Útflutningur hrossa

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 18:12:12 (3462)

2002-01-22 18:12:12# 127. lþ. 57.6 fundur 357. mál: #A útflutningur hrossa# (heildarlög) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[18:12]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um útflutning hrossa. Frv. er flutt á þskj. 497 og er 357. mál þingsins.

Frv. þessu, ef samþykkt verður, er ætlað að leysa af hólmi gildandi lög um útflutning hrossa nr. 161/1994, með síðari breytingum. Frv. felur í sér þá meginbreytingu að lagt er til að hætt verði innheimtu gjalds af hverju útfluttu hrossi. Gjaldið er nú 6.800 kr. af hverju hrossi og er fé það sem innheimtist notað til þess að greiða kostnað við heilbrigðisskoðun útflutningshrossa og útgáfu upprunavottorða. Því fé sem afgangs kann að verða er varið til útflutnings- og markaðsmála. Þá renna 5% af innheimtugjaldi í stofnverndarsjóð samkvæmt 15. gr. búnaðarlaga.

Frá því að útflutningsgjaldið var síðast ákveðið með lögum nr. 15/1999 hefur kostnaður við skoðun á útflutningshrossum og útgáfu upprunavottorða hækkað stórlega og er nú svo komið að lítið sem ekkert fé er eftir til ráðstöfunar vegna útflutnings- og markaðsmála. Rætt hefur verið um hækkun útflutningsgjaldsins í því skyni að fá aukið fé til sameiginlegra markaðsaðgerða, en eindregin andstaða hefur komið fram við þá hugmynd meðal hagsmunaaðila. Þegar svo er komið að útflutningsgjaldið hrekkur vart fyrir þeim kostnaði sem því er ætlað að greiða og ekki er samstaða um það meðal hagsmunaaðila að afla með þessum hætti fjár til sameiginlegra markaðsstarfa, er vandséð hvaða tilgangi það þjónar að innheimta fé í sjóð til þess að greiða kostnað við skoðun á útflutningshrossum og útgáfu upprunavottorða. Eðlilegt er að hrossaútflytjendur greiði þennan kostnað milliliðalaust samkvæmt gjaldskrá sjálfir.

Önnur meginbreytingin sem frv. kveður á um varðar heilbrigðisskoðun útflutningshrossa og felur hún í sér nokkra einföldun frá því sem nú er. Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að kaupendur hrossa óski eftir ítarlegri heilbrigðisskoðun en hin opinbera eftirlitsskoðun gerir ráð fyrir. Rétt þykir að hér sé skilið á milli og hið opinbera eftirlit taki einungis til ákveðinna grunnþátta sem varða útlit og heilbrigði hrossanna, og atriða sem heilbrigðisyfirvöld í innflutningslandi krefjast. Heilbrigðisskoðun útflutningshrossa umfram það sé samkomulagsatriði milli kaupanda og seljanda.

Þriðja meginbreytingin varðar útgáfu upprunavottorða. Ákvæði frv. fela það í sér að upprunavottorðið verði mun ítarlegra en verið hefur og um verði að ræða eins konar vegabréf sem fylgi hrossinu ævilangt. Þetta er í samræmi við þær skuldbindingar sem Ísland hefur tekið á sig sem upprunaland íslenska hestsins og kröfur sem gerðar eru til hrossa í helstu viðskiptalöndum þar sem krafist er upprunavottorðs/vegabréfs þegar hross eru flutt milli landa. Ákvæði er um að öll útflutningshross skuli örmerkt eða frostmerkt, en það er grundvallaratriði fyrir trúverðugleika upprunavottorðs.

Í þessu breytta fyrirkomulagi felst verulegt hagræði fyrir kaupendur íslenskra hrossa, sem hafa fram til þessa þurft að láta skrá hross sín sérstaklega í heimalandi sínu og fylgir því umtalsverður kostnaður. Hér er því um að ræða mikilvæga þjónustu við kaupendur hrossanna sem líkleg er til að greiða fyrir útflutningi.

Frv. gerir ráð fyrir að áfram verði innheimt gjald í stofnverndarsjóð. Samkvæmt gildandi lögum renna 5% af útflutningsgjaldi í stofnverndarsjóð, en með frv. er lagt til að gjaldið nemi 500 kr. af hverju útfluttu hrossi.

Hæstv. forseti. Frv. þetta er samið í landbrn. í náinni samvinnu við útflutnings- og markaðsnefnd þar sem sæti eiga, auk fulltrúa ráðuneytisins, yfirdýralæknir og fulltrúar Bændasamtaka Íslands, Félags hrossabænda og Félags hrossaútflytjenda. Það er skoðun mín að þær breytingar sem frv. felur í sér séu jákvæðar fyrir þá miklu þróun sem nú á sér stað í hrossarækt og hestamennsku og séu til þess fallnar að greiða fyrir útflutningi hrossa.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.