Útkallstími björgunarþyrlu og stjórn björgunaraðgerða

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 15:21:01 (3504)

2002-01-23 15:21:01# 127. lþ. 59.7 fundur 369. mál: #A útkallstími björgunarþyrlu og stjórn björgunaraðgerða# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., MS
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[15:21]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Tilefni þessarar fyrirspurnar er hið hörmulega sjóslys sem varð við Snæfellsnes í byrjun desember sl. Í því tilfelli kom í ljós að þyrla var eina björgunartækið sem gat bjargað skipbrotsmönnum við þær aðstæður.

Eftir þessa atburði leituðu á mig spurningar sem hæstv. dómsmrh. hefur reyndar svarað: Af hverju var ekki þegar í stað kallað eftir liðsauka frá þyrlu varnarliðsins við þær aðstæður sem þarna voru? Þær voru raunar eins vondar og þær geta verið. Í því sambandi er ekki síst um að ræða öryggi þyrlu Landhelgisgæslunnar og áhafnar hennar og auðvitað hefði liðsauki varnarliðsins getað aukið möguleika á björgun þeirra sem þarna lentu í sjávarháska.

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin sem hér komu fram sem lúta að því að Landhelgisgæslan og varnarliðið hafa átt viðræður um breytt samskipti hvað þetta varðar. Við megum eiga von á að í framtíðinni muni Landhelgisgæslan kalla eftir liðsauka varnarliðsins þegar aðstæður verða eins og hér um ræðir, sem við vonum auðvitað að verði aldrei.

Við búum í þessu landi við erfiðar aðstæður og öryggi sjómanna er auðvitað það sem skiptir okkur öll máli. Því fagna ég því sem fram kom hjá hæstv. ráðherra.