Áhrif lækkunar tekjuskatts

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 13:50:19 (3469)

2002-01-23 13:50:19# 127. lþ. 59.1 fundur 351. mál: #A áhrif lækkunar tekjuskatts# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi PHB
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[13:50]

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svörin sem voru mjög gagnmerk og skýr og einmitt í þeim anda sem ég hélt fram fyrir jól þegar ég flutti breytingartillögu mína. Ég þakka enn fremur þá umræðu sem hér hefur átt sér stað og vil rétt aðeins koma inn á það að að sjálfsögðu er velferðarkerfið mjög nauðsynlegur þáttur í rekstri fyrirtækja. Ég hef alltaf verið hlynntur velferðarkerfinu og vil gott og skilvirkt velferðarkerfi, en líka ódýrt.

Þá er það líka rétt sem kom fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það voru fáir kaupendur. Þegar skattar eru lækkaðir vex fjöldi kaupenda ef eitthvað er. Hann vex en þeim fækkar ekki þannig að líkur á því að selja fyrirtækin aukast þegar skattar eru lækkaðir.

Síðan var rætt um að verðbréfamarkaðurinn tekur tillit til margra ára, 10--15 ára. Það gera skattalögin líka. Við erum ekki að setja lög sem eiga að gilda í eitt ár. Skattalög gilda í mörg ár og það vita fjárfestar. Þeir taka mið af því í útreikningum sínum. Eftir að þessi lög voru samþykkt hefur úrvalsvísitalan farið á skrið. Líta má á það sem gjöf til hlutafjáreigenda í landinu en það er jafnframt gjöf til þeirra Íslendinga sem vilja fá vinnu vegna þess að hækkun á hlutabréfamarkaði þýðir auknar fjárfestingar, aukna nýsköpun og miklu meira líf í atvinnulífið, miklu bjartara er fram undan, meiri bjartsýni og það er gott fyrir alla á Íslandi og alveg sérstaklega þá sem eru á lágum launum og atvinnuleysið bitnar mest á og öryrkjum sem fá þá vinnu sem þeir ella ekki fengju. (Gripið fram í: Hallelúja.)