Útkallstími björgunarþyrlu og stjórn björgunaraðgerða

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 15:22:34 (3505)

2002-01-23 15:22:34# 127. lþ. 59.7 fundur 369. mál: #A útkallstími björgunarþyrlu og stjórn björgunaraðgerða# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[15:22]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Í kjölfar þessa slyss er ljóst hve þyrlur eru mikilvæg björgunartæki. Þess vegna langar mig að víkja að því ástandi sem ríkt hefur nú á annan mánuð í þyrlumálum Landhelgisgæslunnar, en aðeins tveir af þremur þyrluflugmönnum á þyrlu Landhelgisgæslunnar geta starfað vegna þeirrar dæmalausu uppákomu er eina fluglækni landsins var vikið úr starfi vegna þess að hann neitaði að skrifa vottorð eftir fyrirmælum samgrh. Því er enginn hér á landi til að staðfesta réttindi þriðja flugmannsins og því ekki hægt að nota báðar þyrlur Gæslunnar samtímis.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað hyggst hann gera í því alvarlega ástandi? Þó komið hafi fram í fréttum að ekki hafi skapast hættuástand þá getur það skapast. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað hyggst hann gera þannig að öryggismál og slysavarnir verði í viðunandi ástandi, bæði í þyrlumálum og einnig í umferðarmálum í Reykjavík, eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda?