Sjóðir starfsfólks heilsugæslustöðva

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 14:54:15 (3495)

2002-01-23 14:54:15# 127. lþ. 59.5 fundur 382. mál: #A sjóðir starfsfólks heilsugæslustöðva# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[14:54]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Í fyrsta lagi varðandi notkun sjóðsins á sínum tíma, þá vísa ég því á bug að sá sjóður hafi verið notaður til skemmtanahalds og vil undirstrika það sérstaklega.

Í öðru lagi vil ég undirstrika að ætlunin er að heilsugæslustöðvarnar nýti þá fjármuni sem koma inn eftir breytinguna á svipaðan hátt og áður. Og ég vil undirstrika hlutverk stöðvanna í þágu endurmenntunar starfsfólks. Við í ráðuneytinu munum undirstrika þann þátt sérstaklega. Ekki er ætlunin að taka réttindi af starfsfólki þó að þarna sé um kerfisbreytingu að ræða.

Í sambandi við 7. liðinn, þá er mér ekki kunnugt um að sérstök fríðindi séu í gangi fyrir starfsmenn heilbrigðisstofnana. Hlunnindi starfsmanna, ef þau eru einhver, eru auðvitað skattlögð með sama hætti hjá heilbrigðisþjónustunni og öðrum sem njóta hlunninda í samfélaginu. En ef berast um það fyrirspurnir þá mun ég auðvitað fara yfir það mál. Í kjarasamningum lækna eru t.d. ákvæði varðandi endurmenntum, sterk ákvæði sem eru þar fyrir hendi, en það er bundið í kjarasamningum og hefur verið gengið frá því með venjubundnum hætti milli aðila. Og skattlagning þessi er með nákvæmlega sama hætti og skattlagning annarra hlunninda.

Ég vildi aðeins undirstrika að sú breyting sem gerð var um áramótin felur ekki í sér að taka eigi réttindi af starfsfólki. Við munum undirstrika það við yfirstjórn heilsugæslunnar að svo verði ekki.