Áhrif lækkunar tekjuskatts

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 13:42:23 (3464)

2002-01-23 13:42:23# 127. lþ. 59.1 fundur 351. mál: #A áhrif lækkunar tekjuskatts# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[13:42]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Fyrsta spurning hv. þm. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Hvaða áhrif hefur lækkun tekjuskatts á fyrirtæki úr 30% í 18%, 11% eða 0% ein sér á gengi hlutabréfa, þ.e. óháð öðrum öðrum breytingum?``

Svar: Verðmæti fyrirtækja fer eftir fjölmörgum þáttum. Fjárfestar nota ólíkar aðferðir við mat á verðmæti fyrirtækja og komast að ólíkri niðurstöðu. Lækkun tekjuskatts hækkar að öðru jöfnu verðmæti fyrirtækja. Sé verðmæti fundið út frá núvirði áætlaðs hreins sjóðsstreymis fyrirtækis í einföldustu mynd hækkar verðmætið að öllu öðru óbreyttu um 17% við tekjuskattslækkun úr 30% í 18%, um 27% við tekjuskattslækkun úr 30% í 11% og um 43% við afnám tekjuskatts.

Önnur spurning hv. þm. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Hvert er verðmæti óselds hluta ríkissjóðs í Landsbankanum hf. og Búnaðarbankanum hf. miðað við verð á markaði daginn fyrir tilkynningu um lækkun tekjuskatts á fyrirtæki úr 30% í 18%? Hvert er verðmat á óseldum hluta Landssímans hf. miðað við 30% tekjuskatt?``

Svarið er eftirfarandi: Verðmæti óselds hluta ríkissjóðs í Landsbanka og Búnaðarbanka var um 26,2 milljarðar kr. 2. október sl. en tilkynnt var um skattalækkanir ríkisstjórnarinnar 3. október. Verðmat á óseldum hluta Landssímans miðað við 30% tekjuskatt er um 38,4 milljarðar kr.

Þriðja spurning hv. þm. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Hvað hækkar samanlagður óseldur eignarhluti ríkisins í Landsbankanum hf., Búnaðarbankanum hf. og Landssímanum hf. við lækkun tekjuskatts úr 30% í 18%, 11% eða 0%? Hvað kostar lækkun tekjuskatts ríkissjóð árlega miðað við óbreyttan skattstofn?``

Svar: Ekki er hægt að svara því hvaða áhrif lækkun tekjuskatts hefur á verðmæti þessara þriggja fyrirtækja á markaði. Sem vísbendingu má þó nefna að verðmæti eignarhluta ríkissjóðs í Landsbanka og Búnaðarbanka hækkaði um 9% eftir tilkynningu um skattalækkanir ríkisstjórnarinnar þann 3. okt. sl.

Í fjárlögum ársins 2002 er tekjuskattur á fyrirtæki áætlaður um 6,5 milljarðar kr.