Húsnæði Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 14:29:33 (3485)

2002-01-23 14:29:33# 127. lþ. 59.4 fundur 376. mál: #A húsnæði Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[14:29]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Ásta Möller beinir til mín fyrirspurn um hverjar séu hugmyndir ráðherra um framtíðarnýtingu húsnæðis Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur.

Heilsuverndarstöðin var, eins og komið hefur fram, byggð á árunum 1949--1955. Húsið var reist fyrir stjórnsýslu í heilbrigðisþjónustu Reykjavíkurborgar annars vegar og hins vegar fyrir ýmiss konar klíniska starfsemi. Notkun hússins hefur að mestu leyti verið í samræmi við þessar upphafshugmyndir að öðru leyti en því að ríkið rekur nú í húsinu ýmsa starfsemi og sumt af því sá borgin um áður. Byggt var af stórhug og telja margir Heilsuverndarstöðina með fegurstu byggingum borgarinnar, enda er hún talin eitt af athyglisverðustu hönnunarverkefnum Einars Sveinssonar arkitekts.

[14:30]

Í huga Reykvíkinga eins og svo margra annarra íbúa landsins er þessi bygging tákn fyrir heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Heilsuverndarstöðin er 4.447 m2 að flatarmáli og rétt er að taka fram í upphafi máls að það er Reykjavíkurborg sem á 60% hússins og ríkið 40% á móti borginni. Það leiðir því af sjálfu sér að ríkið getur ekki einhliða ráðstafað eign sem það á minni hluta í. Viðræður hafa hins vegar átt sér stað um eignarhluta milli heilbrrh. og borgarstjóra en Reykjavíkurborg hefur ítrekað óskað eftir að selja sinn hluta.

Verðgildi eignarinnar hefur verið skoðað, m.a. með því að framreikna byggingarkostnað og meta hvað sambærilegt hús kostar í byggingu nú. Enginn þeirra sem um málið hafa fjallað á vegum heilbr.- og trmrn. hefur lagt til að þessi eign yrði seld, bæði vegna sögulegs gildis hennar og þeirrar þjónustu sem hún veitir.

Í húsi Heilsuverndarstöðvarinnar er nú m.a. miðstöð mæðraverndar, miðstöð ungbarnaverndar, göngudeild berkla- og lungnasjúklinga, atvinnusjúkdómadeild, miðstöð tannverndar, manneldisráð, áfengis- og vímuvarnaráð, skrifstofa héraðslæknisins í Reykjavík, bólusetningar ferðamanna, fjölskylduskrifstofa vímuefnavarna auk allrar stjórnsýslu heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Allt húsnæðið er nýtt vegna heilsugæslumála nema efsta hæðin sem hefur verið opin læknastúdentum til lesturs. Sú hæð er hönnuð fyrir langlegusjúklinga en mætir ekki lengur kröfum til sjúkardeildar og hefur ekki verið haldið eins mikið við og hinum hæðunum.

Margvíslegar hugmyndir um breytingar á notkun hússins hafa komið til skoðunar á undanförnum árum eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda. Skoðað var hvort húsið gæti hentað fyrir hjúkrunarheimili aldraðra með göngudeildum og dagdeildum. Horfið var frá þeirri hugmynd þegar ljóst var að sú tillaga mundi krefjast kostnaðarsamra framkvæmda. Heilbrrn. er í húsnæðisleit, og kannað hefur verið hvort koma mætti því fyrir í Heilsuverndarstöðinni. Nú er leitað annarra leiða í samræmi við þá stefnu sem mörkuð hefur verið að öll ráðuneyti séu í námunda við Arnarhvol. Landlæknisembættið hefur verið að leita eftir rýmra húsnæði en það býr nú við, og hefur verið kannað hvort Heilsuverndarstöðin hentaði því embætti. Annað húsnæði hefur þótt henta betur en ekki er enn komin niðurstaða í það mál.

Ljóst er að Landspítali -- háskólasjúkrahús gæti nýtt húsnæðið á Heilsuverndarstöðinni, m.a. fyrir göngudeildarstarfsemi. Einkafyrirtæki kannaði möguleika á að kaupa húsið fyrir fyrirtækjarekstur fyrir nokkrum árum.

Tvær nefndir hafa fjallað sérstaklega um framtíðarnýtingu hússins án þess að komast að endanlegri niðurstöðu um framtíðarnýtingu þess. Rætt hefur verið um að nýta húsið undir hugsanlega forvarnamiðstöð en ákveðið var að skoða þær hugmyndir frekar og velta síðan fyrir sér nýtingu húsnæðisins í þágu stofnunarinnar ef hugmyndirnar yrðu að veruleika. Nú er verið að skoða hugmyndir um forvarnamiðstöð en ég undirstrika að forvarnamiðstöð snýst ekki um hús eða staðsetningu heldur þá starfsemi sem rúmaðist á vettvangi slíkrar stofnunar.

Virðulegi forseti. Samandregið teldi ég æskilegast að ríkið eignaðist hlut borgarinnar í húsi Heilsuverndarstöðvarinnar og þannig yrði tryggt að húsið nýttist áfram í þágu heilbrigðisþjónustu. Ég tel nauðsynlegt að ná sem fyrst samkomulagi við borgina um slíka ráðstöfun og taka síðan ákvarðanir í framhaldi af því.