Könnun á vegum OECD á námsgetu skólabarna

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 15:07:27 (3499)

2002-01-23 15:07:27# 127. lþ. 59.6 fundur 354. mál: #A könnun á vegum OECD á námsgetu skólabarna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[15:07]

Fyrirspyrjandi (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin og sérstaklega það að lögð verði áhersla á þá afburðanemendur sem eru þegar í landinu, að þeim beri að sinna betur, án þess þó að það verði gert á kostnað þess sem við erum að gera vel, þ.e. að sinna þeim sem eiga erfitt með nám. Það er mikilvægt að þetta komi fram.

Við höfum sem betur fer ekki lent í því sama og t.d. Þjóðverjar --- og getum því verið nokkuð stolt af þessari könnun --- sem setja á forsíðu stórtímarita þá spurningu hvort þýskir nemendur séu heimskir. Svo er ekki hér. En við verðum auðvitað að líta til þeirra landa líka sem hafa komið vel út úr þessari könnun, eins og Finnlands, Kanada, Japan og fleiri landa, en einnig til Þýskalands sem fær slíka falleinkunn. Þar eru kannski þau alvarlegu tilfelli á ferðinni að í ljós kemur að útlendingar, sem eru að verða stór hluti samfélagsins, verða eftir í skólakerfinu og greinilegt er að þar er núna verið að leggja mikla áherslu á að auka þýskukunnáttu meðal útlendinga sem búa í þýsku samfélagi. Þetta er hlutur sem ég tel að við, herra forseti, þurfum að huga að líka, að þeir útlendingar, og þeim fer fjölgandi hér, sem eru þátttakendur í samfélagi okkar öðlist góða og mikla íslenskukunnáttu þannig að þeir geti aðlagast samfélaginu á sem bestan hátt.