Sjóðir starfsfólks heilsugæslustöðva

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 14:49:03 (3492)

2002-01-23 14:49:03# 127. lþ. 59.5 fundur 382. mál: #A sjóðir starfsfólks heilsugæslustöðva# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[14:49]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Mér vitanlega var tíundarsjóðurinn ekki notaður til skemmtanahalds. Aftur á móti var hann þau tíu ár --- en eins og komið hefur fram er hann nú aflagður --- mikilvægur fyrir starfsmenn og heilbrigðisstofnanir sem sérstakur afmarkaður sjóður sem hægt var að vísa í þegar starfsmenn óskuðu eftir að fara á endurmenntunarnámskeið og vegna símenntunar og eins til tækjakaupa og viðhalds. Þetta var afmarkaður tekjustofn sem var þá haldinn í ákveðnum tilgangi.

Ég hefði frekar áhyggjur af því nú, herra forseti, að þegar þessi tíund rennur inn í almennan rekstur, þá verði erfiðara að klípa þá tíund frá til endurmenntunar, símenntunar og viðhalds, tækjakaupa og til stefnumótunar á stofnunum, þar sem erfiðleikar í daglegum rekstri gætu dregið úr framlögum.