Útkallstími björgunarþyrlu og stjórn björgunaraðgerða

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 15:25:35 (3507)

2002-01-23 15:25:35# 127. lþ. 59.7 fundur 369. mál: #A útkallstími björgunarþyrlu og stjórn björgunaraðgerða# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GAK
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[15:25]

Fyrirspyrjandi (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin sem hún gaf mér og þingmönnum fyrir að hafa tekið þátt í þessari umræðu.

Ég vil leggja áherslu á að ég tel að það þurfi að taka spurninguna um neyðarakstur til alvarlegrar skoðunar. Hvort þeir menn sem eru kallaðir út til þess að mæta í flug á þyrlu --- sem er bæði sjúkrabíll til sjós og lands, eins og það hefur stundum verið orðað --- þurfi ekki sérstakan forgang í akstri á götum borgarinnar til að komast leiðar sinnar. Ég held að það geti skipt þó nokkrum mínútum í sumum tilvikum, sérstaklega á álagstímum í umferð borgarinnar en eins og menn þekkja getur hún verið æðihægfara á stundum. Ég vildi beina því til dómsmrh. að það mál væri skoðað alveg sérstaklega.

Ég fagna því að það fyrirkomulag skuli hafa verið tekið upp að kalla strax út þyrlu varnarliðsins þegar aðstæður eru erfiðar. Það er ánægjulegt að slíkt fyrirkomulag skuli vera komið á. Það ber auðvitað að þakka varnarliðsmönnunum sérstaklega fyrir þeirra þátt í þessu máli og fyrir hið frækilega björgunarafrek.

Það er ævinlega erfitt að ræða mál sem tengjast slysum. Af þeim verðum við hins vegar að læra og ræða um þau, einnig um það alvarlega tilefni sem hér um ræðir.