Sjóðir starfsfólks heilsugæslustöðva

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 14:42:52 (3490)

2002-01-23 14:42:52# 127. lþ. 59.5 fundur 382. mál: #A sjóðir starfsfólks heilsugæslustöðva# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[14:42]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Borist hefur viðamikil fyrirspurn frá hv. þm. Pétri Blöndal um tíundarsjóð heilsugæslustöðva.

,,1. Eru til sjóðir sem í rennur hlutur komugjalda til heilsugæslustöðva, svokölluð tíund, og eru m.a. nýttir fyrir heilsugæslustarfsfólk til ferðalaga og skemmtanahalds eins og kom fram í DV 7. des. sl.?``

Nú verð ég að segja áður en ég svara að það er nokkuð óvenjulegt að fá fyrirspurnir sem eru byggðar á einhverjum flugufregnum í blöðum, en látum gott heita. Svarið er að í 2. gr. reglugerðar nr. 582/1991, um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu, er kveðið á um að af komugjöldum sem renna til reksturs heilsugæslustöðvar skal leggja 10% í sérstakan sjóð sem stjórn stöðvarinnar annast. Úr sjóðnum má stjórnin ráðstafa fé til tækjakaupa, endurbóta á aðstöðu, til viðhaldsmenntunar starfsmanna og þess háttar. Sjóðstjórn setur reglur um ráðstöfun fjárins sem ráðherra staðfestir.

Með reglugerð nr. 953/2001, um breytingu á reglugerð nr. 68/1996, um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu, er 5. gr. reglugerðarinnar um 10%-sjóð heilsugæslustöðva felld niður. Það fé sem áður rann í 10%-sjóð heilsugæslustöðva mun frá og með 1. janúar 2002 renna til reksturs heilsugæslustöðva almennt, þar með talið til tækjakaupa, endurbóta á aðstöðu og til viðhaldsmenntunar starfsmanna.

,,2. Ef svo er, hvert er hlutverk þessara sjóða?``

Hlutverk sjóðanna var að ráðstafa fé til endurbóta á aðstöðu starfseminnar, til viðhaldsmenntunar starfsmanna og að styðja þróunar- og rannsóknarstörf. Úr sjóðnum mátti ráðstafa fé til tækjakaupa, endurbóta á aðstöðu, til viðhaldsmenntunar starfsmanna til að auka hæfni starfsmanna heilsugæslustöðva. Sérstök sjóðstjórn setti reglur um ráðstöfun fjárins sem ráðherra staðfesti. Sjóðnum var ekki ætlað að styrkja hópferðir starfsmanna innan lands eða utan. Um skemmtanasjóði starfsmanna var því ekki að ræða eins og látið er liggja að í fyrirspurninni. Eðlilegt verður að telja að einhver hluti rekstrarkostnaðar fari til endurmenntunar starfsmanna.

[14:45]

,,3. Ef svo er, hverjar eru tekjur sjóðanna? Er um þóknun fyrir innheimtu skatta eða þjónustugjalds að ræða og á hvaða lagagrunni byggist hún?``

Tekjur sjóðanna voru 10% tekna heilsugæslustöðva af komugjöldum. Ekki var um innheimtu skatta að ræða. Framangreind reglugerð heimilar heilsugæslustöðvum að innheimta komugjöld af sjúklingum og er sett með heimild í 20. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu.

,,4. Ef svo er, hversu mikið fé er til ráðstöfunar á ári?``

Fram kom í svörum frá heilsugæslustöðvum að ekki hafði verið lagt í tíundarsjóðinn í nokkur ár heldur hafi öllum tekjum verið varið í rekstur stöðvanna. Á sl. ári voru 20 millj. kr. lagðar í tíundarsjóði heilsugæslustöðva.

,,5. Ef svo er, hverjir fá úthlutað og eftir hvaða reglum?``

Hver heilsugæslustöð setti reglur um úthlutun úr sjóðnum sem ráðherra staðfesti.

,,6. Ef svo er, hvaða styrkir hafa verið veittir á þessu ári úr sjóðunum?``

Svarið við því er að notkun sjóðsins hafi verið mismunandi og sjóðirnir einnig verið missterkir vegna mismunandi stærðar stöðvanna. Alls var um 23 millj. kr. ráðstafað úr tíundarsjóðum heilsugæslustöðva á síðasta ári. Rúmum 12 millj. kr. var ráðstafað til viðhaldsmenntunar starfsmanna. Um 600 þús. kr. var ráðstafað til tækjakaupa. Á sl. ári fóru heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu út í viðamikið stefnumótunarverkefni. Var þetta samstarfsverkefni heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Kostnaður við verkefnið var fjármagnaður af tíundarsjóði stöðvanna, tæpar 8 millj. kr. á síðasta ári.

Við samruna heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa í heilbrigðisstofnanir víða um land sköpuðust ný vandamál með þessa sjóði þar sem einungis var heimilt að leggja 10% af komugjöldum heilsugæslustöðva í tíundarsjóð, en ekki var heimilt að nýta tekjur sjúkrahúsa á þennan hátt.

,,7. Njóta starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins og stofnana þess svipaðra eða annarra fríðinda eða styrkja? Eru slík hlunnindi skattskyld?``

Svarið við því er að á vegum heilbrrn. og stofnana þess eru engir sjóðir sem úthluta fríðindum til starfsmanna.

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þm. Pétur H. Böndal hafi fengið svarað helstu þáttum fyrirspurnarinnar, en ítreka þær breytingar sem urðu með setningu reglugerðar nr. 953/2001.