Forvarnasjóður

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 13:57:20 (3472)

2002-01-23 13:57:20# 127. lþ. 59.2 fundur 352. mál: #A Forvarnasjóður# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[13:57]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr: ,,Hvað hefur Forvarnasjóður mikið fé til ráðstöfunar árlega og hversu miklu fé er ráð stafað til verkefna? Hversu stór hluti fjárins fer til verkefna utan höfuðborgarsvæðisins?``

Áfengis- og vímuvarnaráðs hefur farið með stjórn sjóðsins frá 1999 og gerði tillögur um úthlutun úr honum til heilbrrh. samkvæmt lögum um áfengis- og vímuvarnaráð, nr. 76/1998, og lögum um gjald á áfengi, nr. 96/1995. Upphæðir úr sjóðnum á tímabilinu hafa verið eftirfarandi: Árið 1999 55 millj. kr. Þar af var 30,8 millj. varið til áfangaheimila og verkefna eða um 56%. Árið 2000 70,6 millj. kr., þar af 46,5 millj. til áfangaheimila og verkefna eða 66%. Árið 2001 80,3 millj. kr., þar af 50,9 millj. varið til áfangaheimila og verkefna eða 63%. Árið 2002 var það 79,3 millj. samkvæmt fjárlögum. Áætlað hefur verið að 47 millj. af því fari til áfangaheimila og verkefna eða 59%.

Yfirlit yfir úthlutanir styrkja úr Forvarnasjóði árin 1999, 2000 og 2001 er að finna á heimasíðu áfengis- og vímuvarnaráðs og í ársskýrslu ráðsins sem alþingismönnum hefur verið send.

Við úthlutun styrkja hefur verið hugað að jafnvægi milli landshluta, niðurstöðu nýjustu kannana og fyrirliggjandi upplýsingum um vímuefnaneyslu í samfélaginu og forvarnir. Ráðið hefur að leiðarljósi að styrkja verkefni sem lúta að grasrótarstarfi í sveitarfélögum eða foreldra og ungmenna innan heilsugæslu, skóla, leikskóla, tómstundastarfs og sem varða eftirlit og löggæslu á sviði vímuvarna. Erfitt er að meta nákvæmlega hve stór hluti sjóðsins fer til verkefna utan höfuðborgarsvæðisins þar sem sum verkefnin hafa náð til alls landsins, t.d. sveitarfélaga, þ.e. verkefni SÁÁ og heilbrrn., Ísland án eiturlyfja, foreldrasamningur Heimilis og skóla og starf UMFÍ. Auk þess hefur hluta af Forvarnasjóði verið varið til rannsókna til að grundvalla frekara forvarnastarf á. Þessar rannsóknir hafa verið kynntar opinberlega jafnóðum og grunnniðurstöður liggja fyrir. Niðurstöður þessara rannsókna nýtast um allt land.

Þá er spurt hversu mörg verkefni Forvarnasjóður styrkir og hvernig kynjaskiptingu í stjórnum þeirra samtaka og félaga sem fengu styrki árið 2000 er háttað.

Frá 1999 hafa 29--45 verkefni og sex áfangaheimili verið styrkt af Forvarnasjóði árlega. Í umsögnum um sjóðinn er ekki spurt um kyn og ráðið hefur ekki upplýsingar um kynjaskiptingu í stjórnum þeirra stofnana, samtaka og félaga sem hlotið hafa styrki.

Þriðja spurning er:

,,Hvernig er háttað úthlutun úr Forvarnasjóði og:

a. hver metur þörf fyrir verkefni og hvaða verklag er haft við val verkefna,

b. hvernig er fylgst með framvindu verkefna og hver annast það,

c. hvernig er háttað eftirfylgni og mati á árangri og hver annast það verk?``

[14:00]

Síðan áfengis- og vímuefnaráð tók við stjórn Forvarnasjóðs hefur árlega verið sótt samanlagt um nálega 150 millj. kr. til um 100 verkefna og úthlutun fer fram einu sinni á ári. Starfsfólk áfengis- og vímuvarnaráðs flokkar umsóknirnar og sendir umsækjendum tilkynningu um móttöku þegar umsóknarfrestur er liðinn. Allar umsóknir eru sendar til formanns, varaformanns og allra aðalfulltrúa ráðsins ásamt yfirlitslista yfir þær. Ráðið velur verkefni með hliðsjón af stefnu ráðsins og framkvæmdaáætlun á tveimur til þremur fundum. Endanleg tillaga er samþykkt formlega á mánaðarlegum fundi ráðsins og send heilbrrh. Að fengnum athugasemdum hans er öllum umsækjendum sent svar um hvort þeir hafa hlotið styrk eða ekki.

Styrkir undir 500 þús. eru greiddir út í einu lagi en hærri styrkir í tvennu lagi. Áfengis- og vímuvarnaráð gerir kröfur um að styrkþegar skili ítarlegri skýrslu um framkvæmd verkefnisins, árangur af því, til hverra og hve margra það nær og endurskoðuðum reikningum yfir verkið. Sé styrkur greiddur út í tvennu lagi er síðari greiðsla ekki afgreidd fyrr en viðkomandi framvinduskýrslu hefur verið skilað.

Áfengis- og vímuvarnaráð telur það skyldu sína að fylgjast með framkvæmd og árangri verkefna eftir því sem framast er unnt. Fjölþætt mat á árangri verkefna er dýrt í framkvæmd og því hefur ráðið valið að byrja á að meta fjárfrekustu verkefnin. Að öðru leyti fylgjast formaður, framkvæmdastjóri og fulltrúar áfengis- og vímuvarnaráðs með framkvæmd verkefna eftir því sem kostur er með heimsóknum, símtölum og fyrirspurnum meðal þátttakenda í verkefnunum.

Styrkur til verkefnisins skuldbindur hvorki áfengis- og vímuvarnaráð né heilbrrh. til að halda áfram styrkveitingu til verkefnis sem í ljós kemur að ekki er staðið að á viðunandi hátt.