Húsnæði Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 14:33:52 (3486)

2002-01-23 14:33:52# 127. lþ. 59.4 fundur 376. mál: #A húsnæði Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KF
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[14:33]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Heilsuverndarstöðin er falleg bygging í hjarta Reykjavíkur og tengist órjúfanlegum böndum heilsuvernd og heilbrigðisþjónustu við borgarbúa. Ég fagna þessari fyrirspurn frá hv. þm. Ástu Möller til heilbrrh. því að umræða um framtíð þessa húsnæðis skiptir auðvitað máli. Komið hefur fram hvaða starfsemi fer fram í húsinu en ég vil minna á að menn hafa stefnt að því að reyna að gera vel við heilsugæsluna. Hæstv. heilbrrh. hefur haft það sem sérstakt áhugamál sitt. Ég tel að heilsugæslan þurfi á þessu húsi að halda og veiti ekkert af því. Það eru u.þ.b. 285 m2 sem eru ónýttir á 4. hæð hússins. Að öðru leyti er heilsugæslan með þetta hús.

Hitt er svo annað mál að kannski ætti heilsugæslan að fara aftur til sveitarfélaga en það er órætt mál. Úr því að borgin á 60% af húsinu veltir maður fyrir sér hvort þetta fyrirkomulag gæti ekki varað enn um sinn ef okkur tækist að koma heilsugæslunni yfir til sveitarfélaga aftur.