn. og menn munu fjalla um það þar. Ég vænti þess að þar fái það góða umfjöllun.