Áhrif lækkunar tekjuskatts

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 13:52:10 (3470)

2002-01-23 13:52:10# 127. lþ. 59.1 fundur 351. mál: #A áhrif lækkunar tekjuskatts# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[13:52]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það sem mér finnst furðulegast við þessa umræðu er hve margir vilja ótilknúnir taka þátt í henni fyrst hún er svona furðuleg. Ég sem ráðherra get ekkert annað en svarað þeim fyrirspurnum sem mér berast og lagði mig fram um að svara þessari fyrirspurn málefnalega eins og ávallt.

Það sem hefur komið fram í umræðunni er athyglisvert, m.a. það sem kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Hann talaði eins og ég hafi talað fyrir því að leggja niður skatta. Það geri ég alls ekki. Ég vil hér sterkt velferðarkerfi og geri mér fulla grein fyrir því að þeir 6,5 milljarðar sem innheimtast á ári hverju vegna tekjuskatts á fyrirtæki skipta miklu máli fyrir velferðarkerfið.

Ég vil hins vegar taka undir með hv. fyrirspyrjanda að þær aðgerðir sem ákveðnar voru af hálfu ríkisstjórnar og Alþingis í desember skiptu miklu máli fyrir bæði atvinnulífið og fjármagnsmarkaðinn. Úrvalsvísitalan hefur verið að hækka og ég held að það skipti miklu máli og við hljótum öll að geta glaðst yfir því.

Við búum í gjörbreyttum heimi --- mér finnst ekki mikið þó hv. þm. Vinstri grænna geri sér ekki grein fyrir því --- þar sem fyrirtæki eru skráð á markaði og máli skiptir að þau séu verðmæt. Ég tala hins vegar ekki fyrir því að hætt verði að inneimta tekjuskatt í þessu landi. Það mundi ég ekki gera og ekki treysta mér til.

Að öðru leyti held ég að þessi umræða hafi verið bara ágæt þó hún hafi kannski verið svolítið furðuleg á köflum. (ÖJ: Undir það skal tekið.)