Sjúkrahótel

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 14:10:59 (3478)

2002-01-23 14:10:59# 127. lþ. 59.3 fundur 364. mál: #A sjúkrahótel# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[14:10]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Við afgreiðslu frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem afgreitt var skömmu fyrir jól, urðu töluverðar umræður um sjúkrahótel vegna ákvæðis í lögunum um að taka sjúkrahótel undan skilgreiningu á sjúkrahúsum svo hægt væri að taka gjald af sjúklingum sem þar dveljast. Umræðan snerist því aðallega um álögur á sjúklinga en ekki um sjúkrahótel sem hluta af heilbrigðisþjónustunni.

Rekstrarvandi Rauða krossinns er aftur á móti sá að innritaðir hafa verið miklu fleiri sjúklingar en daggjöld hafa verið greidd fyrir. Rekstrarvandinn er verulegur. Hann þarf að leiðrétta en ég mun ekki fjalla um hann í þessari fyrirspurn.

Hröð þróun innan heilbrigðisþjónustunnar, hátæknibúnaður, sérfræðiþjónusta utan sjúkrahúsa, minni inngrip við aðgerðir og flókin lyfjameðferð hefur haft áhrif á innlagningartíma sjúklinga, sérstaklega við stærri sjúkrahúsin. Þessi þróun kallar á nýjar lausnir því þó að sjúklingar þurfi ekki á sértækri þjónustu sjúkrahúsanna að halda þá eru þeir oft of veikir til þess að útskrifast og snúa heim. Þetta á bæði við um þá sjúklinga sem búa fjarri sjúkrahúsinu og Reykvíkinga sem eru of lasburða til að búa heima, of veikir til að fá heimahjúkrun frá viðkomandi heilsugæslu eða heimahlynningu.

Sjúkrahótel Rauða kross Íslands hefur verið starfrækt frá árinu 1974. Úrræðaleysi fólks af landsbyggðinni, þegar það var í sjúkrahústengdri meðferð, var hvatinn að rekstri sjúkrahótelsins og enn er þörfin fyrir hendi.

Árið 1990 var mikil umræða um hvort nýta mætti betur það þjónustuform sem sjúkrahótel býður upp á. Sú umræða tengdist leit að nýjum úrræðum til að stytta legutíma sjúklinga á sjúkrahúsum vegna minnkaðs fjármagns til heilbrigðisstofnana. Sjúkrahótel eru rekin með mismunandi hætti á Norðurlöndunum, allt frá því að vera hluti af sjúkrahúsrekstrinum eða heilbrigðisþjónustunni yfir í sjálfstætt rekstrarform.

Megintilgangur með rekstri sjúkrahótela er aukin rekstrarhagkvæmni, að þjónustuformið henti ákveðnum sjúklingahópum, þ.e. sé valkostur, að boðið sé upp á val á milli sjúkrahótels og sjúkrahúsdvalar.

Því spyr ég hæstv. heilbrrh.:

1. Hefur ráðherra látið kanna hagkvæmni sjúkrahótela

a. fyrir sjúklinga,

b. fyrir heilbrigðisþjónustuna,

c. fyrir ríkissjóð,

d. fyrir Tryggingastofnun ríkisins?

2. Hve mörgum sjúklingum hefur verið vísað frá gistingu á sjúkrahóteli Rauða krossins undanfarin fimm ár, sundurliðað eftir árum?

3. Hver er meðalgistitími sjúklinga á sjúkrahóteli Rauða krossins?

4. Hyggst ráðherra beita sér fyrir rekstri sjúkrahótela/sjúkraheimila innan heilbrigðisþjónustunnar og, ef svo er, hvenær má búast við að framkvæmdaáætlun verði lögð fram?