Sjúkrahótel

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 14:19:49 (3481)

2002-01-23 14:19:49# 127. lþ. 59.3 fundur 364. mál: #A sjúkrahótel# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[14:19]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hér eru sjúkrahótelin aftur til umræðu frá því í fjárlagaumræðunni. Við erum reyndar ekki að ræða um gjaldtökuna, þó að hún hafi aðeins komið inn í umræðuna en ég hef verið mjög andvíg því að verið sé að taka gjald af fólki sem er utan af landi og fær ekki þjónustu þar og verður þess vegna að dvelja hér, eða þá aldrað fólk sem getur ekki verið heima hjá sér og rekur heimili annars staðar. Ég er því andvíg slíkri gjaldtöku.

En það er alveg greinilegt að mikil þörf er fyrir sjúkrahótelin og það sýna þær tölur sem komu hér fram um að tíu hafi verið vísað frá á síðasta ári. En ég spyr: Hefur hæstv. ráðherra upplýsingar um hversu mörgum hefur verið vísað til baka inn á sjúkrahúsin aftur vegna þess að þeir hafi verið of veikir til að vera á sjúkrahótelinu? Ég veit að það eru tilfelli í þá veru. Það væri gagnlegt að fá einmitt þær upplýsingar til viðbótar: Hversu margir og hversu oft er fólk sent til baka vegna þess að það er of veikt til að vera á sjúkrahótelunum? En því miður hefur þróunin verið sú að æ veikara fólk fer inn á sjúkrahótel.